12. febrúar 2013

Tortuguero - Costa Rica


Í gær, sunnudag vöknuðum við og pökkuðum dótinu okkar niður á methraða. Það er nefnilega þannig að þegar maður býr í bakpoka sem maður er alltaf að rífa upp úr og pakka í aftur sama draslinu þá verður maður alltaf fljótari og fljótari í hvert skipti því eftir nokkur skipti er maður búinn að finna út hvernig er best að raða í pokann og allt á sinn fasta stað. Við skelltum okkur í morgunmat sem oftast er ristað brauð, egg, sulta og smjör, te, kaffi eða nýkreistur appelsínusafi. Auk þess er oftast boðið upp á ávexti sem tilheyra þeirri uppskeru sem er ríkjandi í hvert sinn og núna er það greinilega papaya, melónur og ananas. Við getum eiginlega algerlega fullvissað okkur um að aldrei á ævinni höfum við borðað eins mikið af ananas og melónum á eins stuttum tíma á æfinni.

Inga stoppar í vasana á buxunum hans Óskars þar sem hann var alltaf að missa klinkið niður buxnaskálmina. 

Hótelið sem við vorum á í San Jose er lítið hótel þar sem eigendur þess búa. 4 stór herbergi eru í boði þar sem fólk getur gist og þarna er líka lítill veitingastaður eða kaffihús. Það sem okkur þótti þó einstaklega skemmtilegt var að á hótelinu var gömul Schafer tík sem heitir Sheila og hún var hluti af eigendum hótelsins. Hún var svo blíð og ljúf að hún varla þefaði af gestunum þegar þeir komu. “Systir” hennar Sheilu var kötturinn Berta sem var grábröndótt læða. Hún var mikið fyrir að láta klappa sér og knúsa. Þetta fannst okkur ótrúlega heimilisleg viðbót við annars frekar sterileserað umhverfi hótelanna þrátt fyrir að við gerum okkur náttúrulega grein fyrir ofnæmum og þess háttar sem skapast getur.

Sæta Sheila á "verðinum"

Þegar við vorum búin að skila herberginu okkar var okkur skutlað á rútustöðina. Þar tókum við rútu til bæjar sem nefnist Cariari. Öll sæti voru full í rútunni og stóðu nokkrir á leiðinni auk þess sem einni stelpunni var rétt pulla til þess að hún gæti setið í tröppunum við hliðina á bílstjóranum. Eftir rúma 2 tíma komumst við til Cariari og fundum þaðan næstu rútu sem keyrði okkur í þorp sem heitir La Pavona. Það var frekar skemmtileg leið þrátt fyrir að hafa tekið aðeins um klukkutíma því við keyrðum í gegn um ógrinni af bananaplantekrum. Okkur þótti gaman að sjá eina sem var merkt Chiqita því það merki þekkjum við náttúrulega að heiman. Næst þegar við borðum banana á Íslandi merkta þeim verður alveg klárt að hugurinn mun reika til leiðarinnar til La Pavona.

Ein af mörgum bananaplantekrum

Þegar rútan stoppaði í La Pavona var ferðin sko ekki búin. Þar keyptum við okkur miða í bát sem átti að flytja okkur eftir ám á lokastaðinn, Tortuguero.

Báturinn troðinn af töskum

Við tvö í bátnum

Eftir smá bið birtist báturinn, hann var kaffylltur, bæði af mannskap og farangri þannig að yfirborð bátsins var um 40 cm frá yfirborði árinnar. Það var smá brölt að koma bátnum á flot þar sem honum hafði verið keyrt upp á land og þurfti stóra tréstöng til að lyfta bátnum á flot. Af stað lögðum við og sigldum hægt og rólega niður árnar því núna er þurrkatími og mjög lágt á ánum og því auðvelt að festa bátinn. Við kvörtuðum samt ekki því útsýnið var fagurt. Himinhár skógur á báða kannta með fullt af fuglum og alls kyns hljóðum. Skemmtilegast var samt að rekast á 3 krókódíla og einn cayman (sem lítur út eins og krókódíll, bara minni) vera að sleikja sólina. Manni var samt hugsað til þess að við vildum ekki stranda þarna og þurfa að hoppa út í til að losa bátinn, en það hefur víst gerst.

Einn af krókódílunum

Loks kom báturinn að bænum Tortuguero eftir rúma klukkutíma siglingu. Við komuna á bakkann sáum við nafnið hennar Ingu skrifað á spjald sem einn maðurinn á bryggjunni hélt á og var hann kominn til að sækja okkur frá hótelinu. Við eltum hann upp á hótel sem er alveg við ströndina, örstuttur gangur frá aðalgötunni. Herbergið okkar er frekar lítið, bara með neti fyrir gluggunum og einni viftu sem stendur á gólfinu. Rakinn er rosalegur og hitinn í herberginu enn meiri. Þetta var samt það eina sem var laust þegar við athuguðum á netinu áður en við lögðum í hann. Við eyðum ekki það miklum tíma inni í herberginu nema bara yfir blánóttina að það breytir ekki öllu. Við hentum af okkur bakpokunum og Óskar tók allt upp úr sínum því hann hafði rennblotnaði í bátnum. Við keyptum okkur ferðir fyrir næsta dag og fengum okkur svo göngutúr.

Óskar að bursla í Karabíska hafinu fyrir utan hótelið okkar

Bærinn Tortuguero tilheyrir einum af fjölmörgum þjóðgörðum Costa Rica. Í bænum búa um 1200-1300 manns en þeir eru margir hverjir afkomendur afrískra manna sem settust að í Karabíska hafinu. Hérna minnir því stemningin dálítið á Belize, fólkið er allt dökkt og hlustar á reggie. Okkur fannst einmitt gaman að heyra reggie útgáfuna af Pink Floyd laginu I Wish You Were Here. Hér er slóðin á lagið á Youtube fyrir þá sem finnst þetta áhugavert (þarf að gera copy-paste) : http://www.youtube.com/watch?v=bsoiupLME-w

 Í eitt skiptið gengum við t.d. í lítinn súpermarkað í Tortuguero þar sem verið var að spila lag eftir Bob Marley. Inga gekk inn í búðina, sló taktinn á lær sér og söng með. Þá fékk hún frekar tannlaust bros frá einum útúrreyktum íbúanum sem sat þar hjá með sína dredda í hárinu og spurði hvort henni þætti þetta góð tónlist. Hún jánkaði því og þá varð kallinn sko heldur betur ánægður og gaf henni “thumbs up” :)

Eftir að við höfðum gengið meðfram strandlengjunni sem er bókstaflega fyrir utan hótellóðina og buslað smá í Karabíska hafinu kíktum við á miðbæinn. Hann er pínulítill... hann er bara ein gata sem nær nokkur hundruð metra. Þar er fullt af minjagripaverslunum sem allar selja skart sem búið er til á eyjunni auk alls kyns annara hluta. Um kvöldmatarleitið kíktum við á veitingastað og pöntuðum okkur sitthvort lasagne-að. Við sátum út á verönd sem náði rétt út á ánna og hinu megin við hana var skógur. Þarna sátum við og snæddum og hofðum á sólina detta ofan í trén með bleikum litum á himninum. Stöku bátar sigldu framhjá og örfáar leðurblökur flögruðu fyrir ofan vatnsflötin. Þegar við héldum að náttúran væri búin að setja út öll trompin, gekk að okkur sætur lítill köttur og settist hjá okkur.Í morgun var svo vaknað eldsnemma. Vekjaraklukkan hringdi sínum fögru tónum á slaginu 5. Upp rukum við því náttúran beið okkar. Klukkan 6 vorum við komin út á bryggju þar sem við komum í land deginum áður. Þar stigum við upp í 7 manna canó, 6 ferðamenn og 1 leiðsögumaður. Tilgangurinn var að fara að skoða dýralífið. Dýrin vakna við sólarupprás og fela sig svo þegar heitasti tími dagsins er og því var þetta kjörinn tími til að fara að skoða þau. Canóinn var auk þess ekki búinn neinum vélum (nema myndavélum ferðamannana) og því var hægt að komast hljóðlega nálægt sumum dýrum. Þetta var 3 tíma sigling um árnar og fengum við að sjá fleiri cayman-a, fullt af alls kyns fuglum, apa, eðlur og slöngu. Að sjálfsögðu fengum við svo að hjálpa til við að róa bátnum.Snákur gægjist fram af laufblaði

Cayman


Þegar siglingin var búin röltum við upp á hótelið okkar þar sem beið okkar morgunmatur. Við fengum svo klukkutíma pásu þangað til við áttum að hitta leiðsögumanninn okkar aftur. Í þetta skiptið var það göngutúr um skóglendið. Leiðsögumaðurinn okkar var mjög fróðlegur og vissi margt um dýrin. Við sáum risa könguló og fengum að fræðast um ofur sterka vefinn hennar, fleiri apa sem sátu og týndu pöddur af hvorum öðrum, 2 tegundir af toucan og svo kom Óskar auga á spætu sem var í andaslitunum í kjaftinum á snáki sem hékk hátt uppi í tré. Það var mögnuð sjón. Leiðsögumaðurinn sýndi okkur einnig hvernig ákveðin tegund maura sem búa í trjám hér bregaðst við ógn á búið þeirra þegar hann barði í einn trjábolinn og sýndi okkur hvernig allir maurarnir komu og skoðuðu staðinn þar sem hann barði.


Toucan í tré

Spider-Monkey api

Leaf-cutter ant - maur

Köngulóin með sterka vefinn


Þegar göngutúrinn var búinn ætlaði Inga sko aldeilis að sóla sig og spóka sig um í Karabískahafinu. Við skelltum okkur í sundfötin, bárum á næpurhvíta líkama okkar sólarvörn og örkuðum út. Óskar buslaði aðeins í sjónum en þá dróg fyrir sólina og bætti í vindinn þannig að það varð eiginlega bara sandrok. Það varð því ekki mikið úr þessu hjá okkur þannig að við ákváðum bara að rölta í bæinn og keyptum okkur vatnsmelónu sem við sporðrenndum svo niður fyrir utan hótelherbergið okkar. Kvöldinu verður svo eytt í afslöppun því við erum jú í sumarfríi :)

Inga í einu af hengirúmunum sem eru hjá hótelinu okkar og Karabíska hafi í bakgrunn

Melónur, ferðabók og bakpoki1 ummæli:

  1. Ohhh mig langar að fara að ferðast!! og þá sérstaklega til mið ameríku! Njótið þess að vera í fríi :)

    SvaraEyða