16. febrúar 2013

Tortuguero - La Fortuna - Volcan Arenal


Og áfram heldur ferðasagan....

Það er alveg ótrúlegt hvað Tortuguero er lifandi staður. Alls staðar flögra fuglar í hinum ýmsu litum og hundar hlaupa frjálsir um göturnar. Á daginn er dýralífið lifandi eins og við þekkjum það helst en á nóttunni verða vaktaskipti og önnur og framandi dýr fara á stjá. Á mánudagskvöldið tók Óskar eftir því að það leyndist eitthvað tiltölulega stórt og lifandi fyrir utan herbergið okkar. Hann hélt fyrst að þetta væri risastór kakkalakki (Ingu til mikillar ánægju) en þegar hann var búinn að ná sér í ljós sá hann að þetta var stór froskur sem kominn var að heimsækja okkur. Við þustum því bæði út til að skoða hann og sáum hann gleypa flugur. Fyndna var samt að Óskar var úti á nærbrókunm og myndaði froskinn í bak og fyrir. Þýskt par sem var í herbergi á móti okkur hló bara að honum... þeim finnst froskar jú ekki eins merkilegir og okkur enda nóg af þeim í Þýskalandi líka...Á þriðjudeginum sváfum við bara út og skelltum okkur í morgunmat. Við slæptumst svo aðeins á netinu og spjölluðum við fjölskyldur okkar á Skype meðan við lágum í hengirúmum á hótelinu. Við settumst svo hjá þýska parinu og spjölluðum við þau örugglega í hátt í 3 klst. Það endaði með því að við skiptumst á e-mailum og skype-nöfnum og við fengum heimboð til Berlínar.


Þegar kjálkarnir okkar voru úttalaðir fengum við okkur göngutúr á ströndinni. Í sjónum voru nokkrir brimbrettakappar að leika sér í öldunum. Þarna fyrir utan eru miklir straumar og því voru allir ferðamenn varaðir við því að fara langt út í sjóinn.

Um kvöldið vorum við svo búin að kaupa okkur kvöldferð í frumskóginn. Við klæddum okkur í buxur og flíspeysur og fengum svo lánuð stígvél til að vera í. Það þurfti reyndar að leigja stígvél handa Óskari þar sem hann notar svo stórt númer. Abel leiðsögumaðurinn okkar gekk með okkur úr miðbæ Tortuguero út í skóginn. Þar sem þetta er pínulítill bær tók það ekki nema um 10 mínútur. Hann var rosalega rólegur og var mjög forvitinn um Ísland. Áður en við fórum út fyrir þorpsljósin stoppaði hann og fór með okkur yfir nokkrar öryggisreglur. Hann sagði okkur að fyrir 6 mánuðum síðan hefði hann orðið vitni af jagúar vera að veiða letidýr þarna. Hann sýndi okkur svo seinna í ferðinni tréð sem hann sá jagúarinn í. Hann sýndi okkur á blaði myndir af froskum sem hann vonaðist til að geta sýnt okkur en þar sem þetta er villt náttúra en ekki dýragarður þá sést aldrei það sama tvö kvöld í röð.

Inn í skóginn fórum við og hann sagði okkur að við yrðum alltaf að lýsa með ljósinu alls staðar í kring um okkur og að við þyrftum að vera sérstaklega varkár þegar við kæmum auga á froska því oft lægju snákar rétt hjá og biðu eftir rétta tækifærinu til að grípa þá. Þarna lifa margar tegundir snáka sem bæði eru eitraðir og ekki eitraðir. Hann sagði okkur að við mættum aldrei halla okkur að grein eða stiðja okkur við grein því þar gætu verið skordýr eða snákar sem bitu.

Þegar við vorum búin að labba um 5 metra sagði Abel að við værum mjög heppin. Hann hafði verið að lýsa með vasaljósinu sínu á greinar og lauf í kring um okkur. Þar hafði hann komið auga á einhvern viper snák sem var pínulítill (átti eftir að stækka) og var mjög eitraður og árásargjarn. Hann sagði okkur að við mættum ekki fara nær honum en 50 cm því það væri sú vegalengd sem hann gæti stokkið. Abel búinn að ganga 3 skref þegar hann kom auga á næsta dýr. Það var risastór froskur sem leyndist í grasinu. Þetta var samt önnur tegund en við höfðum séð fyrir utan herbergisdyrnar okkar kvöldinu áður því þessi var með appelsínugulan kvið. Þegar Abel snéri sér svo í hálfhring (enn í sömu sporum) ljómaði hann allur upp af ánægju. Hann hafði fundið annan frosk og í þetta skiptið ekki bara einhvern frosk heldur Lonely Planet froskinn eins og hann kallaði hann. Abel sagði að það væri mjög sjaldgæft að fólk fengi að sjá þennan frosk enda mjög vel falinn í laufblöðum. Þessi froskur kallast á ensku Red-Eyed Tree Frog og er grænn með rauð augu og rauðar tær. Hann kallaði hann Lonely Planet froskinn því þetta er sá froskur sem oftast eru settar myndir af inn á ferðasíðu Lonely Planet. Froskurinn var reyndar steinsofandi þegar við komum að honum en eftir að Abel var búin að kítla hann örlítið með laufblaði þá vaknaði hann og rölti smá fyrir okkur og sýndi okkur fallegu lappirnar sínar.

Við sáum fullt af öðrum froskum í öllum stærðum. Sumir voru svo pínulitlir að þeir litu út fyrir að vera lifandi leikföng. Sumir voru meira að segja gegnsægir þannig að maður gat séð líffærin þeirra ef maður beindi á þá ljósi. Það var ótrúlega flott að fylgjast með því hvað þeir treystu mikið á felulitina sína og hreyfðu sig ekki þótt maður kom alveg upp að þeim.

Á leiðinni fengum við svo að sjá fugl sem svaf á grein. Hann opnaði ekki augun í sekúndubrot á meðan við skoðuðum hann.... alveg steinrotaður. Svo sáum við aðra tegund af snáki sem Abel sagðist ekki hafa séð síðustu 9 mánuði og var því mjög sjaldgæft að sjá. Hann sýndi okkur svo fótspor eftir jagúar sem hafði fengið sér göngutúr þarna í garðinum fyrr um daginn. Inga spurði hann hvað fengi jagúarinn til að koma svona rosalega nálægt þorpinu. Þá sagði Abel okkur frá því að við strendur Tortuguero verpa 4 af þeim 6 skjaldbökutegundum sem lifa í Costa Rica. Jagúarinn veiðir skjaldbökurnar þegar þær koma upp á land til að verpa en núna var ekki varptími. Þegar jagúarinn hefur engar skjaldbökur þá kemur hann svona nálægt bænum til að freista þess að ná sér í hund.Eftir velheppnaðan túr gengum við svo aftur heim og tókum eftir því á leiðinni að það voru krabbar og froskar út um allt. Krabbarnir voru landkrabbar sem biðu á mörgum stöðum eftir að eitthvað gómsætt kæmi nálægt þeim. Þeir voru rosalega stórir og flottir.


Morguninn eftir vöknuðum við og borðuðum morgunmat eins og við gerum alla morgna. Það byrjaði að rigna og svo hélt áfram að rigna og svo rigndi enn meira. Á tímabili var þetta algjört skýfall... en það má svo svo sem búast við því í regnskógi :) Loks stytti þó upp og sólin fór að glenna sig. Þá þustum við niður á stönd og Inga ætlaði að drekka í sig alla sól sem í boði var. Við lékum okkur í sjónum og slökuðum á. Óskar kom svo auga á að þegar hann horfði yfir ströndina þá var alltaf smá sandur hoppandi út um allt. Þegar hann fór að skoða þetta nánar þá voru þetta litlir krabbar sem bjuggu sér til göng í sandinum og hentu frá sér sandinum út úr göngunum sínum. Sjórinn flæddi þó nokkrum sinnum yfir göngin þeirra og þeir þurftu að byrja upp á nýtt. Sjórinn gekk einu sinni svo langt upp á land að fötin hennar Ingu voru á hraðleið út í hafsauga og hún var svo upptekin að horfa á krabbana fara í kaf að hún tók ekki eftir því fyrr en nærrum of seint. Óskar hljóp svo að sjálfsögðu inn í herbergi og náði í myndavélina og myndaði krabbana. Á meðan lág Inga í sólinni og varð bókstaflega étin. 11 bit fundust eftir daginn. Kvikindið hefur greinilega fengið sér göngutúr á henni því á öðru lærinu er bein lína af bitum, nokkur í röð.


Um kvöldið fórum við svo út að borða á sama stað og við fórum fyrsta kvöldið. Á veitingastaðnum bjuggu 2 kettir og þarna var auk þess 1 hundur. Við sáum það alveg í anda að þetta yrði leyft á Íslandi en okkur fannst þetta bara mjög heimilislegt. Ætli kettirnir hafi ekki verið hafðir þarna til að halda skordýrum í burtu....Í fyrradag var svo komið að því að pakka niður. Bakpokarnir okkar eru orðnir vel troðnir af dóti og við erum farin hafa smá áhyggjur af því að þeir séu að verða of þungir fyrir flug. Það gæti því verið að við þyrftum að fara að fjárfesta í tösku. Það er náttúrulega alveg klárt mál að við þurfum að gera það í Boston. Inga er samt ekkert til í að vera á leiðnni heim og nefnir framlengingu við Óskar oft á dag. Hann hundsar það bara og segir að við verðum að koma aftur seinna.

Við skiluðum svo herberginu og gengum niðrá höfn þar sem sem við hittum mann að nafni Alfonso. Af honum vorum við búin að kaupa ferðapakka til bæjar í miðri Costa Rica sem nefnist La Fortuna og er við rætur virkasta eldfjalls þeirra, Volcan Arenal. Við fórum um borð í svipaðann bát og við komum upphaflega með til Tortuguero. Siglingin tók samt lengri tíma að þessu sinni því hún var á móti straumi en það gerði ekkert til því nóg var að sjá. Eðlur lágu og böðuðu sig í sólinni á bökkum árinnar, Krókudílar og cayman-ar blikkuðu til okkar og fiðrildi flögruðu um allt.Þegar siglingin var búin settumst við inn í einkabílinn hans Alfonso. Með okkur var svo einn hollenskur ferðamaður sem hoppaði úr miðja vegu til La Fortuna. Bob Marley söng að sjálfsögðu í bíltækinu og við keyrðum á milli hverrar bananaplantekrunnar á fætur annarri. Við eina plantekruna var búið að loka veginum með hliði. Óskar spurði Alfonso afhverju vegurinn væri lokaður. Þá svaraði Alfonso “banana” og í þeim orðum birtust heilu knippin af bönunum sem héngu á færibandi að fara yfir vegin. Það var alveg mögnuð sýn og sem betur fer var Óskar með kveikt á video-inu á myndavélinni sinni þegar þetta gerðist.

Á leiðinni sáum við svo alls kyns plantekrur. Hrísgrjón, papaya, sykurreyr og svo ananas. Ingu langaði svo að sjá hvernig ananas er ræktaður þannig að Alfonso stoppaði bílinn fyrir okkur og ætlaði að sýna okkur það. Þegar við fórum út úr bílnum var þar akkúrat vörubíll að bíða eftir að komast yfir á gatnamótum og hann var kjaftfullur af ananösum. Þvílíka ananas-lykt höfum við aldrei fundið á lífinu. Þetta var eins og að dífa höfðinu ofan í fat fullt af ananas. Því miður var búið að taka uppskeru þar sem hann ætlaði að sýna okkur en engu að síður gátum við séð ananas-plöntur í þúsundatali. Alfonso sagði að það væri hægt að kaupa 4 ananasa þarna á 2 dollara sem þýðir þá að stikki af ananas er að seljast á um 65 kr. Þá getur maður séð álagninguna á þessu á Íslandi... hér getur þú fengið 8-10 ananasa á verði 1 heima.Ferðin til La Fortuna tók okkur tæpa 8 tíma og Alfonso sagði okkur að við hefðum sparað okkur tíma með því að fara með honum því við hefðum þurft að taka 5 rútur hingað. Við vorum komin til La Fortuna í myrkri og Alfonso var búinn að panta fyrir okkur herbergi sem var innifalið í pakkanum sem við keyptum af honum. Hann fór yfir með okkur hvað við ætlum að gera í dag sem er að skoða hveri, eldfjallið og nággrenni þess. Um kvöldið fengum við okkur svo rölting í bæinn en hérna er einmitt einhver hátíð í gangi þannig að það er mikið af fólki í bænum. Hér er allt fullt af minjagripaverslunum og matsölustöðum.. og að sjálfsögðu allir að reyna að selja manni ferðir. Við þurfum ekkert að spá í því því það var líka innifalið í pakkanum hans Alfonso sem við borguðum um 18.000 kr á mann fyrir (samgöngur, gisting, ferðir, leiðsögn)...

Í gær hittum við svo Alfonso kl. 10 um morguninn. Hann spurði okkur strax hvort við værum ekki með sólarvörn því þetta ætti eftir að verða heitur dagur. Himininn var heiðskýr og Volcan Arenal gnæfði yfir bæinn. Eldfjallið hætti að gjósa árið 2010 en var þá búið að gjósa í 44 ár. Hann sagði okkur að við værum heppin að sjá það svona því yfirleitt væri mjög skýjað í kring um það. Við settumst upp í bílinn hans Alfonso og keyrðum af stað. Eftir tiltölulega stuttan akstur stoppaði hann bílinn og við vorum komin í þjóðgarð þar sem við ætluðum að skoða gíg með grænu vatni í og nefnist “The Green Lagoon”. Út úr bílnum fórum við og byrjuðum að labba. Alfonso var búinn að segja okkur að þetta yrðu 3 kílómetrar en einhvernveginn hafði það farið fram hjá okkur að þetta yrði fjallganga með mikilli hækkun. Leiðin byrjaði tiltölulega auðveldlega en hitinn gerði okkur þetta erfiðara fyrir. Við spurðum Alfonso hversu heitt hann héldi að það væri og hann sagði “svona 30-32°C”. Þegar við vorum tæplega hálfnuð (og Inga alveg að drepast) þá komum við að skógi og í honum voru skrillion tröppur gerðar úr drumbum og náttúrulegum rótarkerfum trjánna í skóginum. Í um 1 og hálfan tíma gengum við upp þessar tröppur. Á tímabili var Inga farin að velta því fyrir sér hvort þetta væri þess virði. Upp komumst við þó eftir 3 klst göngu og horfðum yfir gíginn. Alfonso spurði okkur hvort við vildum ekki ganga niður að honum en Inga vildi það ekki því hún vildi eiga inni tíma til að klára að skoða allt sem við ætluðum að skoða. Auk þess sáum við gíginn ágætlega og eldfjallið stóð þar tignarlegt til hliðar. Eftir að Alfonso var búinn að gefa okkur 3ggja hæða samlokur með skinku, baunakássu og tómötum (fyrir Óskar) gengum við niður aftur. Það var auðveldara en að ganga upp en engu að síður bunaði svitinn af okkur. Lærin okkar og kálfar fengu sko aldeilis að finna fyrir því þennan morguninn. Þegar við vorum komin niður keyptum við okkur sitthvoran líterinn af vatni sem við sporðrenndum niður á no time!
Næst var komið að því að að fara á stað sem kallast observatory þar sem vöktunarstaður fyrir eldfjallið auk þess sem þarna er hótel og gríðarlegt útsýni til fjallsins og vatnsins sem er hér rétt hjá. Þarna voru auk þess hellingur af fuglum sem sátu og borðuðu ananas í tré (já, það er ananas út um allt hér) auk þess sem kólíbrífuglar flögruðu og skoðuðu öll blómin í kring. Þarna var auk þess stór hengibrú sem maður þurfti að fara yfir til að skoða safn sem tileinkað er eldfjallinu og rannsóknum á því.

Næst var förinni heitið að heitum hver eins og Alfonso orðaði það. Það var komið niðamyrkur og við vorum viss um að sjá ekki hverinn en ákváðum að reyna það nú samt. Loks stoppaði Alfonso bílinn og sagði okkur að fara úr gönguskónum og í sandala. Að sjálfsögðu hlýddum við bara og fylgdum honum svo út í myrkrið. Eftir stutta stund fór að heyrast mikið vatnshljóð eins og í fossandi vatni. Alfonso og Óskar kveiktu á vasaljósum og loks staðnæmdumst við við á og úr skónum fórum við og út í vatnið. Vatnið var heitt og notarlegt, sennilega um 30-35°C. Hann sýndi okkur hvar við ættum að geyma dótið okkar sem var bara þarna úti í náttúrunni og svo fór hann að klæða sig úr. Hann var sem betur fer búinn að segja okkur að vera í sundfötum en við héldum að það væri til þess að synda í gígnum eftir fjallgönguna. Við skelltum okkur því líka úr og nutum þess að liggja þarna í náttúrulega heitri á (sem eldfjalli hitaði) innan í skógi og létum þreytu dagsins líða úr okkur. Ekki leið á löngu áður en áin fylltist af fólki enda hafði rúta af ferðamönnum stoppað þarna hjá. Okkur fannst þetta frábær endir á löngum degi.Þegar við komum svo aftur til La Fortuna kvöddum við Alfonso, skelltum okkur í sturtu og fengum okkur göngutúr í bæinn. Við settumst á veitingastað og Óskar pantaði sér nautasteik en Inga klúbsamloku. Þegar Óskar fékk svo steikina á borðið ljómaði hann allur og sagði loksins setninguna sem Inga var búinn að bíða eftir “oh þetta er geðveikt, eigum við ekki bara að vera hérna lengur”. Við ákváðum svo að verðlauna okkur eftir daginn og fengum okkur ís í ísbúð þarna hjá. Inga fékk sér kókosís með alvöru kókos og Óskar fékk sér brownies ís með extra súkkulaði. Þarna lét Óskar út úr sér í annað sinn gullnu setninguna sem Inga var búin að bíða svo lengi eftir “oh þetta er geðveikt, eigum við ekki bara að vera hérna lengur”. Við fórum svo heim, lögðumst upp í rúm og rotuðumst yfir sjónvarpinu.

Í dag ætlum við svo að reyna að koma okkur aftur til San Jose þar sem flugið okkar til Boston er víst á morgun...


12. febrúar 2013

Tortuguero - Costa Rica


Í gær, sunnudag vöknuðum við og pökkuðum dótinu okkar niður á methraða. Það er nefnilega þannig að þegar maður býr í bakpoka sem maður er alltaf að rífa upp úr og pakka í aftur sama draslinu þá verður maður alltaf fljótari og fljótari í hvert skipti því eftir nokkur skipti er maður búinn að finna út hvernig er best að raða í pokann og allt á sinn fasta stað. Við skelltum okkur í morgunmat sem oftast er ristað brauð, egg, sulta og smjör, te, kaffi eða nýkreistur appelsínusafi. Auk þess er oftast boðið upp á ávexti sem tilheyra þeirri uppskeru sem er ríkjandi í hvert sinn og núna er það greinilega papaya, melónur og ananas. Við getum eiginlega algerlega fullvissað okkur um að aldrei á ævinni höfum við borðað eins mikið af ananas og melónum á eins stuttum tíma á æfinni.

Inga stoppar í vasana á buxunum hans Óskars þar sem hann var alltaf að missa klinkið niður buxnaskálmina. 

Hótelið sem við vorum á í San Jose er lítið hótel þar sem eigendur þess búa. 4 stór herbergi eru í boði þar sem fólk getur gist og þarna er líka lítill veitingastaður eða kaffihús. Það sem okkur þótti þó einstaklega skemmtilegt var að á hótelinu var gömul Schafer tík sem heitir Sheila og hún var hluti af eigendum hótelsins. Hún var svo blíð og ljúf að hún varla þefaði af gestunum þegar þeir komu. “Systir” hennar Sheilu var kötturinn Berta sem var grábröndótt læða. Hún var mikið fyrir að láta klappa sér og knúsa. Þetta fannst okkur ótrúlega heimilisleg viðbót við annars frekar sterileserað umhverfi hótelanna þrátt fyrir að við gerum okkur náttúrulega grein fyrir ofnæmum og þess háttar sem skapast getur.

Sæta Sheila á "verðinum"

Þegar við vorum búin að skila herberginu okkar var okkur skutlað á rútustöðina. Þar tókum við rútu til bæjar sem nefnist Cariari. Öll sæti voru full í rútunni og stóðu nokkrir á leiðinni auk þess sem einni stelpunni var rétt pulla til þess að hún gæti setið í tröppunum við hliðina á bílstjóranum. Eftir rúma 2 tíma komumst við til Cariari og fundum þaðan næstu rútu sem keyrði okkur í þorp sem heitir La Pavona. Það var frekar skemmtileg leið þrátt fyrir að hafa tekið aðeins um klukkutíma því við keyrðum í gegn um ógrinni af bananaplantekrum. Okkur þótti gaman að sjá eina sem var merkt Chiqita því það merki þekkjum við náttúrulega að heiman. Næst þegar við borðum banana á Íslandi merkta þeim verður alveg klárt að hugurinn mun reika til leiðarinnar til La Pavona.

Ein af mörgum bananaplantekrum

Þegar rútan stoppaði í La Pavona var ferðin sko ekki búin. Þar keyptum við okkur miða í bát sem átti að flytja okkur eftir ám á lokastaðinn, Tortuguero.

Báturinn troðinn af töskum

Við tvö í bátnum

Eftir smá bið birtist báturinn, hann var kaffylltur, bæði af mannskap og farangri þannig að yfirborð bátsins var um 40 cm frá yfirborði árinnar. Það var smá brölt að koma bátnum á flot þar sem honum hafði verið keyrt upp á land og þurfti stóra tréstöng til að lyfta bátnum á flot. Af stað lögðum við og sigldum hægt og rólega niður árnar því núna er þurrkatími og mjög lágt á ánum og því auðvelt að festa bátinn. Við kvörtuðum samt ekki því útsýnið var fagurt. Himinhár skógur á báða kannta með fullt af fuglum og alls kyns hljóðum. Skemmtilegast var samt að rekast á 3 krókódíla og einn cayman (sem lítur út eins og krókódíll, bara minni) vera að sleikja sólina. Manni var samt hugsað til þess að við vildum ekki stranda þarna og þurfa að hoppa út í til að losa bátinn, en það hefur víst gerst.

Einn af krókódílunum

Loks kom báturinn að bænum Tortuguero eftir rúma klukkutíma siglingu. Við komuna á bakkann sáum við nafnið hennar Ingu skrifað á spjald sem einn maðurinn á bryggjunni hélt á og var hann kominn til að sækja okkur frá hótelinu. Við eltum hann upp á hótel sem er alveg við ströndina, örstuttur gangur frá aðalgötunni. Herbergið okkar er frekar lítið, bara með neti fyrir gluggunum og einni viftu sem stendur á gólfinu. Rakinn er rosalegur og hitinn í herberginu enn meiri. Þetta var samt það eina sem var laust þegar við athuguðum á netinu áður en við lögðum í hann. Við eyðum ekki það miklum tíma inni í herberginu nema bara yfir blánóttina að það breytir ekki öllu. Við hentum af okkur bakpokunum og Óskar tók allt upp úr sínum því hann hafði rennblotnaði í bátnum. Við keyptum okkur ferðir fyrir næsta dag og fengum okkur svo göngutúr.

Óskar að bursla í Karabíska hafinu fyrir utan hótelið okkar

Bærinn Tortuguero tilheyrir einum af fjölmörgum þjóðgörðum Costa Rica. Í bænum búa um 1200-1300 manns en þeir eru margir hverjir afkomendur afrískra manna sem settust að í Karabíska hafinu. Hérna minnir því stemningin dálítið á Belize, fólkið er allt dökkt og hlustar á reggie. Okkur fannst einmitt gaman að heyra reggie útgáfuna af Pink Floyd laginu I Wish You Were Here. Hér er slóðin á lagið á Youtube fyrir þá sem finnst þetta áhugavert (þarf að gera copy-paste) : http://www.youtube.com/watch?v=bsoiupLME-w

 Í eitt skiptið gengum við t.d. í lítinn súpermarkað í Tortuguero þar sem verið var að spila lag eftir Bob Marley. Inga gekk inn í búðina, sló taktinn á lær sér og söng með. Þá fékk hún frekar tannlaust bros frá einum útúrreyktum íbúanum sem sat þar hjá með sína dredda í hárinu og spurði hvort henni þætti þetta góð tónlist. Hún jánkaði því og þá varð kallinn sko heldur betur ánægður og gaf henni “thumbs up” :)

Eftir að við höfðum gengið meðfram strandlengjunni sem er bókstaflega fyrir utan hótellóðina og buslað smá í Karabíska hafinu kíktum við á miðbæinn. Hann er pínulítill... hann er bara ein gata sem nær nokkur hundruð metra. Þar er fullt af minjagripaverslunum sem allar selja skart sem búið er til á eyjunni auk alls kyns annara hluta. Um kvöldmatarleitið kíktum við á veitingastað og pöntuðum okkur sitthvort lasagne-að. Við sátum út á verönd sem náði rétt út á ánna og hinu megin við hana var skógur. Þarna sátum við og snæddum og hofðum á sólina detta ofan í trén með bleikum litum á himninum. Stöku bátar sigldu framhjá og örfáar leðurblökur flögruðu fyrir ofan vatnsflötin. Þegar við héldum að náttúran væri búin að setja út öll trompin, gekk að okkur sætur lítill köttur og settist hjá okkur.Í morgun var svo vaknað eldsnemma. Vekjaraklukkan hringdi sínum fögru tónum á slaginu 5. Upp rukum við því náttúran beið okkar. Klukkan 6 vorum við komin út á bryggju þar sem við komum í land deginum áður. Þar stigum við upp í 7 manna canó, 6 ferðamenn og 1 leiðsögumaður. Tilgangurinn var að fara að skoða dýralífið. Dýrin vakna við sólarupprás og fela sig svo þegar heitasti tími dagsins er og því var þetta kjörinn tími til að fara að skoða þau. Canóinn var auk þess ekki búinn neinum vélum (nema myndavélum ferðamannana) og því var hægt að komast hljóðlega nálægt sumum dýrum. Þetta var 3 tíma sigling um árnar og fengum við að sjá fleiri cayman-a, fullt af alls kyns fuglum, apa, eðlur og slöngu. Að sjálfsögðu fengum við svo að hjálpa til við að róa bátnum.Snákur gægjist fram af laufblaði

Cayman


Þegar siglingin var búin röltum við upp á hótelið okkar þar sem beið okkar morgunmatur. Við fengum svo klukkutíma pásu þangað til við áttum að hitta leiðsögumanninn okkar aftur. Í þetta skiptið var það göngutúr um skóglendið. Leiðsögumaðurinn okkar var mjög fróðlegur og vissi margt um dýrin. Við sáum risa könguló og fengum að fræðast um ofur sterka vefinn hennar, fleiri apa sem sátu og týndu pöddur af hvorum öðrum, 2 tegundir af toucan og svo kom Óskar auga á spætu sem var í andaslitunum í kjaftinum á snáki sem hékk hátt uppi í tré. Það var mögnuð sjón. Leiðsögumaðurinn sýndi okkur einnig hvernig ákveðin tegund maura sem búa í trjám hér bregaðst við ógn á búið þeirra þegar hann barði í einn trjábolinn og sýndi okkur hvernig allir maurarnir komu og skoðuðu staðinn þar sem hann barði.


Toucan í tré

Spider-Monkey api

Leaf-cutter ant - maur

Köngulóin með sterka vefinn


Þegar göngutúrinn var búinn ætlaði Inga sko aldeilis að sóla sig og spóka sig um í Karabískahafinu. Við skelltum okkur í sundfötin, bárum á næpurhvíta líkama okkar sólarvörn og örkuðum út. Óskar buslaði aðeins í sjónum en þá dróg fyrir sólina og bætti í vindinn þannig að það varð eiginlega bara sandrok. Það varð því ekki mikið úr þessu hjá okkur þannig að við ákváðum bara að rölta í bæinn og keyptum okkur vatnsmelónu sem við sporðrenndum svo niður fyrir utan hótelherbergið okkar. Kvöldinu verður svo eytt í afslöppun því við erum jú í sumarfríi :)

Inga í einu af hengirúmunum sem eru hjá hótelinu okkar og Karabíska hafi í bakgrunn

Melónur, ferðabók og bakpoki10. febrúar 2013

Nicaragua og Costa Rica

Á fimmtudaginn vöknuðum við snemma þrátt fyrir að Inga hafði bara sofið í um 4 klst þar sem hún lág andvaka hálfa nóttina. Við skelltum okkur í morgunmat, pökkuðum og létum svo hótelið hringja fyrir okkur á leigubíl til að skutla okkur á rútustöðina til að ná rútunni sem færi kl. 12 eða eftir um 1 og hálfan tíma frá því við lögðum af stað til San José í Costa Rica. Þegar við komum þangað voru allar rútur dagsins fullar og hérna er ekkert bætt við öðrum rútum ef þær fyllast eins og heima. Við vissum af öðru fyrirtæki sem keyrði líka til San José og eftir að hafa reynt að muna nafnið á fyrirtækinu og reynt að segja bílstjóranum á okkar brilliant Spanglish (sambland af ensku og hrafli í spænsku) fattaði hann loksins að við vorum að reyna að fá hann til að fara á hina rútustöðina. Þá setti hann upp svip og við hugsuðum strax að þetta væri dauðadæmt. Samt hélt hann áfram og þegar við vorum að nálgast rútustöðina flautaði bílstjórinn á einhverja konu og bað hana um að koma inn í bílinn. Þetta reyndist vera sölukona frá rútustöðinni sem var með voucherhefti og seldi okkur miða í rútuna á meðan taxinn keyrði loka spölinn. Við hentum farangrinum okkar og fórum um borð. Um leið og við vorum komin inn var lokað hurðinni og keyrt af stað. Ótrúleg heppni!

Leiðin var ágæt. Við keyrðum í gegn um sveitahéruð í Nicaragua og vegirnir voru tiltölulega beinir. Loks komum við að landamærum Nicaragua og Costa Rica. Þar þurftum við að fylla út einhver eyðublöð og láta skoða farangurinn okkar. Eins og oft áður var landamæravörðurinn rosalega ánægður að hitta Íslendinga og hleypti okkur í gegn. Rútan kláraði svo leiðina á meðan við horfðum á Argentískar kvikmyndir í boði rútufyrirtækisins. Eftir klassísku 9 tímana renndum við í hlað í San Jose og tókum leigubíl upp á hótelið okkar.  Við kíktum svo á Pizza Hut sem er hérna í 3 mín fjarlægð og Inga hitti varla á koddann áður en hún var sofnuð og sennilega sem betur fer því Óskar endaði kvöldið á að dunda sér við að skoða kakkalakka sem dönsuðu fyrir neðan rúmið okkar.... ekki 1.... ekki.2... ekki 3.... heldur 4!!! Sem betur fer sagði hann Ingu ekki frá þessu því hún er með hrikalega fóbíu fyrir þessum verum og aldrei að vita hverju hún hefði tekið upp á ef hún hefði vitað af þessu þarna. Það er allavega klárt mál að hún hefði ekki sofið dúr þá nóttina í viðbót. 

Í gær fórum við í morgunmat og nefndum við eigendurna að kakkalakkar hefðu verið að sprella í herberginu og þeir fengu nánast hjartaáfall þeim var svo brugðið. Við fengum að skipta um herbergi og síðan þá hefur enginn kakkalakki sést þrátt fyrir að við hefðum haft lagið "la cucaracha" á heilanum það sem eftir lifði dagsins. Upp úr hádegi ákváðum við svo að rölta niður í miðbæinn. Við skoðuðum markað auk þess að skoða í nokkrar búðir. Þarna var svo torg með fullt fullt fullt af dúfum og Óskar vildi endilega gefa þeim og keypti maískorn af einni konunni sem var að selja þarna. Um leið settust nokkrar dúfur á hendurnar á honum og hann var umkringdur. Þetta fannst honum svakalega skemmtilegt enda ekki á hverjum degi sem maður heldur á dúfum. Við röltum meira og Inga fann sér tvenn skópör. Á leiðinni heim komum við við á öðru torgi þar sem páfagaukar voru í tugatali í trjánum og lætin í þeim yfirgnæfðu bílaumferðina í kring. Það var rosalega gaman að sjá það, eitthvað allt öðruvísi en heima. Í dag vorum við svo búin að panta ferð til að fara með eins konar kláfi í einn af regnskógunum hér. Samferða okkur í ferðinni voru 2 ungar Svissneskar stúlkur og 4 Ameríkanar á eftirlaunum. Ekki alveg hentugur hópur til að ferðast saman því gamla fólkið var fótafúið og kvartaði frekar mikið á meðan við vildum halda áfram og drekka í okkur náttúruna og umhverfið. Þetta gekk samt allt vel því þau fóru í öðrum kláfi heldur en við. Við sáum letidýr á 2 mismunandi stöðum, sáum eitraðan frosk og slöngu. Toppurinn var samt algjörlega að sjá 2 kólíbrífugla á hreiðri. Það var alveg ótrúlega flott og sennilega eina skitpið í lífinu sem við sjáum það. Við vorum samt sammála um að fyrir utan það var túrinn ekkert sérstakur því við sáum fátt nema gróður í kláfinum. Allt dýralífið sáum við utan hans. Innifalið var samt hádegisverður sem var ágætur og 30 mínútna skógargangur þar sem leiðsögumaðurinn sýndi okkur ýmislegt eins og t.d. tarantúluhreiður. Þegar við komum svo heim var framhaldið planað og slappað af. 

Á morgun er svo planið að fara í þjóðgarð við Karabíska hafið og gista í 3 nætur í bæ sem nefnist Tortuguero. Hann er í regnskógi þannig að það ætti að vera nóg fyrir okkur að skoða. Til að komast þangað þurfum við að taka 2 rútur og bát. Nú erum við búin að kaupa annan rútumiðann svo vonandi komust við á leiðarenda....
7. febrúar 2013

Honduras og Nicaragua


Og áfram heldur ferðasagan...

Eftir að við höfðum sofið úr okkur ferðaþreytuna eftir ferðina frá Guatemala til Copán í Honduras vöknuðum við spræk og fersk kl. 7 eins og við gerum alltaf. Það virðist alltaf vera að hvar sem við erum byrja fuglarnir að syngja og fólkið í næstu herbergjum að vera með læti um leið og klukkan slær 7. Það er svo sem ágætt, því þá notum við daginn til að skoða okkur um í staðinn fyrir að sofa hann af okkur.

Eftir að hafa fengið morgunmat tókum við fríu skutluna sem hótelið okkar bauð upp á og létum hana skutla okkur að rústum Maya-borgarinnar í Copán. Við höfum tekið eftir því á leið okkar um Mið-Ameríku að fólkið hér notar bílflauturnar hér í dáldið örðum tilgangi en við gerum heima. Á Íslandi þýðir bílflaut yfirleitt annað hvort “passaðu þig, þú ert að keyra á mig” eða “drullaðu þér yfir ljósin svo ég fái ekki rautt”. Hérna notar fólk flauturnar að sjálfsögðu líka óspart til að reka á eftir þeim sem á undan eru en einnig til að heilsast og jafnvel þakka fyrir sig. Maður sér það einnig að fólk flautar með munninum í sama tilgangi. Dáldið vinalegt og skemmtilegt.

Heimamenn grínast oft og segja að Copán hafi verið eins og París nútímans þar sem hún er uppfull af alls kyns styttum og útskorningum og sé á þann háttinn mjög rómantísk borg. Á sama hátt tala þeir um að Tikal hafi verið eins og New York þar sem pýramídarnir þar eru svo háir og minni á skýjaklúfa. Þótt við höfum ekki farið til Parísar þá getum við ekki ímyndað okkur að það sé neitt sameiginlegt með þessum 2 stöðum.

Copán var syðsti oddi Mayaveldisins og þjónaði sem stórborg á 6. og 10. öld e. Kr. Þá bjuggu um 20.000 manns í borginni sem náði yfir um 250 ferkílómetra.

Það fyrsta sem við gerðum var að ráða okkur einkaleiðsögumann. Hann gekk með okkur tveim um allt svæðið og útskýrði það fyrir okkur og svaraði auk þess öllum spurningunum okkar. Við byrjuðum á því að ganga inn um hálfgerðan inngang inn í bæinn þar sem sátu nokkrir macaw páfagaukar í trjánum og kölluðu sín á milli. Leiðsögumaðurinn útskýrði fyrir okkur að svona páfagaukar hefðu verið mjög mikilvægir í augum Mayanna því á þeim tíma hafði dalurinn sem rústirnar liggja í verið heimkynni þessara fugla. Mayjarnir máluðu hús sín í litum fuglanna og skreyttu sig með fjöðrum þeirra. Á síðustu árum hefur fuglunum því miður fækkað en í garðinum hafa fuglarnir þó verið að para sig og unga út undir eftirliti þjóðgarðsvarðanna.Leiðsögumaðurinn sagði okkur frá því að þarna hefðu 15 kóngar ráðið ríkjum á 400 árum og þeir hafi allir tilheyrt sömu fjölskyldunni því krúnan gekk frá föður til sonar. Hins vegar hafa sumir synirnir ekki alveg “fýlað” það sem feður þeirra gerðu því undir rústunum liggja 3 aðrar borgir. Leiðsögumaðurinn útskýrði fyrir okkur að það hefði greinilega verið þannig að eftir að einhverjir af þeim sonum sem fengu krúnuna að föður sínum látnum, hafi þeir ákveðið að byggja sitt eigið konugnsveldi í stað þess að nota það sem fyrir var. Því var fólki skipað að grafa “gömlu borgina” niður og byggja nýja í hennar stað. Þarna var t.d. annar stærsti fótboltavöllur í Mið-Ameríku (á eftir þeim í Citchen Itza) en undir honum væru 2 aðrir. Leiðsögumaðurinn gekk með okkur um svæðið og útskýrði fyrir okkur það sem fyrir augu bar og líka það sem við sáum ekki því það var undir fótunum okkar, jafnvel á 15 metra dýpi sum staðar. Hann sagði okkur frá því að Mayarnir hefðu þó gert göng sem voru 6 km löng um allt svæðið þannig að þegar fornleyfafræðingarnir fóru að grafa á svæðinu fundu þeir borgirnar fyrir neðan algjörlega óhreyfðar. Málningin var meira að segja á þeim enþá og var búin að vera þar í rúm 1000 ár. Hins vegar þegar göngin voru opnuð þá fór málningin að hverfa af vegna súrefnisisins sem komst að henni. Sum göngin eru þó opin fyrir almenning þannig að við gátum skoðað smá hluta af þessum rústum “á neðri hæðinni”. Við fengum að skoða rúst af borg sem kölluð var Rosalilla og var upphaflega öll máluð í rauðum lit fyrir utan skreytingarnar. Fornleyfafræðingarnir gátu skráð niður hvernig hún var áður en liturinn fór að hverfa af henni. Það var alveg ótrúlegt að komast þarna niður og sjá aðra borg fyrir neðan og jafnvel ganga um í göngum sem konungar og höfðingjar fengu að ganga um fyrir rúmum 1000 árum síðan. Auk Rosalilla voru þarna nokkrar grafhvelfingar sem við fengum að sjá og Maya-gufubað þar sem kóngurinn gat farið í sturtu og hálfgerðan heitapott.Þarna var einnig að finna svokallaðann Hieroglyphic Stairway eins og það kallast á ensku. Það er 21 metra hár stigi og 10 metra breiður með 62 þrepum. Á honum eru 2200 myndir sem mynda lengsta samfellda Maya-myndmál sem fundist hefur. Þegar hann fannst voru fyrstu 15 tröppurnar á sínum upprunalega stað en restin lág fyrir neðan stigan því þegar þetta fannst þá var svæðið þakið skógi og rætur trjáanna búin að krækja sér um allt og velta steinum um koll. Enn hefur ekki tekist að raða þeim í rétta röð en talið er stiginn segi sögu kónganna í Copán.Margar styttur voru þarna en þó aðallega af einum höfðingja sem nefndist á ensku 18 rabbit eða 18 kanínur. Stytturnar standa flest allar á sínum upprunalegu stöðum og fyrir framan 2 þeirra eru fórnaraltari. Annað fórnaraltarið var notað til að fórna mönnum. 3 mönnum var fórnað á ári og voru það fyrirliðar fótboltaliðanna sem unnu fótboltaleikina sem urðu fyrir valinu. Því var trúað að þeim sem var fórnað yrði tekið í guðatölu eftir dauðann og því var þetta mikill heiður. Maður getur rétt ímyndað sér hversu mörg þekkt nöfn væru eftir í Ensku úrvalsdeildinni eða þeirri spænsku ef þetta væri enn við líði í dag. Annað fórnaraltari var svo tileinkað dýrum sem var fórnað. Sem dæmi var 15 jagúörum fórnað þegar 15 kóngurinn dó.Þegar við vorum búin að drekka í okkur fróðleik leiðsögumannsins og svæðisins fórum við og skoðuðum safnið sem er á svæðinu. Þar voru heimamenn búnir að reisa eftirlíkingu af Rosalilla og mála hana eins og upprunalega. Þarna geymdu þeir einnig dýrmætar styttur frá rústunum.Næst ákváðum við að taka tuctuc í fuglagarð sem var smá spöl frá rústunum. Þessi garður var einkaframtak landeigandans sem vildi benda fólki á að margir af þeim fuglum sem áður flögruðu um Copán dal væru í útrýmingarhættu og þyrftu vernd til að geta snúið aftur til síns heima. Mikil áhersla var lögð á Macaw páfagauka auk þess sem þarna voru líka aðrar gerðir af páfagaukum, toucanar, uglur og haukar. Garðurinn leggur sitt af mörkum við að reyna að fá fuglana til að mynda pör og eignast unga auk þess sem þeir taka að sér páfagauka sem hafa fundist í náttúrunni og hafa þurft á hjálp að halda vegna slyss, veikinda eða annarra orsaka. Markmiðið er þó alltaf að sleppa fuglunum aftur í náttúruna þegar þeir hafa náð fullum þroska og bata.Næst fórum við bara aftur upp á hótel enda búin að skoða helling þennan daginn og slökuðum á restina af deginum.

Morguninn eftir fengum við skutluna til að skutla okkur á rútustöðina. Þar náðum við sem betur fer að kaupa miða og fengum að sitja saman frá Cobán til borgar sem nefnist San Petro Sur og er í um 3 km fjarlægð frá Cobán. Þaðan þurftum við hins vegar að sitja í sitthvoru lagi í um 4 klst frá San Petro Sur til Teguchigalpa sem er höfuðborg Honduras. Leiðin var hrikalega hlikkjótt og voru sumar beygjurnar nánast 180°. Þar sem ekki voru beygjur voru holur í veginum. Þar sem ekki voru holur í veginum voru hraðahindranir. Þetta þýddi sem sagt að bíllinn gat ekki keyrt mjög hratt (en gerði það nú samt) og var alltaf að bremsa... ekki mjög gott fyrir veltuveikt fólk.

Eftir 7 klst akstur komumst við til Teguchigalpa þar sem við tókum leigubíl upp á hótelið okkar. Það var nálægt miðbænum en ekki svo nálægt rútustöðinni. Eftir að við vorum búin að henda töskunum inn á herbergið fórum við út og ætluðum að finna okkur eitthvað að borða. Þar sem engir lausir leigubílar voru sjáanlegir eftir um 10 mín bið röltum við í næstu sjoppu. Hún var á næsta horni við hótelið okkar og þar stóð fólk í röð út á götu og horfði inn í sjoppuna í gegn um rimla. Loks kom röðin af okkur og við höfðum séð mann sem var á undan okkur kaupa brauð. Við höfðum keypt Nutella súkkulaði í krukku nokkrum dögum áður og vildum því líka kaupa brauð eins og maðurinn. Það var samt þrautinni þyngra að reyna að útskýra í gegn um rimla að við vildum kaupa brauð án þess að við gátum sagt það á spænsku og ekki skildi afgreiðslufólkið stakt orð í ensku. Ingu var hugsað til Sirrýar vinkonu sinnar og því augnabliks þegar hún var eitt sinn að gorta sig við erlendan ferðamann að hún kynni orð í frönsku og ströglaðist á franska orðinu fyrir brauð við greyjið manninn :) Eftir að búðarkonan var búin að benda á helminginn af vörunum í búðinni fattaði hún að með látbragðinu var Inga að biðja um brauð. Þetta varð því ekki beisinn kvöldmatur en dugði nú samt.

Í gær vöknuðum við svo, borðuðum morgunmat og tókum svo leigubíl á rútustöðina. Við rétt náðum að hoppa upp í rútuna áður en hún lagði af stað og nú var förinni heitið til Managua sem er höfuðborg Nicaragua. 9 klst seinna komumst við á áfangastað eftir að hafa horft á El Mariachi með Antonio Banderas í sjónvarpinu sem okkur þótti mjög viðeigandi. Hér er hrikalega heitt en engir hitamælar neinsstaðar þannig að ekki er hægt að segja með vissu hversu heitt er, en það er fyrir víst meira en 30°C.

Í dag skelltum við okkur svo í verslunarmiðstöð sem er í göngufæri frá hótelinu okkar. Þar sem við erum bæði í öðrum stærðarflokki en heimamenn þá varð lítið um eyðslur í þessari verslunarmiðstöð. Við ákváðum svo að fara upp á hótel og plana framhaldið. Eftir miklar vangaveltur og hugsun komumst við að því að lítill tími væri eftir af ferðinni okkar. Okkur langaði mikið að fara í siglingu á á sem er við landamæri Nicaragua og Costa Rica en það mynd taka okkur marga daga. Þar sem við eigum bara 11 daga hér eftir þá ákváðum við að við yrðum bara að fresta siglingunni þangað til næst og fara beint til Costa Rica á morgun þar sem það er festival í gangi í bæ sem er í um 100 km frá San Jose, höfuðborg Costa Rica. Þegar maður ferðast um svona langar leiðir á svona stuttum tíma verður maður víst að velja og hafna. Það góða við þetta er að maður getur komið aftur seinna. Við enduðum samt daginn á því að rölta aftur í verslunarmiðstöðina, fá okkur kvöldmat og skella okkur í bíó á myndina Gangsters Squad sem var bara ágæt. 

Þannig verður það að á morgun vonumst við til að geta náð rútu frá Managua til San Juan. Við krossleggjum fingur og vonum að það takist :)

3. febrúar 2013

Guatemala og Honduras


Seinni dagurinn okkar í Antigua var mjög fínn. Við gengum í bæinn fljótlega upp úr hádegi og skoðuðum þar gamla kirkju, fullt af búðum og stóran markað. Við keyptum samt mjög lítið, eiginlega bara dúk sem mamma hennar Ingu var búin að biðja hana um að kaupa.Óskar er orðinn fínn í maganum eftir að hafa fengið lyfin í Belize. Við vorum samt ekki viss um hvort hann hefði ofnæmi fyrir pensilíni en það voru einhverjar pælingar um það þegar hann var lítill því það þekktist í fjölskyldunni hans. Læknirinn hélt samt að það ætti að vera í lagi fyrir hann að taka pensilínlyf því sýklalyfið sem hann hafði prófað fyrst var með einhverju pensilínsambandi. Við vitum það hins vegar fyrir víst núna að hann er með ofnæmi fyrir pensilíni því einn morguninn vaknaði hann eins og dalmantíuhundur. Sem betur fer tókum við með okkur ofnæmislyf auk þess að við eigum svo góða að að við gátum beðið Sillu frænku hennar Ingu um ráð. Hún benti Óskari á að hætta á pensilínlyfinu og gaf okkur nafn á öðru sýklalyfi sem við gátum keypt í staðinn. Núna er Óskar nánast orðinn eðlilegur aftur.Daginn eftir vorum við búin að panta okkur skutlu til stærsta útimarkaðar í Guatemala en hann er staðsettur í bæ sem heiti Chichicastenango og er í um 2.000 metra hæð. Það tók okkur 2,5 klst að komast þangað frá Antigua. Við vorum orðin dáldið stressuð yfir að þurfa kannski að ganga í gegn um markaðinn með bakpokana okkar á bakinu en sem betur fer fengum við að geyma farangurinn okkar inn í bílnum sem við komum með þrátt fyrir að vera að fara með öðrum seinna um daginn. Við röltum svo að markaðnum sem teygði sig í allar áttir. Margir voru samt að selja það sama, alls kyns textílvörur en þarna var líka hægt að kaupa matvöru, fatnað, tónlist, heimilistæki og jafnvel ótrúlega sætan hvolp sem sat þarna skíthræddur. Við vorkenndum honum rosalega og það lág við að Inga hefði keypt hann og tekið hann með í bakpokanum heim. Það var samt lítið sem við keypt um þarna enda búin að sjá sömu hlutina 100 sinnum hér.

Eftir að við vorum búin að fá nóg af markaðnum röltum við aftur að bílnum og farangurinn okkar var sem betur fer enn þar. Við fórum svo í bílinn sem við vorum búin að panta far með til Panajachel sem er lítill bær við vatn sem heitir Lago de Atitlán og er í raun askja sem myndaðist fyrir mörg þúsund árum. Í kring um vatnið eru 3 stór eldfjöll sem ná í um 3000 – 3500 metra yfir sjáfarmál. Við skráðum okkur inn á hótelið okkar sem er við hálfgerða göngugötu hér í bænum. Við ákváðum strax að kíkja út eftir að við vorum búin að henda farangrinum okkar inn og athuga með rútuferðir til Honduras á laugardag. Við gengum á milli en allir vildu að við myndum gista eina nótt í Antigua til að ná rútu til Honduras sem færi kl. 4 að morgni. Við fundum eina ferðaskrifstofu sem sagðist eiga ferð kl. 09:30 frá Panajachel til Antigua, klukkutíma stopp þar og svo yrði haldið áfram til Copán í Honduras. Við keyptum það far, og vonum bara að það standist allt saman.Við ákváðum líka að kaupa okkur siglingu um vatnið daginn eftir (föstudag). Restinni af deginum eyddum við svo röltandi um bæinn.

Á föstudaginn var svo farið í þessa siglingu sem við keyptum. Við vorum mætt í frauðplastbátinn um kl. 08:30 og sigldum af stað út á vatnið. Með bátnum fórum við í 3 mismunandi þorp sem öll standa við vatnið. Fyrsta þorpið hét San Marcos og við röltum bara þar um, enda ekki mikið að sjá. 
Næsta þorp var San Pedro þar sem við fengum 2 klst stopp. Við ákváðum að leigja okkur leiðsögumann í klukkutíma og við fengum hann Juan til að ferðast með okkur. Hann reddaði okkur tuctuc sem keyrði okkur þangað sem við gátum séð kaffirækt og við fengum að sjá og smakka kaffifræ beint af plöntunni. Hann útskýrði fyrir okkur Spænsk-ensku hvernig kaffiframleiðslan fer fram. Því næst fórum við að skoða kirkju í bænum, heimsóttum eldgamlann listamann inn í svefnherbergið hans þar sem hann var með skúlptúra til sölu og fórum svo á matarmarkað. Klukkutíminn var samt fljótur að líða og fyrr en varði vorum við komin aftur í bátinn. Næsta þorp var Santiago Atitlán þar sem við röltum um enn einn markaðinn. Þarna gátum við samt keypt fullt af hlutum því þarna var aðeins meiri fjölbreytni en á hinum mörkuðunum. Óskar fékk smá útrás fyrir prútti, en það er nýjasta skemmtunin hans.Því næst var siglt aftur til Panajachel og við röltum upp á hótel. Við hentum af okkur dótinu og ætluðum aðeins að setjast niður til að hvíla okkur eftir daginn, enda ekki bekkir neinsstaðar til að setjast á. Við vöknuðum hins vegar 2 klst seinna og þá var klukkan orðin 5. Við drifum okkur þá út til að nota síðustu birtuna og fá okkur að borða.

Í gær biðum við svo eftir að við yrðum sótt af skutlu sem ætlaði að keyra okkur aftur til Antigua til að ná annarri skutlu til Cobán í Honduras. Maður er alltaf orðinn hæfilega stressaður yfir að það verði ekki náð í mann þar sem lífið hér gengur allt einum takti hægar en maður er vanur. Þegar við vorum búin að bíða korter lengur en brottfarartíminn úr bænum átti að vera, kom loksins bíllinn okkar og skutlaði okkur til Antigua þar sem við fengum klukkutíma pásu áður en við fórum um borð í seinni bílinn. Við vorum bara 3 plús bílstjórinn og framundan voru 7 klst af akstri um mjög hlikkjótta fjallavegi. Við þurftum að keyra í gegn um Guatamala city aftur og það tók okkur 90 mínútur að komast í gegn um hana. Þvílíkar umferðarteppur um allt og risa stór borg.Hérna keyrir fólk eins og brjálæðingar og við vorum að sjá að bílstjórinn var að taka beygjur á 90-100 km hraða. Skörpustu beygjurnar tók hann þó á 70-80 km hraða og maður þurfti að halda sér til að sitja enn í sætinu. Bílarnir hér nota líka öll tækifæri til að taka fram úr og einu sinni mættum við bíl sem var að taka fram úr öðrum bíl. Það voru þá 3 bílar á 2 akreinum á nánast fullum hraða. Inn á milli bíla keyra svo mótorhjól á fullum hraða iðulega með farþega aftaná og enginn með hjálm, hvað þá heldur í hlífðarfatnaði. Það er greinilega stórhættulegt sport hérna því bara á þessari einu leið sáum við 6 hjól sem höfðu farið á hliðina þann daginn.

Við erum enn sömu saklausu Íslendingarnir þegar kemur að vopnaburði öryggisvarða og lögreglu í Guatemala. Allir verðir eru með skambyssu. Allir bankaöryggisverðir eru með hagglabyssur. Í gær sáum við svo 2 hiluxa með 50 cal. vélbyssur aftaná pallinum ásamt manni sem var tilbúinn að nota hana auk nokkurra annarra lögreglumanna sem voru allir með haglabyssur. Ég held að við eigum aldrei eftir að venjast þessu en skiljum þó að það þýðir ekkert annað í svona löndum þar sem eiturlyf stjórna heiminum og jafnvel stjórnkerfinu. Til marks um það hversu auðvelt er að redda sér eiturlyfum hér hefur Óskari tvisvar verið boðið að kaupa eiturlyf út á götu.

Loks komumst við svo að landamærum Guatemala og Honduras. Landamæraskiptin gengu smurt fyrir sig og landamæravörðurinn í Honduras var mjög ánægður að sjá Íslendinga. Við vorum keyrð í bæ sem er rétt við Mayarústirnar í Cobán og þaðan þurftum við að taka tuctuc á hótelið þar sem engir leigubílar eru í boði. Þegar við vorum komin í úthverfi bæjarins sprakk á tuctuc-inum. Við urðum strax smá skelkuð því við vitum að sprungin dekk hafa verið notuð til að draga athyglina frá fólki á meðan það er rænt. Óskar fór því að hjálpa stráknum sem keyrði tuctuc-inn um að skipta um dekk á meðan Inga passaði farangurinn og að enginn væri að fara í vasana hjá Óskari. Þetta gekk þó fljótt fyrir sig og við vorum fljótlega komin aftur á ferðina. Hótelið okkar er 2 km frá rústunum og þurftum við að keyra dreifbýlisveg í niðamyrkri til að komast þangað. Við sáum varla hvort annað í myrkrinu þrátt fyrir að sitja hlið við hlið því þessir tuctuc-ar eru með svo dauf ljós. Við komumst nú samt á leiðarenda og á hótelið okkar sem er rosalega flott.

Við hentum af okkur töskunum og fórum á veitingarstaðinn á hótelinu. Því næst skelltum við okkur í kaldan heitan pott til að hrissta af okkur bílferðina. Það var mjög notarlegt þrátt fyrir að teljast vera hlandvolgt á íslenskum mælikvarða. Afslöppuð og sæl rotuðumst við svo yfir sjónvarpinu.

Í dag er svo planið að skoða þessar rústir og jafnvel fara í fuglagarð þar sem maður getur séð alls konar framandi fuglategundir.