Þá var komið að því að halda ferðinni áfram. Í fyrradag byrjuðum við á því að rölta á rútustöðina í Cancún og athuga hvort það væri ekki rúta fyrir okkur til Belize city. Jú, við duttum í lukkupottinn en samt bara hálfa leið. Það var engin rúta í boði fyrr en kl. 22:15 um kvöldið og við þurftum að skrá okkur út af hótelinu kl. 12. Við máttum samt sem betur fer fá að geyma bakpokana okkar í geymslu á hótelinu til kvöldsins.
Við röltum og röltum og röltum og röltum. Við röltum þangað til lappirnar voru að detta af okkur. Samt voru 6 tímar í að rútan færi. Hvað eigum við að gera og hvert eigum við að fara, spurðum við okkur sjálf. Það var ekki fyrr en við föttuðum þá snilldar hugmynd að skella okkur í bíó. Við brunuðum í verslunarmiðstöðina sem við versluðum í nokkrum dögum áður og völdum þá mynd sem næst yrði sýnd með ensku tali. Lincoln varð fyrir valinu og hún var alveg ágætis leið til að drepa tímann því hún var víst 3 klst. löng. Hún var bara ágæt og greinilega hörku forseti þar á ferð.
Við tókum svo leigubíl niður á rútustöð og fórum svo loks um borð í rútuna okkar. Inga rotaðist nánast strax um leið og hún var búin að breiða yfir sig fleeze svefnpokann sinn og setja koddann undir hausinn en Óskar átti aðeins verra með að sofa. Eftir ca 4 klst. vorum við komin að landamærum Mexíkó og Belize. Allir voru látnir fara út úr rútunni og allir biðu í röð eftir að vera stimplaðir út úr Mexíkó. Loks kom röðin að okkur. Við sýndum landamæraverðinum vegabréfin okkar og hann sagði að við þyrftum að borga 25 USD á mann í ferðamannaskatt. Já, ekkert mál sögðum við, en tekuru kort. Við vissum ekki af þessu og því erum við ekki með peninga. Nei, ég tek engin kort sagði hann, bara seðla. Ókey, er þá hraðbanki hér. Nei, enginn hraðbanki. Allt í lagi, hvað getum við þá gert, spurðum við. Farið aftast í röðina og ég finn eitthvað út, sagði landamæravörðurinn.
Frábært, hugsuðum við. Nú verður þetta eitthvað vesen. Flestir voru með peninga og því ekkert mál fyrir þá, en nokkrir voru eins og við, ekki með peninga. Loks kom röðin aftur á okkur. Þá benti landamæravörðurinn okkur á að fara inn í landamærahúsið og tala við annan vörð. Við gerðum það og hann spurði okkur spjörunum úr. Að lokum sagði hann að hann ætlaði að hleypa okkur í gegn án þess að borga en hann væri búinn að skrá það niður að við skulduðum þennan skatt. Það kemur svo bara í ljós næst þegar við förum til Mexíkó hvort við þurfum að borga þetta þá. Við vorum allavega mjög fegin að fá að sleppa í gegn.
Næst var að innrita sig inn í Belize. Þar vorum við látin taka allan farangurinn úr rútunni og taka hann með okkur í gegn um eftirlitið. Við vorum að sjálfsögðu aftur spurð spjörunum úr. Við tókum eftir því að við hliðina á okkur voru 4 krakkar á aldri við okkur sem greinilega höfðu ekki gert heimavinnuna sína áður en þau lögðu af stað. Við heyrðum landamæravörðin segja við þau að ef þau ætluðu inn í landið hefðu þau þurft vegabréfaáritun og hana hefðu þau þurft að fá 3 mánuðum áður. Núna yrðu þau að fara aftur til Mexíkó og redda þeim málum. Á sama tíma tókum við eftir því að landamæravörðurinn okkar var að blaða í pappírum og athuga hvort við værum með samning á milli landa þannig að við þyrftum ekki áritun. Við höfðum sem betur fer unnið heimavinnuna okkar og vissum að við þurftum hana ekki. Okkur var hleypt í gegn án frekari spurninga. Við settumst svo aftur upp í rútuna og héldum akstrinum áfram.
Um kl. 8 morguninn eftir vorum við komin til Belize borgar sem er fyrrum höfuðborg Belize. Hún fékk ekki lengur að vera höfuðborg landsins þar sem hún er undir sjávarmáli og fer á kaf þegar fellibyljir lenda á landinu. Það gerðist síðast fyrir 30 árum. Við tókum strax eftir því hversu mikill munur er á milli Belize og Mexíkó. Hér eru flest allir þeldökkir og karlmennirnir oft með dredda í hárinu. Húsin eru einnig öðruvísi byggð en þau eru oft byggð þannig að þau standa á stöplum og svo er íbúðin á því sem myndi kallast 2. hæð á Íslandi. Það er gert svo það flæði ekki inn í húsin í vondum veðrum. Stærsti munurinn var sennilega sá að hér tala allir ensku. Belize er nefnilega fyrrum bresk nýlenda. Hér er mikið spiluð reggie tónlist og því svipar borgin meira til Karabísku eyjanna heldur en Mið-Ameríku.
Við tókum okkur leigubíl frá rútustöðinni á hótelið okkar. Leigubíllinn var Jeep Cherokee, eldgamall, með brotna framrúðu, ónýta stýrisvél og dempara og bílstjórinn þurfti að pumpa bremsurnar í hvert skipti. Verkfæri lágu um allan bíl og svo var hann með spýtu í skottinu til að halda uppi skottlokinu. Bílstjórinn var samt hinn viðkunnanlegasti og spjallaði helling við okkur. Honum fannst alveg ótrúlegt að fólk eins og við sem ætti heima lengst lengst í burtu vissi að svona lítið land eins og Belize væri til.
Hótelið okkar er í frekar auðugu hverfi. Hérna eru hundar í hverjum garði sem passa hús eigenda sinna. Og þeir eru mjög samrýmdir þótt þeir hafi sennilegast aldrei hittst, því ef einn hundur fer að gelta, þá gelta allir hinir í hverfinu. Það sama á við um ef einn þeirra fer að spangóla.
Í dag skutlaði eigandi hótelsins okkur niður í miðbæ. Við röltum aðeins þar um en okkur fannst það ekkert voðalega spennandi þar sem fólk leit á okkur sem gangandi dollaramerki og betlarar voru farnir að elta okkur um tíma. Þegar við vorum búin að ganga smá hring ákváðum við að kaupa okkur far út í eina eyjuna hér, Caye Caulker, sem við vorum búin að sjá að var aðal ferðamannastaðurinn hér. Eyjan minnti okkur dálítið á eyjuna Holbox sem við heimsóttum í Mexíkó, en þó var meira gert út á ferðaþjónustu í Caye Caulker. Því líkaði okkur Holbox betur en hefðum samt ekki viljað missa af því að skoða þessa eyju líka.
Nú erum við komin aftur á hótelið okkar og horfum á ameríska þætti í sjónvarpinu. Við erum búin að kaupa okkur rútumiða til Guatemala á morgun og leggjum af stað kl. 13 að staðartíma, 19 að íslenskum tíma.
Vá hvað það er gaman að sjá myndirnar frá ykkur. Þetta er greinilega allt annar menningarheimur. Vonandi haldið þið áfram að skemmta ykkur vel.
SvaraEyðaþað er svo gaman að fylgjast með ykkur á framandi slóðum hlakka til að heyra frá Guatemala
SvaraEyða