19. janúar 2013

Holbox, Cancun og Chichen Itza

Í fyrradag vorum við á eyjunni Holbox. Við vöknuðum um morguninn og okkur var strax boðið góðan daginn af starfsmönnum hótelsins. Það átti eftir að koma í ljós að þjónustustigið hjá þeim var sko alveg í hæstu hæðum því þeir voru tilbúnir að gera allt fyrir okkur. Þvo þvott, fara í apótek, hlaupa og skipta fyrir okkur gjaldmiðlum, elda allt sem okkur langaði í... bara hvað sem er, við þurftum bara að segja það.


Við ákváðum að leigja okkur golfbíl. Allt á þessari eyju er í "slow motion". Til að mynda er hámarksökuhraði á eyjunni 30 km/klst og einungis ruslabílarnir voru stærri en golfbílar. Við keyrðum eins mikið og hægt var að keyra á eyjunni. Við sáum margar flottar "villur" sem okkur dreymdi um að kaupa og setjast að í hægaganginum á Holbox. Eftir að við höfðum keyrt í um 2 klst skiluðum við svo bílnum og ákváðum að rölta niður á strönd og skella okkur aðeins í Karabíska hafið. 


Karabíska hafið tók við okkur klakaklupunum með mikilli ánægju. Við marineruðumst þarna í sjónum innan um aðra ferðamenn í dálítinn tíma. Sjórinn var dáldið kaldur í fyrstu, en eftir smá stund var hann orðinn fínn. Sandurinn var líka dúnamjúkur þannig að auðvelt var að spóka sig í sjónum. Á einum tímapunkti fékk Inga þá frábæru hugmynd að skella sandi á bakið á Óskari og nudda hann með því, svona eins og gert er í Bláa Lóninu. Hins vegar áttaði hún sig ekki á því fyrr en upp á hótel var komið um kvöldið að hún var að sjálfsögðu að taka alla sólarvörn af bakinu á Óskari. 


Eftir að við vorum búin að koma okkur úr blautu sundfötunum og sturta okkur ákváðum við að fá golfbílinn aftur lánaðann og freista þess að sjá fugla á leið á náttstað. Aftur fórum við um nánast alla eyjunna enda nóg að skoða. Eftir um klukkustund skiluðum við svo aftur bílnum og röltum í bæinn. Þar pöntuðum við okkur pizzu sem við tókum með upp á herbergi þar sem maginn í Óskari var enn að stríða honum. 


Daginn eftir vöknuðum við við grenjandi rigningu og rok. Íslenskt veður hugsuðum við. Við ákváðum að fá okkur göngu í miðbæ eyjunnar og þar sem allar göturnar þarna eru búnar til úr mold eða leir og þar af leiðandi engin niðurföll, þá urðum við að sveigja fram hjá endalausum pollum á leiðinni því það eru jú heldur engar gangstéttir. Næst tékkuðum við okkur út af herberginu og fórum um borð í ferjuna aftur til Chiquila. Þegar þangað var komið biðu margir ferðamenn eftir að komast með rútunni og við urðum svolítið smeik um að komast ekki með, en það gekk nú sem betur fer allt vel. Af stað fórum við og ekki leið á löngu fyrr en við fórum að velta fyrir okkur hvort bílstjórinn væri flogaveikur eða með krampa í löppunum því hann var stanslaust að gefa bílnum inn og slá af. Við þetta varð Ingu dáldið óglatt þar sem hún verður auðveldlega bílveik og ákvað að leggja sig. Það virkaði svo vel að hún vaknaði ekki fyrr en í Cancún tæpum 2 tímum seinna. Óskar á hins vegar erfiðara með að sofa í rútum þar sem sætin eru yfirleitt of lág fyrir hann. 


 Í Cancún skráðum við okkur inn á hótel sem við höfðum pantað um morguninn. Konan í afgreiðslunni lét okkur alveg sjá það að við værum að eyðileggja daginn fyrir henni þar sem við ferðumst ekki með prentara í bakpokanum og gátum því ekki prentað út voucherinn okkar. Herbergið okkar er mjög fínt, með flatskjá með fullt af spænskum rásum og örfáum á ensku. Um kvöldið fengum við okkur rölting í bæinn, fengum okkur að borða og pöntuðum okkur ferð daginn eftir að skoða pýramídann í Chichen Itza. 

Í dag var því vaknað kl. 6 þar sem við þurftum að vera tilbúin niðri í afgreiðslu kl. 7 fyrir pick up. Við pössuðum okkur náttúrulega á því að vera mætt á réttum tíma og okkur var fylgt út í Econoline bifreið fyrir utan. Flott, hugsuðum við, við verðum þá kannski bara fá í ferðinni. Bíllinn keyrði á milli nokkurra hótela og gaman að sjá þolinmæðina hjá bílstjóranum þar sem hann fór hvergi fyrr en fólkið hans var komið í bílinn. Í eitt skiptið þurfti hann að vekja 2 kúnna sem sváfu bara á sínu græna eftir skemmtun gærkvöldins miðað við sprittlyktina sem var af þeim þegar þeir komu inn í bílinn. 

Þegar Econoline-inn var orðinn fullur var okkur keyrt á ferðaskrifstofu þar sem við áttum að skipta vouchernum okkur fyrir miða. Því næst áttum við að fara í röð og því næst upp í rútu. Allt þetta ferli, frá því kl. 7 um morguninn tók 1 klst og 40 mínútur (tekur yfirleitt um 30 mín á BSÍ). Af stað hélt ferðin loksins og með okkur var leiðsögumaður sem leiðsagði bæði á ensku og spænsku. Hann fræddi okkur heilmikið um Cancun, meðal annars að nafn borgarinnar merkir snákshreiður (snakes nest) því á þessu svæði finnast margir snákar. Einnig eru krókódílar í lóni hér í borginni. Hann fræddi okkur líka mikið um Maya-menninguna á leiðinni en sú menning blómstrar enn í dag enda búa 8 milljón Maya í Mið-Ameríku. 

Fyrsta stoppið í ferðinni var við dropasteinshelli sem heimamenn calla Cenote og er notaður sem baðstaður. Leiðsögumaðurinn okkar sagði að þetta væri hluti af því að fara að skoða pýramídan því maður þyrfti að hreinsa sig fyrst. Auk þess myndi sá sem synti í hellinum verða 10 árum yngri. Inga lét nú ekki segja sér það tvisvar enda ný orðin þrítug og dembdi sér út í ískalt lónið. Óskar varð hins vegar eftir á bakkanum og passaði upp á myndavélarnar. Nokkrir Mayar stilltu sér upp í miðju lóninu og leyfðu fólki að taka mynd af sér. 

Næsta stopp var gert á markaði þar sem hægt var að kaupa ýmsan varning af Mayum og gátum við látið skrifa fæðingardagsetninguna okkar með tímatali Mayanna, en aðeins Mayar meiga gera þetta og maður fær vottorð með um að þetta sé rétt gert. Auk þess er þetta einn af 2 stöðum í heiminum þar sem gerð eru svokölluð cartouche þar sem nafnið manns er sett á plötu með ákveðnum letrum. Annar staðurinn er að sjálfsögðu hér í Mexíkó en hinn er Egyptaland. Það vildi svo vel til að Inga hafði keypt sér slíkt í Egyptalandi með egypsku letri og lét því gera annað með letri Mayanna.

Næst fórum við í hádegismat sem var Mexíkóst hlaðborð með alls kyns tortillum, súpum, grænmeti og fleiru. Á meðan fólk var að borða voru dansarar sem fóru um salinn og dönsuðu með glös og flöskur á höfðinu.

Því næst lág leiðin að pýramídunum, Chichen Itza. Svæðið var notað á árunum 600 f. Kr. og þar til 1200 e. Kr. Þegar veldið við Chichen Itza var sem stærst bjuggu þar á bilinu 50.000 - 75.000 manns. Í dag búa um 45.000 manns á Akureyri. Pýramídinn sjálfur er náttúrulega ótrúleg smíði. Hann er byggður út frá stjarnfræðilegum þekkingum þannig að á sólstöðum skín sólinn á hann úr austri og vestri. Þá er hægt að sjá hann utan úr geimnum. Aðal guðinn sem dýrkaður er á þessu svæði er sá sem er í snákslíkama en með fjaðrir. Hann er því sambland af manni, snák og fugli. Á sólstöðum færist sólin niður stiga pýramídans og lítur þá út fyrir að snákur skríði niður stigana. Við neðsta þrep norður inngangsins er úthoggvið snákshöfuð. Hljómburður svæðisins er einnig magnaður því á ef klappað er saman höndunum á ákveðnum stöðum fyrir framan pýramídann kemur bergmál á einum stað þannig að klappið líkist skröltormshljóði og á öðrum stað kemur hljóð sem minnir á fugl ef klappað er.


Þarna er einnig stærsti fótboltavöllur sem fundist hefur í heimi Mayanna. Hann er allt að 3 sinnum stærri en hinir sem fundist hafa. Þarna var fyrirliða liðsins sem tapaði fórnað til guðanna.


Því meira sem við ferðumst um svona gamlar borgir og gamla helgistaði sér maður hversu mikið þessar þjóðir hafa verið á undan sinni samtíð. Til að mynda gátu Mayarnir búið til sitt eigið dagatal sem er næstum fullkomið, nema með 19 sekúndna skekkjumun á 52 daga fresti. Það dagatal byrjaði 13. Ágúst 3.114 fyrir Krist. en þá voru Venus, Satúrnus, fullt tungl og aðal stjarnan í ljónamerkinu í röð. Næst þegar það gerðist var 21. desember 2012. Mayarnir líta því á að nú sé byrjað nýtt tímabil, tímabil breytinga. Þeirra speki er samt að maður eigi að líta á gærdaginn sem liðna tíð og að morgundagurinn sé ekki til. Maður eigi því að lifa hvern dag eins og hann sé manns síðasti á jörðinni og vera þakklátur fyrir að vera til. Það finnst okkur vera góð speki og sýna það vel það sem við erum að gera akkúrat núna... njóta lífsins í ferðalagi um heiminn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli