28. janúar 2013

In the jungle, the mighty jungle...


Í gær ákváðum við að taka einn dag í viðbót í afslöppun svo að Óskar myndi nú alveg ná að jafna sig. Við vöknuðum snemma eins og við gerum alltaf, skrölltum niður á veitingastaðinn sem er hér á hótelinu okkar og fengum okkur gómsætan morgunverð, brauð, egg, bacon, ferskir ávextir og steiktir bananar (sem eru ekki svo góðir).



Næst ákváðum við að viðra okkur aðeins og gengum út á eyjuna sem er hérna við vatnið sem hótelið okkar stendur við. Hérna er allt morandi í litlum bílum sem nefnast Tuctuc og koma í stað leigubíla. Við ferðuðumst með svona apparati um daginn og þótti mjög gaman. Aðal tilgangur viðrunarinnar var meðal annars að fara og athuga hvort við værum ekki örugglega bókuð í ferðina til Tikal sem við ætluðum í um daginn þegar Óskar var veikur. Við höfðum bæði talað við bílstjórann sem kom og náði í okkur morguninn sem við upphaflega ætluðum í ferðina, auk þess sem við vorum búin að koma við á skrifstofunni til að breyta dagsetningunni. Þrátt fyrir þetta vorum við bæði með þá tilfinningu að það væri ekki allt með feldu og betra væri að athuga þetta í þriðja skiptið.

Sem betur fer fylgdum við tilfinningunum okkar og athuguðum með þetta, því þegar við vorum komin á ferðaskrifstofuna, þá var þar sami strákur og daginn sem við fórum þangað fyrst til að breyta miðanum. Þegar við fórum að spyrja hann út í hvort við værum ekki örugglega bókuð á sunnudaginn (í dag) þá tók hann upp símann og hringdi í manninn sem seldi okkur upphaflega ferðina þar sem dagsetningin á vouchernum var náttúrulega ekki rétt. Þá varð hann allur hinn erfiðasti og heimtaði að við borguðum honum 3200 ISK til viðbótar bara fyrir það eitt að breyta vouchernum. Þegar við vorum bæði búin að rífast við gaurinn í símann sögðum við honum að það kæmi ekki til greina að láta hann hafa fleiri peninga og að þetta væri skítafyrirtæki. Því næst gengum við á aðra ferðaskrifstofu og keyptum okkur aðra ferð til Tikal þegar við vorum búin að fullvissa okkur um að hún væri ekki í samstarfi við hina apakettina.

Við kláruðum svo að ganga hring í kring um eyjuna meðfram vatninu. Þetta vatn iðar af lífi. Þar eru fullt af fiskum sem synda um í litlum fiskitorfum auk skjaldbaka. Fuglalífið blómstrar að sama skapi og við höfum séð margar fuglategundir eins og skarfa, svölur, þyril, bléshænur, sefhænur og hegra. Á vatninu siglir svo fólk á bátum ýmist með ferðamenn eða til að veiða. Þegar við vorum komin af eyjunni settumst við á bekki fyrir framan verslunarmiðstöð sem er hér rétt hjá en bekkirnir eru á litlum steyptum palli sem nær aðeins út í vatnið. Þar snæddum við sitthvorn ísinn og það vakti mikla athygli hjá einni bléshænunni sem kom syndandi til okkar. Óskar kastaði smá súkkulaði til hennar og okkur fannst alveg magnað hversu frökk hún var og greinilega óvenju gæfur fugl því það lág við á tímabili að við hefðum næstum getað snert hana.





Eftir göngutúrinn fórum við aftur á hótelið og slöppuðum af og fórum svo snemma að sofa því það var ræs kl. 02:00 fyrir ferðalagið til Tikal.



Við vöknuðum spræk þegar klukkan hringdi enda mikil spenna að fara loksins að sjá pýramídana í Tikal. Þegar klukkan var rúmlega 3 var komið að ná í okkur á hótelið og við keyrðum í ca 1,5 klst í átt að þjóðgarðinum. Þegar við vorum komin í gegn um hliðið að honum tók við smá akstur í viðbót. Meðfram veginum voru skilti á nokkurra metra fresti um að hámarksökuhraði væri 45 km/klst og að fólk ætti að passa sig á dýrunum sem gætu hlaupið yfir veginn. Heima á Íslandi erum við með skilti sem vara okkur við lausum kúm og kindum á hinum ýmsu sveitavegum, en þarna voru skilti sem bentu á að snákar, hjartardýr, maurætur, kalkúnar, apar og jagúar ættu til með að leynast á vegunum.

Fornleifarnar í Tikal ná yfir mjög stórt svæði eða um 16 ferkílómetra og hafa fundist um 3000 rústir á svæðinu. Fornleifarnar liggja í láglendi í frumskógum Guatemala. Þjóðgarðurinn er á verndarská UNESCO.

Þegar bíllinn var loksins stöðvaður fórum við öll út og inn í myrkrið. Síðan fylgdum við leiðsögumanninum okkar inn í frumskóginn. Það var rosalega sérstök tilfinning að ganga um í alvöru frumskógi í niðamyrkri (fyrir utan örfá vasaljós). Við gengum undir risastórum trjám sem þökktu oftast himininn svo ekki sást út um þau. Í kring um okkur heyrðum við öskrin í öpunum sem trjóna í trjátoppunum. Rætur trjánna lágu allsstaðar við lappirnar á okkur og ekki leið á löngu en að moldarstígurinn sem við gengum á var komin upp á buxnaskálmar hjá okkur. Við kepptumst samt við að vera sem næst leiðsögumanninum þar sem hann dældi út úr sér fróðleik um Mayana sem bjuggu þarna og dýrin sem lifa þarna í dag. Hann bað okkur samt um að fara varlega og gæta að því hvar við stigum niður því þarna væru margar tegundir snáka og einhverjar þeirra eitraðar. Hann sagðist sjálfur hafa séð 17 mismunandi tegundir snáka þarna í þjóðgarðinum og vildi frekar missa eina mínútu í lífinu heldur en að missa lífið á einni mínútu. Það fannst okkur rosalega góð speki og gott veganesti.

Þegar klukkan var að ganga 6 gengum við upp tæpar 200 tröppur upp á einn pýramídann til að verða vitni af sólarupprásinni. Inga var samt eitthvað að flýta sér og sprengdi sig á leiðnni (sem gerði að sjálfsögðu illt verra og hún varð að sjálfsögðu síðust ásamt Óskari sem vék að sjálfsögðu ekki frá henni). Við settumst svo niður til að sjá sólarupprásina en þar sem það var skýjað og mikið mistur í loftinu (vegna 85% raka) þá sáum við bara ljósaskiptin færast yfir regnskóginn á sama tíma og við heyrðum skóginn vakna.



Við héldum svo áfram að fræðast með leiðsögumanninum. Á einum tímapunkti fékk Inga skyndilega í magann og þurfti að hlaupa á salernið og við það týndum við hópnum. Leiðsögumaðurinn sagði samt við Óskar að við ættum að hitta hann á the main plaza. Við reyndum að leita að hópnum okkar á leiðinni á torgið en raddir virtust koma úr öllum áttum. Þar sem leiðsögumaðurinn hafði gaman af því að tala og stoppa þá gáfum við okkur góðan tíma til að koma okkur þangað. Á leiðinni skoðuðum við villta apa í trjánum og ýmsar fuglategundir. Við höfðum svo ágætis tíma til að skoða okkur um á torginu áður en hópurinn okkar kom. Fljótlega kvaddi leiðsögumaðurinn okkur og við fengum frjálsan tíma þangað til bíllinn okkar átti að fara kl. 11.




Við röltum upp á eina rústina þar sem við sáum vel yfir torgið. Þar settumst við niður og fengum okkur morgunmat. Ekki leið á löngu þar til við vorum umkringd af fuglum sem samkvæmt fuglabókinni hans Óskars heita Brown Jay. Þeir voru greinilega vanir því að geta sníkt brauðbita frá ferðamönnunum sem setjast þarna. Við gerðum það sama (þrátt fyrir að það megi ekki) því það auðveldaði Óskari að ná góðum myndum af þeim. Páfagaukar kölluðu í trjánum og aparnir öskruðu í kring. Algjörlega magnað!




Við gengum svo niður á torgið aftur og sáum þá að þar var kominn hópur af Mayum sem hringaði sig í hring um fórnar-/eldstæði fyrir framan stærsta pýramídann. Ekki leið á löngu þar til þau fóru að færa fórnir með því að fara með einhverskonar bænir og blessa reykelsiskúlur sem þau voru með. Síðan kveiktu þau á kertum og kveiktu svo í reykelsiskúlunum sem skíðloguðu á meðan þau fóru með fleiri bænir. Okkur fannst alveg stórmerkilegt að fá að verða vitni að þessu.




Næst gengum við í áttina að rútunni en það tók mikið lengri tíma en við gerðum ráð fyrir því nóg var að sjá á leiðinni. Fleiri apar voru hangandi í trjánum, spætur voru goggandi í trjáboli, maurar gengu um eins og herflokkar í beinum línum, einhverskonar frændi maurætunnar hljóp um á milli tjrábolanna og toucanar flögruðu í trjátoppunum. Við urðum svo heilluð af þessum stað að við ákváðum að ganga í átt að bílnum og athuga hvort við kæmumst ekki með einhverjum bíl sem færi seinna. Við fengum leyfi til að fara með bíl kl. 12:30 og því fórum við aftur inn í frumskóginn að skoða meira.



Við erum bæði sammála um að þessi dagur sé sennilega sá besti það sem af er þessu ferðalagi og sá sem kemst einna næst “vá faktornum” sem við urðum fyrir í Macchu Picchu í Perú árið 2010. Ef við hefðum getað þá hefðum við viljað vera allan daginn þarna í frumskóginum og virða fyrir okkur lífið í sínu villtasta umhverfi.




Þegar við vorum komin á hótelið, enn í skýjunum yfir þessari lífsreynslu, steinrotuðumst við. Við vöknuðum ekki fyrr en farið var að þrífa íbúðina við hliðina á okkur og færa til rúm og aðra innanstokksmuni. Við gerðum okkur svo gott kvöld og röltum niður á veitingastaðinn þar sem Óskar verðlaunaði sig með piparsteik og Inga prufaði mat innfæddra, Tortillasúpu.

Á morgun tekur svo við 9 klst. rútuferð til Guatemala city, höfuðborgar landsins.





1 ummæli: