10. febrúar 2013

Nicaragua og Costa Rica

Á fimmtudaginn vöknuðum við snemma þrátt fyrir að Inga hafði bara sofið í um 4 klst þar sem hún lág andvaka hálfa nóttina. Við skelltum okkur í morgunmat, pökkuðum og létum svo hótelið hringja fyrir okkur á leigubíl til að skutla okkur á rútustöðina til að ná rútunni sem færi kl. 12 eða eftir um 1 og hálfan tíma frá því við lögðum af stað til San José í Costa Rica. Þegar við komum þangað voru allar rútur dagsins fullar og hérna er ekkert bætt við öðrum rútum ef þær fyllast eins og heima. Við vissum af öðru fyrirtæki sem keyrði líka til San José og eftir að hafa reynt að muna nafnið á fyrirtækinu og reynt að segja bílstjóranum á okkar brilliant Spanglish (sambland af ensku og hrafli í spænsku) fattaði hann loksins að við vorum að reyna að fá hann til að fara á hina rútustöðina. Þá setti hann upp svip og við hugsuðum strax að þetta væri dauðadæmt. Samt hélt hann áfram og þegar við vorum að nálgast rútustöðina flautaði bílstjórinn á einhverja konu og bað hana um að koma inn í bílinn. Þetta reyndist vera sölukona frá rútustöðinni sem var með voucherhefti og seldi okkur miða í rútuna á meðan taxinn keyrði loka spölinn. Við hentum farangrinum okkar og fórum um borð. Um leið og við vorum komin inn var lokað hurðinni og keyrt af stað. Ótrúleg heppni!

Leiðin var ágæt. Við keyrðum í gegn um sveitahéruð í Nicaragua og vegirnir voru tiltölulega beinir. Loks komum við að landamærum Nicaragua og Costa Rica. Þar þurftum við að fylla út einhver eyðublöð og láta skoða farangurinn okkar. Eins og oft áður var landamæravörðurinn rosalega ánægður að hitta Íslendinga og hleypti okkur í gegn. Rútan kláraði svo leiðina á meðan við horfðum á Argentískar kvikmyndir í boði rútufyrirtækisins. Eftir klassísku 9 tímana renndum við í hlað í San Jose og tókum leigubíl upp á hótelið okkar.  Við kíktum svo á Pizza Hut sem er hérna í 3 mín fjarlægð og Inga hitti varla á koddann áður en hún var sofnuð og sennilega sem betur fer því Óskar endaði kvöldið á að dunda sér við að skoða kakkalakka sem dönsuðu fyrir neðan rúmið okkar.... ekki 1.... ekki.2... ekki 3.... heldur 4!!! Sem betur fer sagði hann Ingu ekki frá þessu því hún er með hrikalega fóbíu fyrir þessum verum og aldrei að vita hverju hún hefði tekið upp á ef hún hefði vitað af þessu þarna. Það er allavega klárt mál að hún hefði ekki sofið dúr þá nóttina í viðbót. 

Í gær fórum við í morgunmat og nefndum við eigendurna að kakkalakkar hefðu verið að sprella í herberginu og þeir fengu nánast hjartaáfall þeim var svo brugðið. Við fengum að skipta um herbergi og síðan þá hefur enginn kakkalakki sést þrátt fyrir að við hefðum haft lagið "la cucaracha" á heilanum það sem eftir lifði dagsins. Upp úr hádegi ákváðum við svo að rölta niður í miðbæinn. Við skoðuðum markað auk þess að skoða í nokkrar búðir. Þarna var svo torg með fullt fullt fullt af dúfum og Óskar vildi endilega gefa þeim og keypti maískorn af einni konunni sem var að selja þarna. Um leið settust nokkrar dúfur á hendurnar á honum og hann var umkringdur. Þetta fannst honum svakalega skemmtilegt enda ekki á hverjum degi sem maður heldur á dúfum. Við röltum meira og Inga fann sér tvenn skópör. Á leiðinni heim komum við við á öðru torgi þar sem páfagaukar voru í tugatali í trjánum og lætin í þeim yfirgnæfðu bílaumferðina í kring. Það var rosalega gaman að sjá það, eitthvað allt öðruvísi en heima. Í dag vorum við svo búin að panta ferð til að fara með eins konar kláfi í einn af regnskógunum hér. Samferða okkur í ferðinni voru 2 ungar Svissneskar stúlkur og 4 Ameríkanar á eftirlaunum. Ekki alveg hentugur hópur til að ferðast saman því gamla fólkið var fótafúið og kvartaði frekar mikið á meðan við vildum halda áfram og drekka í okkur náttúruna og umhverfið. Þetta gekk samt allt vel því þau fóru í öðrum kláfi heldur en við. Við sáum letidýr á 2 mismunandi stöðum, sáum eitraðan frosk og slöngu. Toppurinn var samt algjörlega að sjá 2 kólíbrífugla á hreiðri. Það var alveg ótrúlega flott og sennilega eina skitpið í lífinu sem við sjáum það. Við vorum samt sammála um að fyrir utan það var túrinn ekkert sérstakur því við sáum fátt nema gróður í kláfinum. Allt dýralífið sáum við utan hans. Innifalið var samt hádegisverður sem var ágætur og 30 mínútna skógargangur þar sem leiðsögumaðurinn sýndi okkur ýmislegt eins og t.d. tarantúluhreiður. Þegar við komum svo heim var framhaldið planað og slappað af. 

Á morgun er svo planið að fara í þjóðgarð við Karabíska hafið og gista í 3 nætur í bæ sem nefnist Tortuguero. Hann er í regnskógi þannig að það ætti að vera nóg fyrir okkur að skoða. Til að komast þangað þurfum við að taka 2 rútur og bát. Nú erum við búin að kaupa annan rútumiðann svo vonandi komust við á leiðarenda....
2 ummæli:

 1. Tarantuluhreidur er ogedslegasta ord sem eg hef heyrt!

  SvaraEyða
 2. Elsku turtiltarantúlur!
  Sitjandi hér í kjallarahreiðri Grenimels, maulandi á bolludagsbollu og tei, með bumbuna út í loftið og hugsa til ykkar í sælunni syðra.
  Er búin að renna yfir bloggið í einni lesningu - enn hvað er gaman að fá innsýn inn í huggulegt ferðamannalífið. Mexíkóskt matarboð í skóginum, rómatískir pýramíðar, mjúkar strendur og litríkt fuglalíf - hvílíkur undraveruleiki!
  Berið biður að heilsa með spörkum og brölti.
  Með kveðju frá kóbrífuglum í hreiðurgerð,
  Guðrún

  SvaraEyða