30. janúar 2013

Guatemala city og Antigua


Jæja, og áfram heldur ferðin. Í fyrradag vöknuðum við, mishress reyndar. Inga var komin með magaverk, ógleði og hafði litla matarlist. Við ákváðum samt að drífa okkur í rútuna þótt hún tæki allan daginn því við vorum búin að eyða dáldið miklum tíma í Flores. Inga tók bara veltuveikislyf og það virtist slá á þetta vesen allt.

Við vorum komin upp á rútustöð kl. 09:30 og fórum beint inn í rútu. Við tóku 10 klst af akstri (um 450 km) í gegn um Guatemala. Aðeins var eitt stopp á leiðinni þar sem fólk fékk að fara út úr bílnum og komast á klósett og teygja úr löppunum. Þetta var frekar heit og sveitt rútuferð þar sem rútan var ekki sú besta þrátt fyrir að vera 1. classa rúta. Gírkassinn var við það að hrynja og við efuðumst um það í upphafi að hún myndi hafa það alla leið þvílíkir voru skruðningarnir og tannhjólasurgið þegar bílstjórarnir (sem voru 2) reyndu að koma henni í gíra. Loftræstingin virkaði eiginlega ekki sem varð til þess að framhurðinn var höfð opin langleiðina.

Bíllinn stoppaði sem betur fer ekki oft á leiðinni til að taka upp fólk eða hleypa því út. Hins vegar var mikil trukkaumferð sem hægði heldur betur ferðina á okkur. Það var samt gaman að fylgjast með varningnum sem trailer-arnir voru að flytja og fórum við til að mynda fram úr nokkrum bílum sem voru lestaðir af kúm og hænum, við fórum allavega fram úr einum trailer sem var fullur af ananas og 7 bílum sem voru fullir af appelsínum.

Þegar komið var myrkur um kl. 19:00 vorum við komin til Guatemala city sem er höfuðborg landsins og sú stærsta. Þarna búa rúmlega milljón manns. Við vorum búin að lesa okkur til um að þetta sé ein hættulegasta borg Mið-Ameríku. Borgin er skipt niður í svæði eða zone og varað var sérstaklega við því að fara inn á sum svæðin. Við völdum okkur hótel á þeim svæðum sem þóttu öruggari og tókum leigubíl þangað eftir að við vorum komin á rútustöðina.

Borgin virkaði á okkur sem grá fyrir járnum. Þarna voru endalaust margir öryggisverðir sem allir voru vopnaðir haglabyssum. Rimlar voru fyrir öllum gluggum og garðar voru girtir af með háum girðingum og gaddavírum þar ofan á. Í þeim búðum sem opnar voru um kvöldið var fólk afgreitt í gegn um rimla. Fólk sem var á gangi með börn ríghélt í þau og ekkert barn undir 10 ára sá maður gangandi án þess að leiða einhvern fullorðinn.

Þegar við komum upp á hótelið ákváðum við að panta okkur kvöldmat upp á herbergi því það kostaði það sama og borða á veitingastaðnum. Við fengum okkur bæði dýrindis tenderloin steik sem var alveg svakalega góð. Óskar eyddi svo kvöldinu í sjónvarpsgláp meðan Inga nánast hraut við hliðina á honum enda í fyrsta sinn síðan við fórum að heiman sem við sváfum með sæng en ekki bara lak.



Morguninn eftir fórum við á morgunverðarhlaðborð á hótelinu. Það var alveg svakalega gott, heitir réttir, ferskir ávextir, morgunkorn, brauðmeti og allskonar álegg og safar. Því næst skráðum við okkur út af hótelinu og tókum leigubíl yfir í næsta bæ sem heitir Antigua og er fyrrum höfuðborg landsins. Árið 1717 varð jarðskjálfi hér upp á 7.4 sem varð til þess að um 3000 hús hrundu og því þurfti að flytja höfuðborgina til Guatemala City. Það hvílir einhver sjarmi yfir Antigua því hér eru allar götur steinlagðar og húsin öll lítil og krúttleg. Borgin er umvafin fjallahring því hérna erum við í hálöndum Guatemala og mörg fjöllin hér ná upp í 3-4.000 metra hæð.

Inga hafði bókað hótelherbergi í Antigua í gegn um internetið áður en við lögðum af stað frá Guatemala city. Hún fann eitthvað fínt hótel sem innihélt morgunverð og var á 55% afslætti. Jú, jú, hugsuðum við, þetta er örugglega fínt. Leigubíllinn fór svo með okkur á svæði sem er lokað af með öryggisvörðum. Við þurfum að gefa upp nöfnin okkar og leyninúmer ef við viljum komast hingað inn. Þegar við vorum komin með lykilinn af hótelherberginu okkar sagði konan í afgreiðslunni að hún ætti svítu fyrir okkur. Þegar við komum inn í herbergið okkar beið okkur rúm sem var örugglega 2 metrar á alla kanta og við gætum því sofið á hlið ef við vildum. 42” flatskjár, útsýni yfir garðinn þar sem er lítil sundlaug og fullt af blómstrandi blómum. Salernið er bæði með sturtu og baði. Ekki slæmt!


Við fengum okkur smá göngutúr um bæinn, kíktum á markaðinn og fengum okkur að borða. Það er samt alltaf mælt með því að maður sé kominn heim fyrir myrkur og þar sem við vöknum alltaf um kl. 7 á morgnanna finnst okkur bara fínt að vera komin upp á herbergi á kvöldin.



Í dag er svo planið að skoða aðeins meira og jafnvel tilla tánum í sundlaugina. Á morgun erum við svo búin að panta okkur skutlu til að fara með okkur á stærsta markað Guatemala og skila okkur svo við vatn sem er hér rétt hjá og nefnist Lago de Atitlán. Það er umvafið eldfjöllum og er víst rosalega fallegt.

28. janúar 2013

In the jungle, the mighty jungle...


Í gær ákváðum við að taka einn dag í viðbót í afslöppun svo að Óskar myndi nú alveg ná að jafna sig. Við vöknuðum snemma eins og við gerum alltaf, skrölltum niður á veitingastaðinn sem er hér á hótelinu okkar og fengum okkur gómsætan morgunverð, brauð, egg, bacon, ferskir ávextir og steiktir bananar (sem eru ekki svo góðir).



Næst ákváðum við að viðra okkur aðeins og gengum út á eyjuna sem er hérna við vatnið sem hótelið okkar stendur við. Hérna er allt morandi í litlum bílum sem nefnast Tuctuc og koma í stað leigubíla. Við ferðuðumst með svona apparati um daginn og þótti mjög gaman. Aðal tilgangur viðrunarinnar var meðal annars að fara og athuga hvort við værum ekki örugglega bókuð í ferðina til Tikal sem við ætluðum í um daginn þegar Óskar var veikur. Við höfðum bæði talað við bílstjórann sem kom og náði í okkur morguninn sem við upphaflega ætluðum í ferðina, auk þess sem við vorum búin að koma við á skrifstofunni til að breyta dagsetningunni. Þrátt fyrir þetta vorum við bæði með þá tilfinningu að það væri ekki allt með feldu og betra væri að athuga þetta í þriðja skiptið.

Sem betur fer fylgdum við tilfinningunum okkar og athuguðum með þetta, því þegar við vorum komin á ferðaskrifstofuna, þá var þar sami strákur og daginn sem við fórum þangað fyrst til að breyta miðanum. Þegar við fórum að spyrja hann út í hvort við værum ekki örugglega bókuð á sunnudaginn (í dag) þá tók hann upp símann og hringdi í manninn sem seldi okkur upphaflega ferðina þar sem dagsetningin á vouchernum var náttúrulega ekki rétt. Þá varð hann allur hinn erfiðasti og heimtaði að við borguðum honum 3200 ISK til viðbótar bara fyrir það eitt að breyta vouchernum. Þegar við vorum bæði búin að rífast við gaurinn í símann sögðum við honum að það kæmi ekki til greina að láta hann hafa fleiri peninga og að þetta væri skítafyrirtæki. Því næst gengum við á aðra ferðaskrifstofu og keyptum okkur aðra ferð til Tikal þegar við vorum búin að fullvissa okkur um að hún væri ekki í samstarfi við hina apakettina.

Við kláruðum svo að ganga hring í kring um eyjuna meðfram vatninu. Þetta vatn iðar af lífi. Þar eru fullt af fiskum sem synda um í litlum fiskitorfum auk skjaldbaka. Fuglalífið blómstrar að sama skapi og við höfum séð margar fuglategundir eins og skarfa, svölur, þyril, bléshænur, sefhænur og hegra. Á vatninu siglir svo fólk á bátum ýmist með ferðamenn eða til að veiða. Þegar við vorum komin af eyjunni settumst við á bekki fyrir framan verslunarmiðstöð sem er hér rétt hjá en bekkirnir eru á litlum steyptum palli sem nær aðeins út í vatnið. Þar snæddum við sitthvorn ísinn og það vakti mikla athygli hjá einni bléshænunni sem kom syndandi til okkar. Óskar kastaði smá súkkulaði til hennar og okkur fannst alveg magnað hversu frökk hún var og greinilega óvenju gæfur fugl því það lág við á tímabili að við hefðum næstum getað snert hana.





Eftir göngutúrinn fórum við aftur á hótelið og slöppuðum af og fórum svo snemma að sofa því það var ræs kl. 02:00 fyrir ferðalagið til Tikal.



Við vöknuðum spræk þegar klukkan hringdi enda mikil spenna að fara loksins að sjá pýramídana í Tikal. Þegar klukkan var rúmlega 3 var komið að ná í okkur á hótelið og við keyrðum í ca 1,5 klst í átt að þjóðgarðinum. Þegar við vorum komin í gegn um hliðið að honum tók við smá akstur í viðbót. Meðfram veginum voru skilti á nokkurra metra fresti um að hámarksökuhraði væri 45 km/klst og að fólk ætti að passa sig á dýrunum sem gætu hlaupið yfir veginn. Heima á Íslandi erum við með skilti sem vara okkur við lausum kúm og kindum á hinum ýmsu sveitavegum, en þarna voru skilti sem bentu á að snákar, hjartardýr, maurætur, kalkúnar, apar og jagúar ættu til með að leynast á vegunum.

Fornleifarnar í Tikal ná yfir mjög stórt svæði eða um 16 ferkílómetra og hafa fundist um 3000 rústir á svæðinu. Fornleifarnar liggja í láglendi í frumskógum Guatemala. Þjóðgarðurinn er á verndarská UNESCO.

Þegar bíllinn var loksins stöðvaður fórum við öll út og inn í myrkrið. Síðan fylgdum við leiðsögumanninum okkar inn í frumskóginn. Það var rosalega sérstök tilfinning að ganga um í alvöru frumskógi í niðamyrkri (fyrir utan örfá vasaljós). Við gengum undir risastórum trjám sem þökktu oftast himininn svo ekki sást út um þau. Í kring um okkur heyrðum við öskrin í öpunum sem trjóna í trjátoppunum. Rætur trjánna lágu allsstaðar við lappirnar á okkur og ekki leið á löngu en að moldarstígurinn sem við gengum á var komin upp á buxnaskálmar hjá okkur. Við kepptumst samt við að vera sem næst leiðsögumanninum þar sem hann dældi út úr sér fróðleik um Mayana sem bjuggu þarna og dýrin sem lifa þarna í dag. Hann bað okkur samt um að fara varlega og gæta að því hvar við stigum niður því þarna væru margar tegundir snáka og einhverjar þeirra eitraðar. Hann sagðist sjálfur hafa séð 17 mismunandi tegundir snáka þarna í þjóðgarðinum og vildi frekar missa eina mínútu í lífinu heldur en að missa lífið á einni mínútu. Það fannst okkur rosalega góð speki og gott veganesti.

Þegar klukkan var að ganga 6 gengum við upp tæpar 200 tröppur upp á einn pýramídann til að verða vitni af sólarupprásinni. Inga var samt eitthvað að flýta sér og sprengdi sig á leiðnni (sem gerði að sjálfsögðu illt verra og hún varð að sjálfsögðu síðust ásamt Óskari sem vék að sjálfsögðu ekki frá henni). Við settumst svo niður til að sjá sólarupprásina en þar sem það var skýjað og mikið mistur í loftinu (vegna 85% raka) þá sáum við bara ljósaskiptin færast yfir regnskóginn á sama tíma og við heyrðum skóginn vakna.



Við héldum svo áfram að fræðast með leiðsögumanninum. Á einum tímapunkti fékk Inga skyndilega í magann og þurfti að hlaupa á salernið og við það týndum við hópnum. Leiðsögumaðurinn sagði samt við Óskar að við ættum að hitta hann á the main plaza. Við reyndum að leita að hópnum okkar á leiðinni á torgið en raddir virtust koma úr öllum áttum. Þar sem leiðsögumaðurinn hafði gaman af því að tala og stoppa þá gáfum við okkur góðan tíma til að koma okkur þangað. Á leiðinni skoðuðum við villta apa í trjánum og ýmsar fuglategundir. Við höfðum svo ágætis tíma til að skoða okkur um á torginu áður en hópurinn okkar kom. Fljótlega kvaddi leiðsögumaðurinn okkur og við fengum frjálsan tíma þangað til bíllinn okkar átti að fara kl. 11.




Við röltum upp á eina rústina þar sem við sáum vel yfir torgið. Þar settumst við niður og fengum okkur morgunmat. Ekki leið á löngu þar til við vorum umkringd af fuglum sem samkvæmt fuglabókinni hans Óskars heita Brown Jay. Þeir voru greinilega vanir því að geta sníkt brauðbita frá ferðamönnunum sem setjast þarna. Við gerðum það sama (þrátt fyrir að það megi ekki) því það auðveldaði Óskari að ná góðum myndum af þeim. Páfagaukar kölluðu í trjánum og aparnir öskruðu í kring. Algjörlega magnað!




Við gengum svo niður á torgið aftur og sáum þá að þar var kominn hópur af Mayum sem hringaði sig í hring um fórnar-/eldstæði fyrir framan stærsta pýramídann. Ekki leið á löngu þar til þau fóru að færa fórnir með því að fara með einhverskonar bænir og blessa reykelsiskúlur sem þau voru með. Síðan kveiktu þau á kertum og kveiktu svo í reykelsiskúlunum sem skíðloguðu á meðan þau fóru með fleiri bænir. Okkur fannst alveg stórmerkilegt að fá að verða vitni að þessu.




Næst gengum við í áttina að rútunni en það tók mikið lengri tíma en við gerðum ráð fyrir því nóg var að sjá á leiðinni. Fleiri apar voru hangandi í trjánum, spætur voru goggandi í trjáboli, maurar gengu um eins og herflokkar í beinum línum, einhverskonar frændi maurætunnar hljóp um á milli tjrábolanna og toucanar flögruðu í trjátoppunum. Við urðum svo heilluð af þessum stað að við ákváðum að ganga í átt að bílnum og athuga hvort við kæmumst ekki með einhverjum bíl sem færi seinna. Við fengum leyfi til að fara með bíl kl. 12:30 og því fórum við aftur inn í frumskóginn að skoða meira.



Við erum bæði sammála um að þessi dagur sé sennilega sá besti það sem af er þessu ferðalagi og sá sem kemst einna næst “vá faktornum” sem við urðum fyrir í Macchu Picchu í Perú árið 2010. Ef við hefðum getað þá hefðum við viljað vera allan daginn þarna í frumskóginum og virða fyrir okkur lífið í sínu villtasta umhverfi.




Þegar við vorum komin á hótelið, enn í skýjunum yfir þessari lífsreynslu, steinrotuðumst við. Við vöknuðum ekki fyrr en farið var að þrífa íbúðina við hliðina á okkur og færa til rúm og aðra innanstokksmuni. Við gerðum okkur svo gott kvöld og röltum niður á veitingastaðinn þar sem Óskar verðlaunaði sig með piparsteik og Inga prufaði mat innfæddra, Tortillasúpu.

Á morgun tekur svo við 9 klst. rútuferð til Guatemala city, höfuðborgar landsins.





26. janúar 2013

Enn meira af Belize, smá af Guatemala og mikið af afslöppun

Nú er komið dáldið langt síðan við blogguðum síðast. Best að drolla ekki með þetta of lengi þar sem margt gerist í útlandinu :)

Á mánudaginn vöknuðum við eldsnemma við hundagelt í Belize city. Við gengum frá herberginu og skiluðum því rétt fyrir hádegi. Óskar var búinn að vera mjög slæmur í maganum og kominn með magakrampa með magaverkjunum. Við vorum búin að ræða það að koma honum til læknis en þar sem við vorum búin að kaupa rútumiða til Guatemala vildi hann bíða með það þangað til hann væri kominn yfir landamærin. Við báðum starfsmann hótelsins um að skutla okkur niður á rútustöð og fengum á leiðinni að hlusta á Bob Marley í útvarpinu ásamt einkasöng bílstjórans. Við vorum einmitt búin að lesa okkur þess til að hér kynnu allir öll Bob Marley lögin, sama hversu lítið þekkt þau væru.

Þegar við komum niður á rútustöð spurðum við stelpuna sem hafði selt okkur miðann daginn áður hvort það færi ekki örugglega rúta til Flores í Guatemala kl. 13. Jú, jú sagði hún og við settumst niður og slökuðum á. Svolitlu seinna kallar hún í Óskar og segir honum að rútan komi ekki þar sem hún hefði lent í einhverjum vandræðum á leiðinni. Vanalega sé önnur rúta sem fari kl. 14:30 en hún fari ekki heldur þennan dag. Við reyndum að spyrjast fyrir um aðrar leiðir til að komast til Flores þar sem við vorum búin að kaupa okkur gistingu en allar lausnir sem við fundum komu okkur aðeins hálfa leið þangað. Það varð svo úr að við hringdum í hótelið sem við höfðum verið að gista á og fengum að vera þar auka nótt.

Þegar eigandi hótelsins kom svo og náði í okkur ákváðum við að nota tækifærið og spyrja hann út í læknisþjónustuna í Belize city. Hann sagði að hún væri mjög fín og við báðum hann um að skutla okkur á spítalann eftir að við vorum búin að henda töskunum af okkur inn í herbergi.

Á spítalanum þurftum við að gefa skýrslu um nafn Óskars, heimaland, hjúskaparstöðu, ábyrgðarmann og hversu langt hann gekk í skóla. Ég skildi ástæðuna fyrir öllum spurningunum nema þessari síðustu. Allavega... við þurftum að borga því sem samsvarar 640 ISK og inn í viðtal til hjúkrunarfræðings fórum við. Hún spurði Óskar alls kyns spurninga, mældi hvort hann væri með hita og tók hjá honum blóðþrýstinginn. Næst fengum við svo viðtal hjá lækni sem greindi vandamálið hjá Óskari. Niðurstaðan var sú að hann var með einhverskonar bakteríusýkingu sem var að búa til eins konar magasár hjá honum. Læknirinn skrifaði upp á 3 mismunandi lyf sem hann á að taka inn næstu 2 vikurnar.

Þegar við gengum út af spítalanum vorum við spurð af viðkunnalegum ungum blökkumanni hvort okkur vantaði ekki leigubíl. Leigubílarnir í Belize city eru venjulegir einkabílar sem enginn peningur er til til að hugsa um. Þeir eru því allir með mismunandi aukahljóðum og skemmtilegheitum. Þessi ungi piltur skutlaði okkur í apótek og ræddi helling við okkur á leiðinni á hótelið. Hann sagði okkur frá sér og fjölskyldu sinni og ferðalögum sínum til Bandaríkjanna en hann hefur ferðast til New York 6 sinnum yfir ævina... í rútu. Önnur leiðin tekur 4 daga.

Fólkið hér er almennt mjög vingjarnlegt og hjálpsamt.Tungumálið sem þau tala er mjög hreimuð enska... svona eins og maður ímyndar sér að talað sé á Jamaika. Hérna notar fólk mikið slanguryrðið "man" á eftir öllu sem það segir, "yes man", "no man". Það er varla hægt að skilja hvað það segir þegar heimamenn tala sín á milli en þegar þau tala við einhvern utanaðkomandi eins og okkur þá skipta þau yfir í almenna ensku og þá er ekkert mál að skilja þau.

Þegar við vorum svo búin að skilja við vin okkar leigubílstjórann fórum við bara inn á hótelherbergi og horfðum á CSI-þáttar maraþon þar sem úti var úrhellisrigning. Þegar við vorum svo að fara að sofa um kvöldið tókum við eftir því að það voru 3 litlar eðlur inni í herberginu okkar. Þar sem Inga sefur yfirleitt mjög laust, og þá sérstaklega við svona óvenjulegar aðstæður vildi hún fá að "tjalda". Við hentum því moskítótjaldinu okkar upp svona ef ské kynni að þær ætluðu eitthvað að skoða okkur um nóttina, sem var þó harla ólíklegt.

Morguninn eftir vöknuðum við með engar eðlur í andlitinu... sem betur fer. Við pökkuðum saman dótinu okkar og skutluðumst aftur út á rútustöð, nú með krosslagða fingur um að rútan færi. Heppnin var með okkur og lítil rúta renndi í hlað. Farangrinum var skellt á toppinn, segldúkur yfir, bíllinn fylltur og keyrt af stað. Næst tók við um 5 klst akstur að Flores í Guatemala. Vegabréfaskoðun gekk fínt og inn í Guatemala brunuðum við.

Það fyrsta sem við tókum eftir var hversu mikið fólkið lækkaði í hæð. Í Belize er fólk meira afkomendur Afríkumanna en í Guatemala er fólk meira blandað af innfæddum og spánverjum eða einfaldlega Mayar. Mayar eru pínulitlir (ná Ingu fyrir neðan herðar og hún er bara 166 cm), mjög dökkbrúnir á hörund, með nánast engan háls og frekar flatt nef. Húsin breyttust einnig töluvert þar sem í Belize var allt byggt á fleiri en einni hæð ef til fellibyljar kæmi sem bæri með sér flóð. Á leiðinni sáum við einnig alls kyns dýr í vegköntum, í kring um hús og í görðum hjá fólki. Þar má nefna hænur með unga, hesta, svín með gríslinga, kindur, hunda og ketti.

Loks komum við til Flores og skráðum okkur inn á hótelið sem við vorum búin að panta okkur. Það var ágætis hótel í miðbæ Flores sem er lítil landtengd eyja úti í vatni. Við röltum smá um bæinn, pöntuðum okkur ferð um nóttina til að skoða pýramídana í Tikal og fengum okkur að borða á veitingastað sem heitir Villa de la Chef. Inga fékk sér Bolognese pasta en Óskar var frakkari og fékk sér fisk sem nefnist Blanco og er veiddur þarna í vatninu. Við skelltum okkur svo snemma í háttinn, enda ræs kl. 02:00.



Þegar vekjaraklukkann hringdi loks var Óskar rétt búinn að ná að dotta aðeins. Lyfin voru eitthvað að byrja að virka en hann var kominn með hita með þessu. Hann hefur ekki þurft að taka sýklalyf síðan hann var barn og því brást líkami hans svona við. Við gátum þó ekki afboðað okkur í ferðina með öðrum hætti en að bíða niðri í anddyri eftir pick-up-inu okkar og láta vita að við kæmumst ekki með sem var svo ekkert mál.

Þegar við vorum búin að sofa aðeins meira þurftum við að skipta um hótel þar sem það sem við vorum á var fullt.Í leiðinni komum við við á ferðaskrifstofunni sem hafði selt okkur ferðina til Tikal og breyttum henni þannig að við förum á sunnudaginn. Við sáum það að Óskar var frekar slappur og ákváðum að panta okkur hótel af aðeins fínni gerð en við höfðum gert hingað til. Við ákváðum að framlengja dvölinni í Flores um 2 nætur og nota þær í að slaka á og til þess að Óskar gæti nú jafnað sig almennilega.

Hótelið var í göngufæri og því skelltum við bakpokunum á bakið og röltum af stað. Eftir um 15 mínútur vorum við komin bullandi sveitt í nýtt herbergi. Við notuðum svo restina af deginum í að rölta pínulítið, versla smá í matinn og slaka á.


Í dag fórum við í morgunmat á hótelinu sem var brilliant góður. Ferskir ávextir, egg og samlokur og nýkreistur melónusafi. Því næst röltum við upp á rútustöð og keyptum okkur rútumiða til Guatemala city á mánudaginn. Það mun taka okkur um 9 klst og kostar okkur bæði 5.700 ISK. Við athuguðum hvað myndi kosta fyrir okkur að spara okkur og rössunum okkar svona langa setu og fara í klst flug til Guatemala city í staðin en það hefði kostað okkur 40.000 ISK svo það var ekki spurning.

Eftir að við komum aftur upp á hótelið varð Óskar aftur eitthvað slappur. Við fórum eitthvað að ræða framhaldið, ferðina til Tikal og Guatemala city og föttuðum að við höfðum misreiknað okkur um heilan dag, það var bara föstudagur en við höfðum haldið að það væri laugardagur. Þar sem Óskari leið ekki nógu vel ákváðum við bara að láta hann jafna sig alveg og bókuðum okkur 2 aukanætur í viðbót á hótelinu.

Við eyddum því restinni af deginum í að horfa á sjónvarpið og slaka á... enda erum við jú í "sumarfríi" :)


P.s. okkur finnst alveg rosalega gaman að fá kveðjur að heiman og skemmtilegt þegar fólk skilur eftir skilaboð annað hvort hérna á blogginu eða á Facebook.... svo endilega látið í ykkur "heyra"!

22. janúar 2013

Bless Mexíkó, halló Belize

Þá var komið að því að halda ferðinni áfram. Í fyrradag byrjuðum við á því að rölta á rútustöðina í Cancún og athuga hvort það væri ekki rúta fyrir okkur til Belize city. Jú, við duttum í lukkupottinn en samt bara hálfa leið. Það var engin rúta í boði fyrr en kl. 22:15 um kvöldið og við þurftum að skrá okkur út af hótelinu kl. 12. Við máttum samt sem betur fer fá að geyma bakpokana okkar í geymslu á hótelinu til kvöldsins.

Við röltum og röltum og röltum og röltum. Við röltum þangað til lappirnar voru að detta af okkur. Samt voru 6 tímar í að rútan færi. Hvað eigum við að gera og hvert eigum við að fara, spurðum við okkur sjálf. Það var ekki fyrr en við föttuðum þá snilldar hugmynd að skella okkur í bíó. Við brunuðum í verslunarmiðstöðina sem við versluðum í nokkrum dögum áður og völdum þá mynd sem næst yrði sýnd með ensku tali. Lincoln varð fyrir valinu og hún var alveg ágætis leið til að drepa tímann því hún var víst 3 klst. löng. Hún var bara ágæt og greinilega hörku forseti þar á ferð.

Við tókum svo leigubíl niður á rútustöð og fórum svo loks um borð í rútuna okkar. Inga rotaðist nánast strax um leið og hún var búin að breiða yfir sig fleeze svefnpokann sinn og setja koddann undir hausinn en Óskar átti aðeins verra með að sofa. Eftir ca 4 klst. vorum við komin að landamærum Mexíkó og Belize. Allir voru látnir fara út úr rútunni og allir biðu í röð eftir að vera stimplaðir út úr Mexíkó. Loks kom röðin að okkur. Við sýndum landamæraverðinum vegabréfin okkar og hann sagði að við þyrftum að borga 25 USD á mann í ferðamannaskatt. Já, ekkert mál sögðum við, en tekuru kort. Við vissum ekki af þessu og því erum við ekki með peninga. Nei, ég tek engin kort sagði hann, bara seðla. Ókey, er þá hraðbanki hér. Nei, enginn hraðbanki. Allt í lagi, hvað getum við þá gert, spurðum við. Farið aftast í röðina og ég finn eitthvað út, sagði landamæravörðurinn.

Frábært, hugsuðum við. Nú verður þetta eitthvað vesen. Flestir voru með peninga og því ekkert mál fyrir þá, en nokkrir voru eins og við, ekki með peninga. Loks kom röðin aftur á okkur. Þá benti landamæravörðurinn okkur á að fara inn í landamærahúsið og tala við annan vörð. Við gerðum það og hann spurði okkur spjörunum úr. Að lokum sagði hann að hann ætlaði að hleypa okkur í gegn án þess að borga en hann væri búinn að skrá það niður að við skulduðum þennan skatt. Það kemur svo bara í ljós næst þegar við förum til Mexíkó hvort við þurfum að borga þetta þá. Við vorum allavega mjög fegin að fá að sleppa í gegn.

Næst var að innrita sig inn í Belize. Þar vorum við látin taka allan farangurinn úr rútunni og taka hann með okkur í gegn um eftirlitið. Við vorum að sjálfsögðu aftur spurð spjörunum úr. Við tókum eftir því að við hliðina á okkur voru 4 krakkar á aldri við okkur sem greinilega höfðu ekki gert heimavinnuna sína áður en þau lögðu af stað. Við heyrðum landamæravörðin segja við þau að ef þau ætluðu inn í landið hefðu þau þurft vegabréfaáritun og hana hefðu þau þurft að fá 3 mánuðum áður. Núna yrðu þau að fara aftur til Mexíkó og redda þeim málum. Á sama tíma tókum við eftir því að landamæravörðurinn okkar var að blaða í pappírum og athuga hvort við værum með samning á milli landa þannig að við þyrftum ekki áritun. Við höfðum sem betur fer unnið heimavinnuna okkar og vissum að við þurftum hana ekki. Okkur var hleypt í gegn án frekari spurninga. Við settumst svo aftur upp í rútuna og héldum akstrinum áfram.

Um kl. 8 morguninn eftir vorum við komin til Belize borgar sem er fyrrum höfuðborg Belize. Hún fékk ekki lengur að vera höfuðborg landsins þar sem hún er undir sjávarmáli og fer á kaf þegar fellibyljir lenda á landinu. Það gerðist síðast fyrir 30 árum. Við tókum strax eftir því hversu mikill munur er á milli Belize og Mexíkó. Hér eru flest allir þeldökkir og karlmennirnir oft með dredda í hárinu. Húsin eru einnig öðruvísi byggð en þau eru oft byggð þannig að þau standa á stöplum og svo er íbúðin á því sem myndi kallast 2. hæð á Íslandi. Það er gert svo það flæði ekki inn í húsin í vondum veðrum. Stærsti munurinn var sennilega sá að hér tala allir ensku. Belize er nefnilega fyrrum bresk nýlenda. Hér er mikið spiluð reggie tónlist og því svipar borgin meira til Karabísku eyjanna heldur en Mið-Ameríku.

Við tókum okkur leigubíl frá rútustöðinni á hótelið okkar. Leigubíllinn var Jeep Cherokee, eldgamall, með brotna framrúðu, ónýta stýrisvél og dempara og bílstjórinn þurfti að pumpa bremsurnar í hvert skipti. Verkfæri lágu um allan bíl og svo var hann með spýtu í skottinu til að halda uppi skottlokinu. Bílstjórinn var samt hinn viðkunnanlegasti og spjallaði helling við okkur. Honum fannst alveg ótrúlegt að fólk eins og við sem ætti heima lengst lengst í burtu vissi að svona lítið land eins og Belize væri til.



Hótelið okkar er í frekar auðugu hverfi. Hérna eru hundar í hverjum garði sem passa hús eigenda sinna. Og þeir eru mjög samrýmdir þótt þeir hafi sennilegast aldrei hittst, því ef einn hundur fer að gelta, þá gelta allir hinir í hverfinu. Það sama á við um ef einn þeirra fer að spangóla.

Í dag skutlaði eigandi hótelsins okkur niður í miðbæ. Við röltum aðeins þar um en okkur fannst það ekkert voðalega spennandi þar sem fólk leit á okkur sem gangandi dollaramerki og betlarar voru farnir að elta okkur um tíma. Þegar við vorum búin að ganga smá hring ákváðum við að kaupa okkur far út í eina eyjuna hér, Caye Caulker, sem við vorum búin að sjá að var aðal ferðamannastaðurinn hér. Eyjan minnti okkur dálítið á eyjuna Holbox sem við heimsóttum í Mexíkó, en þó var meira gert út á ferðaþjónustu í Caye Caulker. Því líkaði okkur Holbox betur en hefðum samt ekki viljað missa af því að skoða þessa eyju líka.


Nú erum við komin aftur á hótelið okkar og horfum á ameríska þætti í sjónvarpinu. Við erum búin að kaupa okkur rútumiða til Guatemala á morgun og leggjum af stað kl. 13 að staðartíma, 19 að íslenskum tíma.

19. janúar 2013

Holbox, Cancun og Chichen Itza

Í fyrradag vorum við á eyjunni Holbox. Við vöknuðum um morguninn og okkur var strax boðið góðan daginn af starfsmönnum hótelsins. Það átti eftir að koma í ljós að þjónustustigið hjá þeim var sko alveg í hæstu hæðum því þeir voru tilbúnir að gera allt fyrir okkur. Þvo þvott, fara í apótek, hlaupa og skipta fyrir okkur gjaldmiðlum, elda allt sem okkur langaði í... bara hvað sem er, við þurftum bara að segja það.


Við ákváðum að leigja okkur golfbíl. Allt á þessari eyju er í "slow motion". Til að mynda er hámarksökuhraði á eyjunni 30 km/klst og einungis ruslabílarnir voru stærri en golfbílar. Við keyrðum eins mikið og hægt var að keyra á eyjunni. Við sáum margar flottar "villur" sem okkur dreymdi um að kaupa og setjast að í hægaganginum á Holbox. Eftir að við höfðum keyrt í um 2 klst skiluðum við svo bílnum og ákváðum að rölta niður á strönd og skella okkur aðeins í Karabíska hafið. 


Karabíska hafið tók við okkur klakaklupunum með mikilli ánægju. Við marineruðumst þarna í sjónum innan um aðra ferðamenn í dálítinn tíma. Sjórinn var dáldið kaldur í fyrstu, en eftir smá stund var hann orðinn fínn. Sandurinn var líka dúnamjúkur þannig að auðvelt var að spóka sig í sjónum. Á einum tímapunkti fékk Inga þá frábæru hugmynd að skella sandi á bakið á Óskari og nudda hann með því, svona eins og gert er í Bláa Lóninu. Hins vegar áttaði hún sig ekki á því fyrr en upp á hótel var komið um kvöldið að hún var að sjálfsögðu að taka alla sólarvörn af bakinu á Óskari. 


Eftir að við vorum búin að koma okkur úr blautu sundfötunum og sturta okkur ákváðum við að fá golfbílinn aftur lánaðann og freista þess að sjá fugla á leið á náttstað. Aftur fórum við um nánast alla eyjunna enda nóg að skoða. Eftir um klukkustund skiluðum við svo aftur bílnum og röltum í bæinn. Þar pöntuðum við okkur pizzu sem við tókum með upp á herbergi þar sem maginn í Óskari var enn að stríða honum. 


Daginn eftir vöknuðum við við grenjandi rigningu og rok. Íslenskt veður hugsuðum við. Við ákváðum að fá okkur göngu í miðbæ eyjunnar og þar sem allar göturnar þarna eru búnar til úr mold eða leir og þar af leiðandi engin niðurföll, þá urðum við að sveigja fram hjá endalausum pollum á leiðinni því það eru jú heldur engar gangstéttir. Næst tékkuðum við okkur út af herberginu og fórum um borð í ferjuna aftur til Chiquila. Þegar þangað var komið biðu margir ferðamenn eftir að komast með rútunni og við urðum svolítið smeik um að komast ekki með, en það gekk nú sem betur fer allt vel. Af stað fórum við og ekki leið á löngu fyrr en við fórum að velta fyrir okkur hvort bílstjórinn væri flogaveikur eða með krampa í löppunum því hann var stanslaust að gefa bílnum inn og slá af. Við þetta varð Ingu dáldið óglatt þar sem hún verður auðveldlega bílveik og ákvað að leggja sig. Það virkaði svo vel að hún vaknaði ekki fyrr en í Cancún tæpum 2 tímum seinna. Óskar á hins vegar erfiðara með að sofa í rútum þar sem sætin eru yfirleitt of lág fyrir hann. 


 Í Cancún skráðum við okkur inn á hótel sem við höfðum pantað um morguninn. Konan í afgreiðslunni lét okkur alveg sjá það að við værum að eyðileggja daginn fyrir henni þar sem við ferðumst ekki með prentara í bakpokanum og gátum því ekki prentað út voucherinn okkar. Herbergið okkar er mjög fínt, með flatskjá með fullt af spænskum rásum og örfáum á ensku. Um kvöldið fengum við okkur rölting í bæinn, fengum okkur að borða og pöntuðum okkur ferð daginn eftir að skoða pýramídann í Chichen Itza. 

Í dag var því vaknað kl. 6 þar sem við þurftum að vera tilbúin niðri í afgreiðslu kl. 7 fyrir pick up. Við pössuðum okkur náttúrulega á því að vera mætt á réttum tíma og okkur var fylgt út í Econoline bifreið fyrir utan. Flott, hugsuðum við, við verðum þá kannski bara fá í ferðinni. Bíllinn keyrði á milli nokkurra hótela og gaman að sjá þolinmæðina hjá bílstjóranum þar sem hann fór hvergi fyrr en fólkið hans var komið í bílinn. Í eitt skiptið þurfti hann að vekja 2 kúnna sem sváfu bara á sínu græna eftir skemmtun gærkvöldins miðað við sprittlyktina sem var af þeim þegar þeir komu inn í bílinn. 

Þegar Econoline-inn var orðinn fullur var okkur keyrt á ferðaskrifstofu þar sem við áttum að skipta vouchernum okkur fyrir miða. Því næst áttum við að fara í röð og því næst upp í rútu. Allt þetta ferli, frá því kl. 7 um morguninn tók 1 klst og 40 mínútur (tekur yfirleitt um 30 mín á BSÍ). Af stað hélt ferðin loksins og með okkur var leiðsögumaður sem leiðsagði bæði á ensku og spænsku. Hann fræddi okkur heilmikið um Cancun, meðal annars að nafn borgarinnar merkir snákshreiður (snakes nest) því á þessu svæði finnast margir snákar. Einnig eru krókódílar í lóni hér í borginni. Hann fræddi okkur líka mikið um Maya-menninguna á leiðinni en sú menning blómstrar enn í dag enda búa 8 milljón Maya í Mið-Ameríku. 

Fyrsta stoppið í ferðinni var við dropasteinshelli sem heimamenn calla Cenote og er notaður sem baðstaður. Leiðsögumaðurinn okkar sagði að þetta væri hluti af því að fara að skoða pýramídan því maður þyrfti að hreinsa sig fyrst. Auk þess myndi sá sem synti í hellinum verða 10 árum yngri. Inga lét nú ekki segja sér það tvisvar enda ný orðin þrítug og dembdi sér út í ískalt lónið. Óskar varð hins vegar eftir á bakkanum og passaði upp á myndavélarnar. Nokkrir Mayar stilltu sér upp í miðju lóninu og leyfðu fólki að taka mynd af sér. 





Næsta stopp var gert á markaði þar sem hægt var að kaupa ýmsan varning af Mayum og gátum við látið skrifa fæðingardagsetninguna okkar með tímatali Mayanna, en aðeins Mayar meiga gera þetta og maður fær vottorð með um að þetta sé rétt gert. Auk þess er þetta einn af 2 stöðum í heiminum þar sem gerð eru svokölluð cartouche þar sem nafnið manns er sett á plötu með ákveðnum letrum. Annar staðurinn er að sjálfsögðu hér í Mexíkó en hinn er Egyptaland. Það vildi svo vel til að Inga hafði keypt sér slíkt í Egyptalandi með egypsku letri og lét því gera annað með letri Mayanna.

Næst fórum við í hádegismat sem var Mexíkóst hlaðborð með alls kyns tortillum, súpum, grænmeti og fleiru. Á meðan fólk var að borða voru dansarar sem fóru um salinn og dönsuðu með glös og flöskur á höfðinu.

Því næst lág leiðin að pýramídunum, Chichen Itza. Svæðið var notað á árunum 600 f. Kr. og þar til 1200 e. Kr. Þegar veldið við Chichen Itza var sem stærst bjuggu þar á bilinu 50.000 - 75.000 manns. Í dag búa um 45.000 manns á Akureyri. Pýramídinn sjálfur er náttúrulega ótrúleg smíði. Hann er byggður út frá stjarnfræðilegum þekkingum þannig að á sólstöðum skín sólinn á hann úr austri og vestri. Þá er hægt að sjá hann utan úr geimnum. Aðal guðinn sem dýrkaður er á þessu svæði er sá sem er í snákslíkama en með fjaðrir. Hann er því sambland af manni, snák og fugli. Á sólstöðum færist sólin niður stiga pýramídans og lítur þá út fyrir að snákur skríði niður stigana. Við neðsta þrep norður inngangsins er úthoggvið snákshöfuð. Hljómburður svæðisins er einnig magnaður því á ef klappað er saman höndunum á ákveðnum stöðum fyrir framan pýramídann kemur bergmál á einum stað þannig að klappið líkist skröltormshljóði og á öðrum stað kemur hljóð sem minnir á fugl ef klappað er.


Þarna er einnig stærsti fótboltavöllur sem fundist hefur í heimi Mayanna. Hann er allt að 3 sinnum stærri en hinir sem fundist hafa. Þarna var fyrirliða liðsins sem tapaði fórnað til guðanna.


Því meira sem við ferðumst um svona gamlar borgir og gamla helgistaði sér maður hversu mikið þessar þjóðir hafa verið á undan sinni samtíð. Til að mynda gátu Mayarnir búið til sitt eigið dagatal sem er næstum fullkomið, nema með 19 sekúndna skekkjumun á 52 daga fresti. Það dagatal byrjaði 13. Ágúst 3.114 fyrir Krist. en þá voru Venus, Satúrnus, fullt tungl og aðal stjarnan í ljónamerkinu í röð. Næst þegar það gerðist var 21. desember 2012. Mayarnir líta því á að nú sé byrjað nýtt tímabil, tímabil breytinga. Þeirra speki er samt að maður eigi að líta á gærdaginn sem liðna tíð og að morgundagurinn sé ekki til. Maður eigi því að lifa hvern dag eins og hann sé manns síðasti á jörðinni og vera þakklátur fyrir að vera til. Það finnst okkur vera góð speki og sýna það vel það sem við erum að gera akkúrat núna... njóta lífsins í ferðalagi um heiminn.

16. janúar 2013

Cancún og Holbox

                                                                                                                                                                                               Í fyrradag ákváðum við að taka smá verslunardag og kíkja til Cancún. Við fórum með rútu þangað sem tók klukkutíma og kostaði okkur 1900 kr fyrir okkur bæði fram og til baka (s.s. 4 x ódýrara en Flugrútan heima). Þegar við vorum komin þangað gátum við séð greinilegan mun á borginni Cancún og strandstaðnum Playa del Carmen. Í borginni voru mikið meiri læti, búðirnar allar með tónlistina í botni, bílar flautandi um allt og fólk á vappi allsstaðar. Þarna voru einnig mikið stærri búðir og við röltum eitthvað um í miðbænum. Hann var ekkert sérlega stór þannig að við ákváðum að taka okkur leigubíl í verslunarmiðstöð sem heitir Plaza las Americas og er frekar stór.

Leigubílstjórarnir hér í Mexíkó eru flest allir voðalega vingjarnlegir og yfirrukka mann ekki. Þeir eru bara með fast verð á leiðunum sem þeir keyra og maður er alltaf rukkaður sömu upphæð þótt maður fari með sitthvorum leigubílstjóranum. Í þessu tiltekna tilviki var leigubílstjóri undir stýri sem var sennilega rétt rúmlega jafnaldri okkar. Hann kunni voðalega lítið í ensku en vildi samt spjalla við okkur. Við sögðum honum hvaðan við værum (þeir spyrja okkur flestir að því þegar þeir heyra okkur tala saman) og spurði hvernig okkur líkaði Cancún. Svo fór hann að segja okkur frá verslunarmiðstöðinni og spurði hvort við þekktum ekki mynd sem fjallaði um 2 stelpur sem voru að fara í verslunarleiðangur. Það var náttúrulega ekki séns fyrir okkur að vita því hann mundi ekki nafnið á henni en fyndnast var þegar hann var að leika þessar stelpur á ensku og spænsku til skiptis.

Plaza las Americas var fín verslunarmiðstöð. Óskar var reyndar með eitthvað í maganum en vildi samt endilega leyfa Ingu að versla þannig að hann var svokallaður pokapassari og prufaði hina ýmsu bekki allsstaðar inni í verslunarmiðstöðinni. Á meðan skoppaði Inga milli búða og mátaði föt. Afraksturinn varð 3 kjólar og 5 bolir. Besta við það var að hér er flestur fatnaður ódýrari en heima og þar að auki eru útsölur. Flotta boli er til að mynda hægt að fá á 700 kr.

Í gær freystuðum við svo gæfunnar og athuga hvort við kæmumst ekki loksins til eyjunnar Holbox sem var búin að vera á planinu hjá okkur. Við vorum aðeins búin að lesa okkur til um hvernig við kæmumst þangað en það voru allt gamlar upplýsingar. Við tékkuðum okkur út af hótelinu og röltum niður í bæ með bakpokana á bakinu að ná í þvottinn okkar. Það var mjög heitur göngutúr og ákváðum við svo að taka leigubíl á rútustöðina. Þar þurftum við að bíða í 15 mínútur eftir næstu rútu til Cancún. Þegar á rútustöðina var komið sáum við eitthvað skilti sem stórð á Chequila sem er staðurinn sem við þurftum að komast á til að komast með ferjunni út í eyjunna. Þar stóð að rútan ætti að fara eftir 3 mínútur. Örlítið panikk kom í okkur og við hentumst að einum þjónustufulltrúanum sem benti okkur á næstu röð. Þar biðum við með krosslagða putta um að komast með. Í rútuna komumst við og náðum ekki einu sinni að hoppa á salernið milli rútuferða.

Næst tóku við 3 heitir og sveittir klukkutímar í annars flokks rútu sem stoppaði milljón sinnum á leiðinni og var bara með einföldum blæstri en ekki loftkælingu. Óskar taldi einu sinni að hún hefði stoppað 3 sinnum á tveim rútulengdum. Fólk var að koma inn og út alla leiðina en sennilega fannst okkur samt fyndnasti ferðafélaginn vera lítill gára-páfagaukur í búri sem byrjaði svo að syngja. Hann hefur ekki verið mikið bílveikur sá. Oft á leiðinni kom fólk inn sem vildi selja okkur ýmsan varning en þau höfðu nú lítið upp úr því.

Loks komum við til Chiquila og þá var klukkan að verða 17. Í höfninni flugu pelicanar, freygátufuglar og mávfuglar. Inga sá strax tilhlökkunina í augunum á Óskari þar eyjan er verndarsvæði fyrir fugla. Á hafnarbakkanum biðu svo leigubílar sem voru einskonar golfbílar þar sem hér eru mjög fáir bílar. Við röltum samt á hótelið okkar sem var alveg við hafnarbakkann og við hliðina á hafnarverðinum. Okkur fannst þetta hótel nú ekki beisið. Það voru ekki gler í öllum gluggunum í herberginu, einungis net sem var svo gróft að 2 moskítóflugur hefðu getað mæst í því. Við erum sem betur fersvo vel búin að við vorum með moskítótjald með okkur sem við keyptum fyrir Suður-Ameríkuferðina okkar að við tjölduðum bara á rúminu okkar. Netið er líka rosalega lélegt hér og við þurfum að halda á tölvunni úti í glugga til að fá netsamband. Það er því ólíklegt að við skype-umst eitthvað í augnablikinu.



Um kvöldið fengum við okkur svo göngutúr niður í miðbæinn sem er 6 götum frá okkur. Hér eru göturnar ekki malbikaðar og mjög fáir ljósastaurar. Golfbílar standa svo nánast við hvert hús. Það er því mjög spes en skemmtileg stemning sem fylgir þessum stað. Í miðbænum settumst við svo inn á pizzastað þar sem við pöntum okkur mjög góða pizzu (besti matur ferðarinnar hingað til að mati Ingu). Óskar gat samt ekki borðað mikið þar sem maginn á honum var eitthvað extra mikið að stríða honum og við enduðum á því að fara bara aftur upp á hótel og horfa á einhverja eld gamla mynd með Jean Claude van Damme.



Í dag var svo vaknað og farið í sturtu. Það var nú menningarsjokk út af fyrir sig en sturtuhausinn er risastór kuðungur sem vatnið lekur út um. Óskar þurfti að byrja á því að fjarlægja dauðann kakkalakka úr sturtunni (Ingu ekki til mikillar ánægju) auk þess sem vatnið sem úr henni kom var náttúrulega hitað = ískalt. En við lítum bara á þetta sem eftirminnilega lífsreynslu og þær eru yfirleitt skemmtilegar... allavega eftirá.



Í dag er svo planið að fara um eyjuna. Okkur stendur til boða að leigja okkur gólfbíl fyrir 1000 kr klukkutímann. Okkur finnst það dáldið freystandi og taka um leið þátt í þessari óvenjulegu stemningu. Við vonumst einnig til að finna fullt af fuglum svo Óskar geti myndað á meðan Inga sleikir sólina.   

14. janúar 2013

Xscaret og Tulum

Í fyrradag vöknuðum við og tókum meðvitaða ákvörðun að verða túristar alveg í botn. Við tókum því leigubíl í einn af fjölmörgum skemmtigörðum sem eru hér. Við völdum þann sem heitir Xscaret og er byggður í kring um litla og að sjálfsögðu gamla Maya-rúst. Á Playa del Carmen er mikið gert út á köfun og snorklun því hérna iðar sjórinn af lífi. Rétt utan við ströndina er annað stærsta kóralrif heims og við lærðum það einmitt í þessum garði að það er meira líf í kring um kóralrifin heldur en í frumskógum.

Xscaret er garður sem leggur áherslu á dýralíf og menningu Mexíkó. Garðurinn er risastór og á hverju ári "framleiðir" hann dýr sem eru í útrýmingarhættu og sleppir í náttúruna. Garðurinn á t.d. Guinnes heimsmet í fjölda Macaw páfagauga klöktum á einu ári (105 stk).


Óskar var í essinu sínu þennan dag og tók vel yfir 600 myndir enda var allt í þessum garði lifandi. Litlar sem stórar eðlur og iguana voru þarna vappandi um allt. Auk þess voru risaskjaldbökur sem þeir rækta og hægt að sjá þær misstórar allt frá 3 mánaða upp í 9 mánaða en þá sleppa þeir þeim í sjóinn. Núna er akkúrat tíminn sem skaldbökurnar eru að verpa í sínu náttúrulega umhverfi. Þarna voru líka apar, maurætur, villisvín, þvottabirnir, fiðrildi og fiskar. Okkur fannst samt magnað að sjá púmur vera að snyrta hvor aðra og standa og horfast í augu við jagúar. Þarna var svo líka hægt að snorkla og synda með skötum og höfrungum.




Þarna voru líka ýmsar sýningar yfir daginn sem tengjast menningu Mexíkó. Fyrst sáum við sýningu svokallaðra fljúgandi manna.Athöfnins fer þannig fram að 5 menn klifra upp í 30 metra háan trédrumb þar sem 4 af þessum 5 láta sig svo falla afturábak niður einungis með kaðal bundinn um mittið á sér. Þar snúast þeir í 13 hringi utan um drumbinn en fara svo í aðra litla hringi í leiðinni. Þegar þeir eru komir aftur á jörðina eru þeir búnir að snúast 52 hringi, jafnmarga og vikurnar í árinu eru. Fimmti maðurinn situr á toppi drumbsins og dansar og spilar á flautu og trommu. Samkvæmt þjóðsögunni var þetta framkvæmt til þess að biðja guðina um rigningu og frjósemi jarðarinnar. Í dag er þessi athöfn komin á lista UNESCO.   


Á öðrum stað sem var tileinkað menningu Mayanna var verið að sýna dans sem við náðum ekki alveg út á hvað gekk þar sem hann var byrjaður þegar við mættum. Hann var samt mjög skrautlegur með mörgum ófrýnilegum mönnum.


Um kvöldið var svo boðið upp á 2 tíma menningarveislu þar sem sýndir voru boltaleikir Mayanna (en ekki mannfórnirnar á liðinu sem tapaði) og svo bandý sem þeir spiluðu með bolta sem kveikt var í með eldi. Farið var yfir sögu landsins, þegar Spánverjar ruddust hér inn og helguðu sér landið, eyðilögðu mörg Mayahofin og kristnuðu. Svo var aðeins farið inn á afrískan uppruna margra hér. Seinni hluti sýningarinnar voru svo söngvar, dansar og fatnaður frá hinum ýmsu héruðum í Mexíkó. Inga taldi um 100 manns sem tóku þátt í sýningunni þannig að þetta var eitthvað sem við vildum ekki missa af.





Í gær ákváðum við svo að fara til Tulum sem er í 45 mín fjarlægð frá Playa del Carmen. Þar eru rústir frá tímum Mayanna sem þjónaði sem hafnarstaður fyrir annan stað sem við eigum vonandi eftir að fara að skoða og heitir Cobá og er aðeins innar á Yukatanskaganum. Rústirnar standa á 12 metra háum kletti og stendur á móti Karabíska hafinu. Tulum var ein af síðustu borgunum sem voru byggðar af Mayunum og var í mestum blóma frá um 1300 - 1500 e.kr og náði að lifa af í um 70 ár eftir að Spánverjar náðu hér völdum. Talið er að sjúkdómar sem Spánverjarnir fluttu með sér hafi orðið borginni að falli.

Í Tulum var svakalega heitt og sennilega hefur þetta verið heitasti dagurinn okkar hingað til. Hins vegar eru engir hitamælar hér neinsstaðar því heimamönnum þykir þetta ekkert voðalegt því það er víst vetur hér núna. Við klakaklumparnir svitnum samt eins og enginn sé morgundagurinn og drekkum heilu lítrana af vökva á dag. Skemmtilegt þótti okkur samt að sjá að iguana og eðlur voru þarna um allt og féllu alveg svakalega inn í landslagið og rústirnar sem gerði svæðið enn dularfyllra fyrir vikið.



 Í dag ætluðum við að fara með Guillermo vini okkar úr matreiðslunámskeiðinu til Holbox en þar sem eitthvað kom upp hjá honum fer hann ekki í dag. Við ætlum því að finna okkur eitthvað ofur skemmtilegt að gera eins og fara með þvott í hreinsun, kannski kíkja til Cancún og leyfa maganum í okkur að jafna sig því þeir eru búnir að vera með einhver uppsteyt síðustu daga.

12. janúar 2013

Playa del Carmen

Í gærmorgun vöknuðum við eldsnemma, enda sólarhringurinn okkar enn í einhverju rugli þar sem munar 6 klst á Mexíkó og Íslandi. Eftir að hafa borðað frekar einfaldan morgunmat á hótelinu tókum við leigubíl í miðbæ Playa del Carmen. Þar fórum við beina leið að sjónum því við vorum óð í að fá að sjá og snerta Karabíska hafið. Ströndin hér er gerð úr silkimjúkum sandi og þegar maður gengur um hana er líkast að maður labbi á hveiti. Mýkri strönd höfum við bara aldrei kynnst.

Við gengum dálítinn spöl á ströndinni og heyrðum reglulega á leiðinni "hey amigo, massage?" Við vorum hins vegar með hugann við allt annað en nudd því þarna voru nokkrir pelikanar á vappi. Inga var meira að segja svo mikið að skoða þá að hún sá ekki að hún var næstum kominn inn í hóp á fólki þar sem tveir menn voru að slást. Þá var nú afar augljóst að Óskar hefur smitað hana að einhverju leiti af fuglaáhuga.


Eftir gönguna á ströndinni álpuðumst við til að finna aðal túrista-/verslunargötuna hér í Playa del Carmen. Þar eru búðir fullar af minjagripum í bunkum og allir að reyna að veiða mann til að skoða hjá sér. Við vorum til að mynda nokkrum sinnum spurð að því hvort við værum ekki í brúðkaupsferðinni okkar, hvort okkur vantaði ekki sólgleraugu í sólinni og þar fram eftir götunum. Maður getur samt orðið hrikalega þreyttur á þessu áreiti og að mega helst ekki ná augnsambandi við fólk því þá sleppur maður varla frá þeim, því þótt maður afþakki, þá spyrja þau bara hvaða verð maður vill borga... jafnvel þrátt maður hafi ekki áhuga á neinu hjá þeim.

Næst ákváðum við að það væri kominn tími fyrir fyrsta Taco-ið okkar. Við fórum á veitingastað þar sem fullt var af fólki og pöntuðum okkur taco með nautakjöti. Ingu fannst það ekki standast væntingar, enda var það allt öðruvísi en maður á að venjast heima. Mikið meira maísbragð af tortillunum og svo var bara kjöt á milli og guacamole og einhverskonar baunakássa til hliðar. Ekkert salsa, ekkert grænmeti... en svona á það sennilegast að vera.


Þegar við vorum svo komin með leið og þessum ticky tacky sölumönnum ákváðum við að við ætluðum upp á hótel að fá okkur síestu eins og sönnum Spánverjum sæmir og leggja okkur í 1-2 klst til að reyna að koma sólarhringnum í rétt horf. Það fór hins vegar þannig að við vöknuðum eftir tæpa 5 klst og þá var orðið allt of seint að fara út að gera eitthvað. Við eyddum því bara kvöldinu í afslöppun og að horfa á þær örfáu sjónvarpsstöðvar sem eru á ensku því flest allt hér er talsett á spænsku.

Í morgun vöknuðum við að sjálfsögðu aftur snemma. Við ákváðum að fá okkur rölting niður í bæ og kíkja á stórar verslanir hér, Wal mart og Mega. Þær voru nú ekkert spennandi þannig að við röltum áfram neðar í bæinn og kíktum á rútustöðina til að athuga með verð og ferðatíma fyrir rútur til hinna ýmsu staða hérna á Yukatanskaganum. Upp á hótel skunduðum við svo enda áttum við von á pick-up-i á hótelinu því við vorum búin að panta einka mexíkóst matreiðslunámskeið.

Rétt fyrir kl. 14 vorum við pick-uð upp af Fernando og vini hans, Guillermo. Fernando er upphaflega frá Buenos Aires í Argengínu þar sem hann hafði unnið sem kokkur í fjölda mörg ár en hann hefur nú búið í Mexíkó yfir 20 ár. Fernando og Guillermo keyrðu okkur í smá stund í bílnum hans Guillermo og sögðu okkur að þar sem einhver ruglingur hefði orðið með dagsetningar hjá okkur, þá var eldhúsið sem þau ætluðu að nota ekki laust og því urðu þau að grípa til þess ráðs að hafa námskeiðið heima hjá Guillermo og Gloriu konunni hans. Hins vegar myndum við svo hitta Andreu, konuna hans Fernando (sem er líka frá Buenos Aires) en hún myndi vera okkar einka kokkur/kennari þennan dag. Þegar við svo loksins stoppuðum, þurftum við að ganga smá spöl inni í frumskógi þar sem við komum að húsi. Þar vorum við leidd áfram að útigrilli og arin og uppdekkuðu borði fyrir okkur 2. Okkur þótti þetta rosalega flott og mikill sjarmi yfir öllu þarna.

Andrea og Fernando kynntu okkur fyrir Jamaica flower sem maður notar til að búa til drykk og er mjög gott, guacamole og rauðri salsasósu. Þau sýndu okkur líka hvernig búa má til tortillu og við fengum cesadilla með osti og chillí sem var allt grillað yfir opnum eldi. Við fengum að vita hvaðan maturinn var "ættaður" og frá hvaða tímaskeiði hann væri. Fernando sagði okkur að mexíkóskur matur væri upprunnin úr þremur tímaskeiðum: mayunum, frá því þegar Spánverjar réðu yfir álfunni og nútíma áhrifum. Síðan var okkur kennt að gera nautarétt með protobello sveppum, papriku, lauk, kartöflum og kaktus. Það var hrikalega gott og við borðuðum bæði á okkur gat. Í eftirrétt var svo einhverskonar sveskjur í kakói.



Við vorum bæði sammála um að þetta hefði verið æðisleg lífsreynsla, að elda inni í frumskógi með spænska tónlist ómandi í kring um okkur, umlukin heimamönnum sem voru að sýna okkur myndir af börnunum sínum, gefa okkur góð ráð um hvert við ættum að ferðast innan Mexíkó og tala við okkur um daglegt líf hér í Mexíkó. Óskar var með nokkrar myndir að heiman í símanum sínum og gat því sýnt þeim smá frá okkur. Við kveðjustundina vorum svo leyst út með gjöf og vorum knúsuð og kysst bak og fyrir. Þegar Guillermo skutlaði okkur svo aftur heim fórum við að tala við hann um hugmyndir okkar að því sem okkur langaði að gera næstu daga, sem er meðal annars að heimsækja fuglafriðland á eyju sem heitir Holbox. Hann sagðist þá vera að fara þangað sjálfur á mánudaginn og bauð okkur að koma með sér því hann væri að fara að selja listmuni þar. Við vorum spennt fyrir því og ætlum að vera í sambandi við hann á sunnudaginn.




Nú höfum við framlengt dvölina okkar í Playa del Carmen um 3 nætur. Við erum ekki alveg búin að ákveða nákvæmlega hvað við ætlum að gera, en eitt er víst, af nógu er að taka hér.

10. janúar 2013

Boston - Mexíkó

Eins og margar góðar ferðir, hjá mörgu góðu fólki þá byrjaði ferðin okkar á BSÍ. Við vorum að sjálfsögðu knúsuð bak og fyrir af vinnufélögum Ingu áður en Flugrútan flutti okkur til Keflavíkur. Inga var dálítið stressuð  fyrir að fara með lyfin sín (sprautur) í gegn um farangursleyt í fyrsta sinn, en það var algjörlega tilgangslaust. Á flugvellinum hittum við svo 3 Ársælinga (Sissa, Freyr og Rauðhettu) en við vorum öll á leiðinni í sitthvora áttina. Flugið til Boston gekk mjög vel fyrir sig og við skemmtum okkur ágætlega við að skoða afþreyingarefni um borð í vélinni. Það er alveg ótrúlegt hvað tíminn líður hraðar þegar maður fær að velja sér myndefni til að horfa á!

Þegar við vorum lent á Logan Airport í Boston fórum við í að finna út hvernig við kæmumst á hótelið okkar sem var í Back Bay nálægt miðbæ Boston. Eftir smá vangaveltur sáum við að við þyrftum að finna eitthvað sem kallaðist Silver line... jú jú... það var merkt á korti sem T eins og neðanjarðarlestirnar þannig að við fórum að leita af svoleiðis apparati. Einhverja hluta vegna lentum við samt fyrir utan flugstöðina og föttuðum að Silver line væri strætó. Við álpuðumst því upp í hann og eitt leiddi að öðru og loks vorum við búin að fara í 2 neðanjarðarlestir og komin á Back Bay. Við vorum svo enga stund að ramba á hótelið okkar sem var bara mjög fínt. Stelpan í móttökunni var svo ánægð að hitta Íslendinga að hún ákvað að upgrade-a herbergið okkar og láta okkur fá stærra herbergi með King size rúmi. Um kvöldið fengum við okkur hressandi kvöldgöngu í matvörubúð þar sem við fengum Ameríku beint í æð. Allt í magnumbúðum og allt of mikið úrval. Inga var samt rosalega ánægð þegar hún sá að hægt væri að kaupa kirsuber og japplaði hún á þeim alveg þangað til hún þurfti að skilja við pokann á leið á flugvöllinn á ný. 

Eitthvað var nú sólarhringurinn okkar í rugli eftir þessa fyrstu nótt í útlöndum því við vorum vöknuð kl. 6 að staðartíma. Morguninn fór í að taka sig til fyrir áframhaldandi flug enda hafði Inga farið inn á síðuna hjá American Airlines kvöldið sem við komum til Boston og sá að flugið okkar var á réttum tíma. Hins vegar þegar hún athugaði það um morguninn kom bara upp að ekki væri hægt að finna flugið og að við þyrftum að hafa samband við þjónustuaðila. Eitthvað fannst okkur það skrýtið og ákváðum að haska okkur út á flugvöll. Þegar við vorum búin að massa lestarkerfið eina ferðina enn sáum við á skjá á flugvellinum að fluginu okkar hefði verið aflýst. Frábært hugsuðum við og höskuðum okkur í átt að næsta þjónustuaðila fyrir American Airlines. "Good morning, we see our flight to Dallas has been cancelled, what should we do" spurðum við þjónustuaðilann á okkar afbragðs ensku. Þá kom svipur á hana og hún sagði okkur að bíða og svo byrjaði hún að hlaupa á milli allra innritunarborðana og tilkynnti að fluginu hafði verið aflýst. Frábært! Við vitum þetta en ekki þeir sem vinna hjá flugfélaginu hugsuðum við... það boðar ekki gott. Sem betur fer höfðum við bókað flugið í gegn um Dallas og til Cancun sem einn miða. Þegar við komum að innritunarborðinu var okkur sagt að við hefðum verið færð yfir á flug til Miami og færum svo áfram þaðan til Cancun. Hins vegar færi þetta flug 30 mín fyrr, þannig að ef við hefðum eitthvað verið að drolla um morguninn hefðum við getað misst af fluginu. 

Miami tók á móti okkur með hita, sól, pálmatrjám og sandi.... eða það var allavega það sem við sáum og fundum út um gluggann á flugstöðinni. Við slökuðum bara á milli fluganna okkar og skemmtum okkur vel við að fylgjast með tvífara Magga vinar okkar úr Garðinum á Suðurnesjum. Loks kom að því að fara í flugið til Cancun. Við þessa breytingu á fluginu okkar, reiknaðist okkur til að við hefðum sparað 2 tíma á leiðinni sem okkur fannst sko ekki slæmt. 

Við lentum svo í Cancun, Mexikó um 5-leitið að staðartíma. Í flugvélinni var okkur rétt plagg sem við áttum að fylla út fyrir farangursleit og svo þegar við gengum inn landganginn, eftir að hafa lent á 29°C heitum vegg var okkur rétt annað blað sem við áttum að fylla út. Þarna stóðum við á miðjum gangi á flugvelli ásamt öllum hinum úr flugvélinni okkar, sem var full og allir að fylla út skjöl. Fyndnasta við það var að það var ekki einn staður sem bauð upp á að fólk gæti fyllt út plögg og var því fólk liggjandi á gólfinu, skrifandi á blöðin á veggjunum eða sitjandi í gluggakistu eins og við gerðum. Okkur þótti þetta dálítið skrítið og ræddum að svona yrði þetta seint gert á Íslandi. Fínir stimplar í passana og við vorum frjáls ferða okkar. Út í hitann og rakann fórum við og það lág við að það heyrðust gormahljóð þegar hárið á Ingu byrjaði að krullast í rakanum. 

Við vorum búin að lesa okkur þess til að ódýrast fyrir okkur væri að fara með rútu til Playa del Carmen sem er í 45 mín leið frá Cancún. Fyrst byrjuðum við á að kaupa okkur vitlausan miða og þegar við nefndum það við afgreiðslukonuna var eins og við værum að skemma daginn fyrir henni. Við létum samt ekki segjast og fengum að breyta miðanum. Við þurftum hins vegar að bíða í klukkutíma eftir næstu rútu. Já, við létum okkur sko hafa það enda kostaði okkur 3000 kr fyrir okkur bæði að komast alla leið á hótelið í staðinn fyrir ca 7000 kr með leigubíl. Nú erum við nýkomin á hótelið og höfum ekki orku  í að gera meir en að leggjast undir lakið okkar og steinsofna.

7. janúar 2013

Næsta ferð að hefjast

Jæja, þá er næsta ferð að hefjast hjá okkur turtildúfunum. Nú skal förinni heitið til Mið-Ameríku sem er dálítið norðar en Suður-Ameríka sem við ferðuðumst árið 2010. Þá dvöldum við í veldi Inkanna en nú ætlum við að skoða menningu Maya og Azteka auk annarra spennandi hluta.

Við hefjum ferðalagið okkar á morgun, 8. janúar. Ferðin hefur verið í bígerð síðan í janúar 2012 þegar við ræddum það saman eitthvað kvöldið að okkur langaði að fara í aðra ferð því ferðin frá 2010 hefur skilið eftir sig svo ótrúlega margar skemmtilegar og góðar minningar. Við ákváðum því að safna okkur fyrir flugmiðum og það varð úr eftir miklar vangaveltur um heppilegar dagsetningar að janúar - febrúar 2013 varð fyrir valinu.

Nú þegar ferðin er að bresta höfum við haft að mörgu að huga. Við höfum bæði þurft að bæta við og endurnýja bólusetningar, endurnýja Vísakort og vegabréf, myndavélakost og fleira. Við erum þó bæði sammála um að reynslan kennir manni ýmislegt og því hefur okkur þótt ýmis mál auðveldari í undirbúningi þessarar ferðar heldur en þeirrar sem við fórum í 2010. Til að mynda vitum við betur hvernig við eigum að pakka niður í bakpoka, hvað við hefðum betur skilið eftir heima og hvað hefði átt að koma með.

Auk þess hafa margar áherslur í okkar daglega lífi breyst. Þar má þá helst nefna lyfjanotkun Ingu vegna gigtarinnar en í ferðinni 2010 þurfti hún að vera gangandi á sterum þar sem hún hafði fengið bráðaofnæmi fyrir lyfjunum sínum 4 dögum fyrir ferð. Núna er hún hins vegar komin á önnur (og vonandi betri) lyf sem hún mun geta haft með sér en hafa því miður þann eiginlega að vera ofnæmisbælandi sem getur gert það að verkum að hún er líklegri til að finna sér alls kyns matareitranir og vesen á leiðinni. Því er gott að vera við sem flestu búinn og eftir að hafa farið í apótekið og eytt þar fúlgu fjár lítur út fyrir að við verðum gangandi apótek. Maður veltir fyrir sér hvernig ástandið verður á okkur eftir 40 ár með þessu áframhaldi :)




Ferðinni á morgun verður heitið til Boston. Þar ætlum við að gista í eina nótt áður en við fljúgum til Cancun í Mexíkó með millilendingu í Ft. Worth í Dallas í Bandaríkjunum. Við erum búin að bóka okkur 3 nætur á hóteli á Playa del Carmen þar sem við ætlum að skoða okkur um og slaka á áður en við byrjum á fullum krafti að drekka í okkur menninguna. Á 6 vikum ætlum við svo að færast sunnar á bóginn og enda ferðina í Costa Rica þaðan sem við fljúgum svo til Boston, þar sem við gistum í 3 nætur áður en við lendum svo aftur á klakanum.