Og áfram heldur ferðasagan...
Eftir að við höfðum sofið úr
okkur ferðaþreytuna eftir ferðina frá Guatemala til Copán í
Honduras vöknuðum við spræk og fersk kl. 7 eins og við gerum
alltaf. Það virðist alltaf vera að hvar sem við erum byrja
fuglarnir að syngja og fólkið í næstu herbergjum að vera með
læti um leið og klukkan slær 7. Það er svo sem ágætt, því þá
notum við daginn til að skoða okkur um í staðinn fyrir að sofa
hann af okkur.
Eftir að hafa fengið morgunmat tókum
við fríu skutluna sem hótelið okkar bauð upp á og létum hana
skutla okkur að rústum Maya-borgarinnar í Copán. Við höfum
tekið eftir því á leið okkar um Mið-Ameríku að fólkið hér
notar bílflauturnar hér í dáldið örðum tilgangi en við gerum
heima. Á Íslandi þýðir bílflaut yfirleitt annað hvort “passaðu
þig, þú ert að keyra á mig” eða “drullaðu þér yfir
ljósin svo ég fái ekki rautt”. Hérna notar fólk flauturnar að
sjálfsögðu líka óspart til að reka á eftir þeim sem á undan
eru en einnig til að heilsast og jafnvel þakka fyrir sig. Maður
sér það einnig að fólk flautar með munninum í sama tilgangi.
Dáldið vinalegt og skemmtilegt.
Heimamenn grínast oft og segja að
Copán hafi verið eins og París nútímans þar sem hún er uppfull
af alls kyns styttum og útskorningum og sé á þann háttinn mjög
rómantísk borg. Á sama hátt tala þeir um að Tikal hafi verið
eins og New York þar sem pýramídarnir þar eru svo háir og minni
á skýjaklúfa. Þótt við höfum ekki farið til Parísar þá
getum við ekki ímyndað okkur að það sé neitt sameiginlegt með
þessum 2 stöðum.
Copán var syðsti oddi Mayaveldisins
og þjónaði sem stórborg á 6. og 10. öld e. Kr. Þá bjuggu um
20.000 manns í borginni sem náði yfir um 250 ferkílómetra.
Það fyrsta sem við gerðum var að
ráða okkur einkaleiðsögumann. Hann gekk með okkur tveim um allt
svæðið og útskýrði það fyrir okkur og svaraði auk þess
öllum spurningunum okkar. Við byrjuðum á því að ganga inn um
hálfgerðan inngang inn í bæinn þar sem sátu nokkrir macaw
páfagaukar í trjánum og kölluðu sín á milli. Leiðsögumaðurinn
útskýrði fyrir okkur að svona páfagaukar hefðu verið mjög
mikilvægir í augum Mayanna því á þeim tíma hafði dalurinn sem
rústirnar liggja í verið heimkynni þessara fugla. Mayjarnir
máluðu hús sín í litum fuglanna og skreyttu sig með fjöðrum
þeirra. Á síðustu árum hefur fuglunum því miður fækkað en
í garðinum hafa fuglarnir þó verið að para sig og unga út
undir eftirliti þjóðgarðsvarðanna.
Leiðsögumaðurinn sagði okkur frá
því að þarna hefðu 15 kóngar ráðið ríkjum á 400 árum og
þeir hafi allir tilheyrt sömu fjölskyldunni því krúnan gekk frá
föður til sonar. Hins vegar hafa sumir synirnir ekki alveg “fýlað”
það sem feður þeirra gerðu því undir rústunum liggja 3 aðrar
borgir. Leiðsögumaðurinn útskýrði fyrir okkur að það hefði
greinilega verið þannig að eftir að einhverjir af þeim sonum sem
fengu krúnuna að föður sínum látnum, hafi þeir ákveðið að
byggja sitt eigið konugnsveldi í stað þess að nota það sem
fyrir var. Því var fólki skipað að grafa “gömlu borgina”
niður og byggja nýja í hennar stað. Þarna var t.d. annar stærsti
fótboltavöllur í Mið-Ameríku (á eftir þeim í Citchen Itza) en
undir honum væru 2 aðrir. Leiðsögumaðurinn gekk með okkur um
svæðið og útskýrði fyrir okkur það sem fyrir augu bar og líka
það sem við sáum ekki því það var undir fótunum okkar,
jafnvel á 15 metra dýpi sum staðar. Hann sagði okkur frá því
að Mayarnir hefðu þó gert göng sem voru 6 km löng um allt
svæðið þannig að þegar fornleyfafræðingarnir fóru að grafa
á svæðinu fundu þeir borgirnar fyrir neðan algjörlega
óhreyfðar. Málningin var meira að segja á þeim enþá og var
búin að vera þar í rúm 1000 ár. Hins vegar þegar göngin voru
opnuð þá fór málningin að hverfa af vegna súrefnisisins sem
komst að henni. Sum göngin eru þó opin fyrir almenning þannig að
við gátum skoðað smá hluta af þessum rústum “á neðri
hæðinni”. Við fengum að skoða rúst af borg sem kölluð var
Rosalilla og var upphaflega öll máluð í rauðum lit fyrir utan
skreytingarnar. Fornleyfafræðingarnir gátu skráð niður hvernig
hún var áður en liturinn fór að hverfa af henni. Það var alveg
ótrúlegt að komast þarna niður og sjá aðra borg fyrir neðan
og jafnvel ganga um í göngum sem konungar og höfðingjar fengu að
ganga um fyrir rúmum 1000 árum síðan. Auk Rosalilla voru þarna
nokkrar grafhvelfingar sem við fengum að sjá og Maya-gufubað þar
sem kóngurinn gat farið í sturtu og hálfgerðan heitapott.
Þarna var einnig að finna
svokallaðann Hieroglyphic Stairway eins og það kallast á ensku.
Það er 21 metra hár stigi og 10 metra breiður með 62 þrepum. Á
honum eru 2200 myndir sem mynda lengsta samfellda Maya-myndmál sem
fundist hefur. Þegar hann fannst voru fyrstu 15 tröppurnar á sínum
upprunalega stað en restin lág fyrir neðan stigan því þegar
þetta fannst þá var svæðið þakið skógi og rætur trjáanna
búin að krækja sér um allt og velta steinum um koll. Enn hefur
ekki tekist að raða þeim í rétta röð en talið er stiginn segi
sögu kónganna í Copán.
Margar styttur voru þarna en þó
aðallega af einum höfðingja sem nefndist á ensku 18 rabbit eða
18 kanínur. Stytturnar standa flest allar á sínum upprunalegu
stöðum og fyrir framan 2 þeirra eru fórnaraltari. Annað
fórnaraltarið var notað til að fórna mönnum. 3 mönnum var
fórnað á ári og voru það fyrirliðar fótboltaliðanna sem unnu
fótboltaleikina sem urðu fyrir valinu. Því var trúað að þeim
sem var fórnað yrði tekið í guðatölu eftir dauðann og því
var þetta mikill heiður. Maður getur rétt ímyndað sér hversu
mörg þekkt nöfn væru eftir í Ensku úrvalsdeildinni eða þeirri
spænsku ef þetta væri enn við líði í dag. Annað fórnaraltari
var svo tileinkað dýrum sem var fórnað. Sem dæmi var 15
jagúörum fórnað þegar 15 kóngurinn dó.
Þegar við vorum búin að drekka í
okkur fróðleik leiðsögumannsins og svæðisins fórum við og
skoðuðum safnið sem er á svæðinu. Þar voru heimamenn búnir að
reisa eftirlíkingu af Rosalilla og mála hana eins og upprunalega.
Þarna geymdu þeir einnig dýrmætar styttur frá rústunum.
Næst ákváðum við að taka tuctuc í
fuglagarð sem var smá spöl frá rústunum. Þessi garður var
einkaframtak landeigandans sem vildi benda fólki á að margir af
þeim fuglum sem áður flögruðu um Copán dal væru í
útrýmingarhættu og þyrftu vernd til að geta snúið aftur til
síns heima. Mikil áhersla var lögð á Macaw páfagauka auk þess
sem þarna voru líka aðrar gerðir af páfagaukum, toucanar, uglur
og haukar. Garðurinn leggur sitt af mörkum við að reyna að fá
fuglana til að mynda pör og eignast unga auk þess sem þeir taka
að sér páfagauka sem hafa fundist í náttúrunni og hafa þurft á
hjálp að halda vegna slyss, veikinda eða annarra orsaka. Markmiðið
er þó alltaf að sleppa fuglunum aftur í náttúruna þegar þeir
hafa náð fullum þroska og bata.
Næst fórum við bara aftur upp á
hótel enda búin að skoða helling þennan daginn og slökuðum á
restina af deginum.
Morguninn eftir fengum við skutluna
til að skutla okkur á rútustöðina. Þar náðum við sem betur
fer að kaupa miða og fengum að sitja saman frá Cobán til borgar
sem nefnist San Petro Sur og er í um 3 km fjarlægð frá Cobán.
Þaðan þurftum við hins vegar að sitja í sitthvoru lagi í um 4
klst frá San Petro Sur til Teguchigalpa sem er höfuðborg Honduras.
Leiðin var hrikalega hlikkjótt og voru sumar beygjurnar nánast
180°. Þar sem ekki voru beygjur voru holur í veginum. Þar sem
ekki voru holur í veginum voru hraðahindranir. Þetta þýddi sem
sagt að bíllinn gat ekki keyrt mjög hratt (en gerði það nú
samt) og var alltaf að bremsa... ekki mjög gott fyrir veltuveikt
fólk.
Eftir 7 klst akstur komumst við til
Teguchigalpa þar sem við tókum leigubíl upp á hótelið okkar.
Það var nálægt miðbænum en ekki svo nálægt rútustöðinni.
Eftir að við vorum búin að henda töskunum inn á herbergið
fórum við út og ætluðum að finna okkur eitthvað að borða.
Þar sem engir lausir leigubílar voru sjáanlegir eftir um 10 mín
bið röltum við í næstu sjoppu. Hún var á næsta horni við
hótelið okkar og þar stóð fólk í röð út á götu og horfði
inn í sjoppuna í gegn um rimla. Loks kom röðin af okkur og við
höfðum séð mann sem var á undan okkur kaupa brauð. Við höfðum
keypt Nutella súkkulaði í krukku nokkrum dögum áður og vildum
því líka kaupa brauð eins og maðurinn. Það var samt þrautinni
þyngra að reyna að útskýra í gegn um rimla að við vildum
kaupa brauð án þess að við gátum sagt það á spænsku og ekki
skildi afgreiðslufólkið stakt orð í ensku. Ingu var hugsað til
Sirrýar vinkonu sinnar og því augnabliks þegar hún var eitt sinn
að gorta sig við erlendan ferðamann að hún kynni orð í frönsku
og ströglaðist á franska orðinu fyrir brauð við greyjið
manninn :) Eftir að búðarkonan var búin að benda á helminginn
af vörunum í búðinni fattaði hún að með látbragðinu var
Inga að biðja um brauð. Þetta varð því ekki beisinn kvöldmatur
en dugði nú samt.
Í gær vöknuðum við svo, borðuðum
morgunmat og tókum svo leigubíl á rútustöðina. Við rétt náðum
að hoppa upp í rútuna áður en hún lagði af stað og nú var
förinni heitið til Managua sem er höfuðborg Nicaragua. 9 klst
seinna komumst við á áfangastað eftir að hafa horft á El
Mariachi með Antonio Banderas í sjónvarpinu sem okkur þótti mjög
viðeigandi. Hér er hrikalega heitt en engir hitamælar neinsstaðar
þannig að ekki er hægt að segja með vissu hversu heitt er, en
það er fyrir víst meira en 30°C.
Í dag skelltum við okkur svo í
verslunarmiðstöð sem er í göngufæri frá hótelinu okkar. Þar
sem við erum bæði í öðrum stærðarflokki en heimamenn þá
varð lítið um eyðslur í þessari verslunarmiðstöð. Við
ákváðum svo að fara upp á hótel og plana framhaldið. Eftir
miklar vangaveltur og hugsun komumst við að því að lítill tími
væri eftir af ferðinni okkar. Okkur langaði mikið að fara í
siglingu á á sem er við landamæri Nicaragua og Costa Rica en það
mynd taka okkur marga daga. Þar sem við eigum bara 11 daga hér
eftir þá ákváðum við að við yrðum bara að fresta
siglingunni þangað til næst og fara beint til Costa Rica á morgun
þar sem það er festival í gangi í bæ sem er í um 100 km frá
San Jose, höfuðborg Costa Rica. Þegar maður ferðast um svona
langar leiðir á svona stuttum tíma verður maður víst að velja
og hafna. Það góða við þetta er að maður getur komið aftur
seinna. Við enduðum samt daginn á því að rölta aftur í verslunarmiðstöðina, fá okkur kvöldmat og skella okkur í bíó á myndina Gangsters Squad sem var bara ágæt.
Þannig verður það að á morgun
vonumst við til að geta náð rútu frá Managua til San Juan. Við
krossleggjum fingur og vonum að það takist :)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli