30. janúar 2013

Guatemala city og Antigua


Jæja, og áfram heldur ferðin. Í fyrradag vöknuðum við, mishress reyndar. Inga var komin með magaverk, ógleði og hafði litla matarlist. Við ákváðum samt að drífa okkur í rútuna þótt hún tæki allan daginn því við vorum búin að eyða dáldið miklum tíma í Flores. Inga tók bara veltuveikislyf og það virtist slá á þetta vesen allt.

Við vorum komin upp á rútustöð kl. 09:30 og fórum beint inn í rútu. Við tóku 10 klst af akstri (um 450 km) í gegn um Guatemala. Aðeins var eitt stopp á leiðinni þar sem fólk fékk að fara út úr bílnum og komast á klósett og teygja úr löppunum. Þetta var frekar heit og sveitt rútuferð þar sem rútan var ekki sú besta þrátt fyrir að vera 1. classa rúta. Gírkassinn var við það að hrynja og við efuðumst um það í upphafi að hún myndi hafa það alla leið þvílíkir voru skruðningarnir og tannhjólasurgið þegar bílstjórarnir (sem voru 2) reyndu að koma henni í gíra. Loftræstingin virkaði eiginlega ekki sem varð til þess að framhurðinn var höfð opin langleiðina.

Bíllinn stoppaði sem betur fer ekki oft á leiðinni til að taka upp fólk eða hleypa því út. Hins vegar var mikil trukkaumferð sem hægði heldur betur ferðina á okkur. Það var samt gaman að fylgjast með varningnum sem trailer-arnir voru að flytja og fórum við til að mynda fram úr nokkrum bílum sem voru lestaðir af kúm og hænum, við fórum allavega fram úr einum trailer sem var fullur af ananas og 7 bílum sem voru fullir af appelsínum.

Þegar komið var myrkur um kl. 19:00 vorum við komin til Guatemala city sem er höfuðborg landsins og sú stærsta. Þarna búa rúmlega milljón manns. Við vorum búin að lesa okkur til um að þetta sé ein hættulegasta borg Mið-Ameríku. Borgin er skipt niður í svæði eða zone og varað var sérstaklega við því að fara inn á sum svæðin. Við völdum okkur hótel á þeim svæðum sem þóttu öruggari og tókum leigubíl þangað eftir að við vorum komin á rútustöðina.

Borgin virkaði á okkur sem grá fyrir járnum. Þarna voru endalaust margir öryggisverðir sem allir voru vopnaðir haglabyssum. Rimlar voru fyrir öllum gluggum og garðar voru girtir af með háum girðingum og gaddavírum þar ofan á. Í þeim búðum sem opnar voru um kvöldið var fólk afgreitt í gegn um rimla. Fólk sem var á gangi með börn ríghélt í þau og ekkert barn undir 10 ára sá maður gangandi án þess að leiða einhvern fullorðinn.

Þegar við komum upp á hótelið ákváðum við að panta okkur kvöldmat upp á herbergi því það kostaði það sama og borða á veitingastaðnum. Við fengum okkur bæði dýrindis tenderloin steik sem var alveg svakalega góð. Óskar eyddi svo kvöldinu í sjónvarpsgláp meðan Inga nánast hraut við hliðina á honum enda í fyrsta sinn síðan við fórum að heiman sem við sváfum með sæng en ekki bara lak.



Morguninn eftir fórum við á morgunverðarhlaðborð á hótelinu. Það var alveg svakalega gott, heitir réttir, ferskir ávextir, morgunkorn, brauðmeti og allskonar álegg og safar. Því næst skráðum við okkur út af hótelinu og tókum leigubíl yfir í næsta bæ sem heitir Antigua og er fyrrum höfuðborg landsins. Árið 1717 varð jarðskjálfi hér upp á 7.4 sem varð til þess að um 3000 hús hrundu og því þurfti að flytja höfuðborgina til Guatemala City. Það hvílir einhver sjarmi yfir Antigua því hér eru allar götur steinlagðar og húsin öll lítil og krúttleg. Borgin er umvafin fjallahring því hérna erum við í hálöndum Guatemala og mörg fjöllin hér ná upp í 3-4.000 metra hæð.

Inga hafði bókað hótelherbergi í Antigua í gegn um internetið áður en við lögðum af stað frá Guatemala city. Hún fann eitthvað fínt hótel sem innihélt morgunverð og var á 55% afslætti. Jú, jú, hugsuðum við, þetta er örugglega fínt. Leigubíllinn fór svo með okkur á svæði sem er lokað af með öryggisvörðum. Við þurfum að gefa upp nöfnin okkar og leyninúmer ef við viljum komast hingað inn. Þegar við vorum komin með lykilinn af hótelherberginu okkar sagði konan í afgreiðslunni að hún ætti svítu fyrir okkur. Þegar við komum inn í herbergið okkar beið okkur rúm sem var örugglega 2 metrar á alla kanta og við gætum því sofið á hlið ef við vildum. 42” flatskjár, útsýni yfir garðinn þar sem er lítil sundlaug og fullt af blómstrandi blómum. Salernið er bæði með sturtu og baði. Ekki slæmt!


Við fengum okkur smá göngutúr um bæinn, kíktum á markaðinn og fengum okkur að borða. Það er samt alltaf mælt með því að maður sé kominn heim fyrir myrkur og þar sem við vöknum alltaf um kl. 7 á morgnanna finnst okkur bara fínt að vera komin upp á herbergi á kvöldin.



Í dag er svo planið að skoða aðeins meira og jafnvel tilla tánum í sundlaugina. Á morgun erum við svo búin að panta okkur skutlu til að fara með okkur á stærsta markað Guatemala og skila okkur svo við vatn sem er hér rétt hjá og nefnist Lago de Atitlán. Það er umvafið eldfjöllum og er víst rosalega fallegt.

1 ummæli: