16. febrúar 2013

Tortuguero - La Fortuna - Volcan Arenal


Og áfram heldur ferðasagan....

Það er alveg ótrúlegt hvað Tortuguero er lifandi staður. Alls staðar flögra fuglar í hinum ýmsu litum og hundar hlaupa frjálsir um göturnar. Á daginn er dýralífið lifandi eins og við þekkjum það helst en á nóttunni verða vaktaskipti og önnur og framandi dýr fara á stjá. Á mánudagskvöldið tók Óskar eftir því að það leyndist eitthvað tiltölulega stórt og lifandi fyrir utan herbergið okkar. Hann hélt fyrst að þetta væri risastór kakkalakki (Ingu til mikillar ánægju) en þegar hann var búinn að ná sér í ljós sá hann að þetta var stór froskur sem kominn var að heimsækja okkur. Við þustum því bæði út til að skoða hann og sáum hann gleypa flugur. Fyndna var samt að Óskar var úti á nærbrókunm og myndaði froskinn í bak og fyrir. Þýskt par sem var í herbergi á móti okkur hló bara að honum... þeim finnst froskar jú ekki eins merkilegir og okkur enda nóg af þeim í Þýskalandi líka...



Á þriðjudeginum sváfum við bara út og skelltum okkur í morgunmat. Við slæptumst svo aðeins á netinu og spjölluðum við fjölskyldur okkar á Skype meðan við lágum í hengirúmum á hótelinu. Við settumst svo hjá þýska parinu og spjölluðum við þau örugglega í hátt í 3 klst. Það endaði með því að við skiptumst á e-mailum og skype-nöfnum og við fengum heimboð til Berlínar.


Þegar kjálkarnir okkar voru úttalaðir fengum við okkur göngutúr á ströndinni. Í sjónum voru nokkrir brimbrettakappar að leika sér í öldunum. Þarna fyrir utan eru miklir straumar og því voru allir ferðamenn varaðir við því að fara langt út í sjóinn.

Um kvöldið vorum við svo búin að kaupa okkur kvöldferð í frumskóginn. Við klæddum okkur í buxur og flíspeysur og fengum svo lánuð stígvél til að vera í. Það þurfti reyndar að leigja stígvél handa Óskari þar sem hann notar svo stórt númer. Abel leiðsögumaðurinn okkar gekk með okkur úr miðbæ Tortuguero út í skóginn. Þar sem þetta er pínulítill bær tók það ekki nema um 10 mínútur. Hann var rosalega rólegur og var mjög forvitinn um Ísland. Áður en við fórum út fyrir þorpsljósin stoppaði hann og fór með okkur yfir nokkrar öryggisreglur. Hann sagði okkur að fyrir 6 mánuðum síðan hefði hann orðið vitni af jagúar vera að veiða letidýr þarna. Hann sýndi okkur svo seinna í ferðinni tréð sem hann sá jagúarinn í. Hann sýndi okkur á blaði myndir af froskum sem hann vonaðist til að geta sýnt okkur en þar sem þetta er villt náttúra en ekki dýragarður þá sést aldrei það sama tvö kvöld í röð.

Inn í skóginn fórum við og hann sagði okkur að við yrðum alltaf að lýsa með ljósinu alls staðar í kring um okkur og að við þyrftum að vera sérstaklega varkár þegar við kæmum auga á froska því oft lægju snákar rétt hjá og biðu eftir rétta tækifærinu til að grípa þá. Þarna lifa margar tegundir snáka sem bæði eru eitraðir og ekki eitraðir. Hann sagði okkur að við mættum aldrei halla okkur að grein eða stiðja okkur við grein því þar gætu verið skordýr eða snákar sem bitu.

Þegar við vorum búin að labba um 5 metra sagði Abel að við værum mjög heppin. Hann hafði verið að lýsa með vasaljósinu sínu á greinar og lauf í kring um okkur. Þar hafði hann komið auga á einhvern viper snák sem var pínulítill (átti eftir að stækka) og var mjög eitraður og árásargjarn. Hann sagði okkur að við mættum ekki fara nær honum en 50 cm því það væri sú vegalengd sem hann gæti stokkið. Abel búinn að ganga 3 skref þegar hann kom auga á næsta dýr. Það var risastór froskur sem leyndist í grasinu. Þetta var samt önnur tegund en við höfðum séð fyrir utan herbergisdyrnar okkar kvöldinu áður því þessi var með appelsínugulan kvið. Þegar Abel snéri sér svo í hálfhring (enn í sömu sporum) ljómaði hann allur upp af ánægju. Hann hafði fundið annan frosk og í þetta skiptið ekki bara einhvern frosk heldur Lonely Planet froskinn eins og hann kallaði hann. Abel sagði að það væri mjög sjaldgæft að fólk fengi að sjá þennan frosk enda mjög vel falinn í laufblöðum. Þessi froskur kallast á ensku Red-Eyed Tree Frog og er grænn með rauð augu og rauðar tær. Hann kallaði hann Lonely Planet froskinn því þetta er sá froskur sem oftast eru settar myndir af inn á ferðasíðu Lonely Planet. Froskurinn var reyndar steinsofandi þegar við komum að honum en eftir að Abel var búin að kítla hann örlítið með laufblaði þá vaknaði hann og rölti smá fyrir okkur og sýndi okkur fallegu lappirnar sínar.









Við sáum fullt af öðrum froskum í öllum stærðum. Sumir voru svo pínulitlir að þeir litu út fyrir að vera lifandi leikföng. Sumir voru meira að segja gegnsægir þannig að maður gat séð líffærin þeirra ef maður beindi á þá ljósi. Það var ótrúlega flott að fylgjast með því hvað þeir treystu mikið á felulitina sína og hreyfðu sig ekki þótt maður kom alveg upp að þeim.

Á leiðinni fengum við svo að sjá fugl sem svaf á grein. Hann opnaði ekki augun í sekúndubrot á meðan við skoðuðum hann.... alveg steinrotaður. Svo sáum við aðra tegund af snáki sem Abel sagðist ekki hafa séð síðustu 9 mánuði og var því mjög sjaldgæft að sjá. Hann sýndi okkur svo fótspor eftir jagúar sem hafði fengið sér göngutúr þarna í garðinum fyrr um daginn. Inga spurði hann hvað fengi jagúarinn til að koma svona rosalega nálægt þorpinu. Þá sagði Abel okkur frá því að við strendur Tortuguero verpa 4 af þeim 6 skjaldbökutegundum sem lifa í Costa Rica. Jagúarinn veiðir skjaldbökurnar þegar þær koma upp á land til að verpa en núna var ekki varptími. Þegar jagúarinn hefur engar skjaldbökur þá kemur hann svona nálægt bænum til að freista þess að ná sér í hund.



Eftir velheppnaðan túr gengum við svo aftur heim og tókum eftir því á leiðinni að það voru krabbar og froskar út um allt. Krabbarnir voru landkrabbar sem biðu á mörgum stöðum eftir að eitthvað gómsætt kæmi nálægt þeim. Þeir voru rosalega stórir og flottir.


Morguninn eftir vöknuðum við og borðuðum morgunmat eins og við gerum alla morgna. Það byrjaði að rigna og svo hélt áfram að rigna og svo rigndi enn meira. Á tímabili var þetta algjört skýfall... en það má svo svo sem búast við því í regnskógi :) Loks stytti þó upp og sólin fór að glenna sig. Þá þustum við niður á stönd og Inga ætlaði að drekka í sig alla sól sem í boði var. Við lékum okkur í sjónum og slökuðum á. Óskar kom svo auga á að þegar hann horfði yfir ströndina þá var alltaf smá sandur hoppandi út um allt. Þegar hann fór að skoða þetta nánar þá voru þetta litlir krabbar sem bjuggu sér til göng í sandinum og hentu frá sér sandinum út úr göngunum sínum. Sjórinn flæddi þó nokkrum sinnum yfir göngin þeirra og þeir þurftu að byrja upp á nýtt. Sjórinn gekk einu sinni svo langt upp á land að fötin hennar Ingu voru á hraðleið út í hafsauga og hún var svo upptekin að horfa á krabbana fara í kaf að hún tók ekki eftir því fyrr en nærrum of seint. Óskar hljóp svo að sjálfsögðu inn í herbergi og náði í myndavélina og myndaði krabbana. Á meðan lág Inga í sólinni og varð bókstaflega étin. 11 bit fundust eftir daginn. Kvikindið hefur greinilega fengið sér göngutúr á henni því á öðru lærinu er bein lína af bitum, nokkur í röð.






Um kvöldið fórum við svo út að borða á sama stað og við fórum fyrsta kvöldið. Á veitingastaðnum bjuggu 2 kettir og þarna var auk þess 1 hundur. Við sáum það alveg í anda að þetta yrði leyft á Íslandi en okkur fannst þetta bara mjög heimilislegt. Ætli kettirnir hafi ekki verið hafðir þarna til að halda skordýrum í burtu....



Í fyrradag var svo komið að því að pakka niður. Bakpokarnir okkar eru orðnir vel troðnir af dóti og við erum farin hafa smá áhyggjur af því að þeir séu að verða of þungir fyrir flug. Það gæti því verið að við þyrftum að fara að fjárfesta í tösku. Það er náttúrulega alveg klárt mál að við þurfum að gera það í Boston. Inga er samt ekkert til í að vera á leiðnni heim og nefnir framlengingu við Óskar oft á dag. Hann hundsar það bara og segir að við verðum að koma aftur seinna.

Við skiluðum svo herberginu og gengum niðrá höfn þar sem sem við hittum mann að nafni Alfonso. Af honum vorum við búin að kaupa ferðapakka til bæjar í miðri Costa Rica sem nefnist La Fortuna og er við rætur virkasta eldfjalls þeirra, Volcan Arenal. Við fórum um borð í svipaðann bát og við komum upphaflega með til Tortuguero. Siglingin tók samt lengri tíma að þessu sinni því hún var á móti straumi en það gerði ekkert til því nóg var að sjá. Eðlur lágu og böðuðu sig í sólinni á bökkum árinnar, Krókudílar og cayman-ar blikkuðu til okkar og fiðrildi flögruðu um allt.



Þegar siglingin var búin settumst við inn í einkabílinn hans Alfonso. Með okkur var svo einn hollenskur ferðamaður sem hoppaði úr miðja vegu til La Fortuna. Bob Marley söng að sjálfsögðu í bíltækinu og við keyrðum á milli hverrar bananaplantekrunnar á fætur annarri. Við eina plantekruna var búið að loka veginum með hliði. Óskar spurði Alfonso afhverju vegurinn væri lokaður. Þá svaraði Alfonso “banana” og í þeim orðum birtust heilu knippin af bönunum sem héngu á færibandi að fara yfir vegin. Það var alveg mögnuð sýn og sem betur fer var Óskar með kveikt á video-inu á myndavélinni sinni þegar þetta gerðist.

Á leiðinni sáum við svo alls kyns plantekrur. Hrísgrjón, papaya, sykurreyr og svo ananas. Ingu langaði svo að sjá hvernig ananas er ræktaður þannig að Alfonso stoppaði bílinn fyrir okkur og ætlaði að sýna okkur það. Þegar við fórum út úr bílnum var þar akkúrat vörubíll að bíða eftir að komast yfir á gatnamótum og hann var kjaftfullur af ananösum. Þvílíka ananas-lykt höfum við aldrei fundið á lífinu. Þetta var eins og að dífa höfðinu ofan í fat fullt af ananas. Því miður var búið að taka uppskeru þar sem hann ætlaði að sýna okkur en engu að síður gátum við séð ananas-plöntur í þúsundatali. Alfonso sagði að það væri hægt að kaupa 4 ananasa þarna á 2 dollara sem þýðir þá að stikki af ananas er að seljast á um 65 kr. Þá getur maður séð álagninguna á þessu á Íslandi... hér getur þú fengið 8-10 ananasa á verði 1 heima.



Ferðin til La Fortuna tók okkur tæpa 8 tíma og Alfonso sagði okkur að við hefðum sparað okkur tíma með því að fara með honum því við hefðum þurft að taka 5 rútur hingað. Við vorum komin til La Fortuna í myrkri og Alfonso var búinn að panta fyrir okkur herbergi sem var innifalið í pakkanum sem við keyptum af honum. Hann fór yfir með okkur hvað við ætlum að gera í dag sem er að skoða hveri, eldfjallið og nággrenni þess. Um kvöldið fengum við okkur svo rölting í bæinn en hérna er einmitt einhver hátíð í gangi þannig að það er mikið af fólki í bænum. Hér er allt fullt af minjagripaverslunum og matsölustöðum.. og að sjálfsögðu allir að reyna að selja manni ferðir. Við þurfum ekkert að spá í því því það var líka innifalið í pakkanum hans Alfonso sem við borguðum um 18.000 kr á mann fyrir (samgöngur, gisting, ferðir, leiðsögn)...

Í gær hittum við svo Alfonso kl. 10 um morguninn. Hann spurði okkur strax hvort við værum ekki með sólarvörn því þetta ætti eftir að verða heitur dagur. Himininn var heiðskýr og Volcan Arenal gnæfði yfir bæinn. Eldfjallið hætti að gjósa árið 2010 en var þá búið að gjósa í 44 ár. Hann sagði okkur að við værum heppin að sjá það svona því yfirleitt væri mjög skýjað í kring um það. Við settumst upp í bílinn hans Alfonso og keyrðum af stað. Eftir tiltölulega stuttan akstur stoppaði hann bílinn og við vorum komin í þjóðgarð þar sem við ætluðum að skoða gíg með grænu vatni í og nefnist “The Green Lagoon”. Út úr bílnum fórum við og byrjuðum að labba. Alfonso var búinn að segja okkur að þetta yrðu 3 kílómetrar en einhvernveginn hafði það farið fram hjá okkur að þetta yrði fjallganga með mikilli hækkun. Leiðin byrjaði tiltölulega auðveldlega en hitinn gerði okkur þetta erfiðara fyrir. Við spurðum Alfonso hversu heitt hann héldi að það væri og hann sagði “svona 30-32°C”. Þegar við vorum tæplega hálfnuð (og Inga alveg að drepast) þá komum við að skógi og í honum voru skrillion tröppur gerðar úr drumbum og náttúrulegum rótarkerfum trjánna í skóginum. Í um 1 og hálfan tíma gengum við upp þessar tröppur. Á tímabili var Inga farin að velta því fyrir sér hvort þetta væri þess virði. Upp komumst við þó eftir 3 klst göngu og horfðum yfir gíginn. Alfonso spurði okkur hvort við vildum ekki ganga niður að honum en Inga vildi það ekki því hún vildi eiga inni tíma til að klára að skoða allt sem við ætluðum að skoða. Auk þess sáum við gíginn ágætlega og eldfjallið stóð þar tignarlegt til hliðar. Eftir að Alfonso var búinn að gefa okkur 3ggja hæða samlokur með skinku, baunakássu og tómötum (fyrir Óskar) gengum við niður aftur. Það var auðveldara en að ganga upp en engu að síður bunaði svitinn af okkur. Lærin okkar og kálfar fengu sko aldeilis að finna fyrir því þennan morguninn. Þegar við vorum komin niður keyptum við okkur sitthvoran líterinn af vatni sem við sporðrenndum niður á no time!




Næst var komið að því að að fara á stað sem kallast observatory þar sem vöktunarstaður fyrir eldfjallið auk þess sem þarna er hótel og gríðarlegt útsýni til fjallsins og vatnsins sem er hér rétt hjá. Þarna voru auk þess hellingur af fuglum sem sátu og borðuðu ananas í tré (já, það er ananas út um allt hér) auk þess sem kólíbrífuglar flögruðu og skoðuðu öll blómin í kring. Þarna var auk þess stór hengibrú sem maður þurfti að fara yfir til að skoða safn sem tileinkað er eldfjallinu og rannsóknum á því.





Næst var förinni heitið að heitum hver eins og Alfonso orðaði það. Það var komið niðamyrkur og við vorum viss um að sjá ekki hverinn en ákváðum að reyna það nú samt. Loks stoppaði Alfonso bílinn og sagði okkur að fara úr gönguskónum og í sandala. Að sjálfsögðu hlýddum við bara og fylgdum honum svo út í myrkrið. Eftir stutta stund fór að heyrast mikið vatnshljóð eins og í fossandi vatni. Alfonso og Óskar kveiktu á vasaljósum og loks staðnæmdumst við við á og úr skónum fórum við og út í vatnið. Vatnið var heitt og notarlegt, sennilega um 30-35°C. Hann sýndi okkur hvar við ættum að geyma dótið okkar sem var bara þarna úti í náttúrunni og svo fór hann að klæða sig úr. Hann var sem betur fer búinn að segja okkur að vera í sundfötum en við héldum að það væri til þess að synda í gígnum eftir fjallgönguna. Við skelltum okkur því líka úr og nutum þess að liggja þarna í náttúrulega heitri á (sem eldfjalli hitaði) innan í skógi og létum þreytu dagsins líða úr okkur. Ekki leið á löngu áður en áin fylltist af fólki enda hafði rúta af ferðamönnum stoppað þarna hjá. Okkur fannst þetta frábær endir á löngum degi.



Þegar við komum svo aftur til La Fortuna kvöddum við Alfonso, skelltum okkur í sturtu og fengum okkur göngutúr í bæinn. Við settumst á veitingastað og Óskar pantaði sér nautasteik en Inga klúbsamloku. Þegar Óskar fékk svo steikina á borðið ljómaði hann allur og sagði loksins setninguna sem Inga var búinn að bíða eftir “oh þetta er geðveikt, eigum við ekki bara að vera hérna lengur”. Við ákváðum svo að verðlauna okkur eftir daginn og fengum okkur ís í ísbúð þarna hjá. Inga fékk sér kókosís með alvöru kókos og Óskar fékk sér brownies ís með extra súkkulaði. Þarna lét Óskar út úr sér í annað sinn gullnu setninguna sem Inga var búin að bíða svo lengi eftir “oh þetta er geðveikt, eigum við ekki bara að vera hérna lengur”. Við fórum svo heim, lögðumst upp í rúm og rotuðumst yfir sjónvarpinu.

Í dag ætlum við svo að reyna að koma okkur aftur til San Jose þar sem flugið okkar til Boston er víst á morgun...


1 ummæli:

  1. ohhhh mig langar svo í ferskan ANANAS! Er ekki pláss i pokunum fyrir einn vænan? ;) Er búin að vera með þvílíka þörf í slíkan undanfarna daga. Þessi lestur er sko alveg að hjálpa!
    Skemmtilegt nokk: Það á víst að boða á gangsetningu fæðingar ef maður er farin að maula ananas í öll mál....
    ...eruði ekki pottþétt á leiðinni heim? Ég krossa lappir þangað til :)
    Kv. Guðrún

    SvaraEyða