26. janúar 2013

Enn meira af Belize, smá af Guatemala og mikið af afslöppun

Nú er komið dáldið langt síðan við blogguðum síðast. Best að drolla ekki með þetta of lengi þar sem margt gerist í útlandinu :)

Á mánudaginn vöknuðum við eldsnemma við hundagelt í Belize city. Við gengum frá herberginu og skiluðum því rétt fyrir hádegi. Óskar var búinn að vera mjög slæmur í maganum og kominn með magakrampa með magaverkjunum. Við vorum búin að ræða það að koma honum til læknis en þar sem við vorum búin að kaupa rútumiða til Guatemala vildi hann bíða með það þangað til hann væri kominn yfir landamærin. Við báðum starfsmann hótelsins um að skutla okkur niður á rútustöð og fengum á leiðinni að hlusta á Bob Marley í útvarpinu ásamt einkasöng bílstjórans. Við vorum einmitt búin að lesa okkur þess til að hér kynnu allir öll Bob Marley lögin, sama hversu lítið þekkt þau væru.

Þegar við komum niður á rútustöð spurðum við stelpuna sem hafði selt okkur miðann daginn áður hvort það færi ekki örugglega rúta til Flores í Guatemala kl. 13. Jú, jú sagði hún og við settumst niður og slökuðum á. Svolitlu seinna kallar hún í Óskar og segir honum að rútan komi ekki þar sem hún hefði lent í einhverjum vandræðum á leiðinni. Vanalega sé önnur rúta sem fari kl. 14:30 en hún fari ekki heldur þennan dag. Við reyndum að spyrjast fyrir um aðrar leiðir til að komast til Flores þar sem við vorum búin að kaupa okkur gistingu en allar lausnir sem við fundum komu okkur aðeins hálfa leið þangað. Það varð svo úr að við hringdum í hótelið sem við höfðum verið að gista á og fengum að vera þar auka nótt.

Þegar eigandi hótelsins kom svo og náði í okkur ákváðum við að nota tækifærið og spyrja hann út í læknisþjónustuna í Belize city. Hann sagði að hún væri mjög fín og við báðum hann um að skutla okkur á spítalann eftir að við vorum búin að henda töskunum af okkur inn í herbergi.

Á spítalanum þurftum við að gefa skýrslu um nafn Óskars, heimaland, hjúskaparstöðu, ábyrgðarmann og hversu langt hann gekk í skóla. Ég skildi ástæðuna fyrir öllum spurningunum nema þessari síðustu. Allavega... við þurftum að borga því sem samsvarar 640 ISK og inn í viðtal til hjúkrunarfræðings fórum við. Hún spurði Óskar alls kyns spurninga, mældi hvort hann væri með hita og tók hjá honum blóðþrýstinginn. Næst fengum við svo viðtal hjá lækni sem greindi vandamálið hjá Óskari. Niðurstaðan var sú að hann var með einhverskonar bakteríusýkingu sem var að búa til eins konar magasár hjá honum. Læknirinn skrifaði upp á 3 mismunandi lyf sem hann á að taka inn næstu 2 vikurnar.

Þegar við gengum út af spítalanum vorum við spurð af viðkunnalegum ungum blökkumanni hvort okkur vantaði ekki leigubíl. Leigubílarnir í Belize city eru venjulegir einkabílar sem enginn peningur er til til að hugsa um. Þeir eru því allir með mismunandi aukahljóðum og skemmtilegheitum. Þessi ungi piltur skutlaði okkur í apótek og ræddi helling við okkur á leiðinni á hótelið. Hann sagði okkur frá sér og fjölskyldu sinni og ferðalögum sínum til Bandaríkjanna en hann hefur ferðast til New York 6 sinnum yfir ævina... í rútu. Önnur leiðin tekur 4 daga.

Fólkið hér er almennt mjög vingjarnlegt og hjálpsamt.Tungumálið sem þau tala er mjög hreimuð enska... svona eins og maður ímyndar sér að talað sé á Jamaika. Hérna notar fólk mikið slanguryrðið "man" á eftir öllu sem það segir, "yes man", "no man". Það er varla hægt að skilja hvað það segir þegar heimamenn tala sín á milli en þegar þau tala við einhvern utanaðkomandi eins og okkur þá skipta þau yfir í almenna ensku og þá er ekkert mál að skilja þau.

Þegar við vorum svo búin að skilja við vin okkar leigubílstjórann fórum við bara inn á hótelherbergi og horfðum á CSI-þáttar maraþon þar sem úti var úrhellisrigning. Þegar við vorum svo að fara að sofa um kvöldið tókum við eftir því að það voru 3 litlar eðlur inni í herberginu okkar. Þar sem Inga sefur yfirleitt mjög laust, og þá sérstaklega við svona óvenjulegar aðstæður vildi hún fá að "tjalda". Við hentum því moskítótjaldinu okkar upp svona ef ské kynni að þær ætluðu eitthvað að skoða okkur um nóttina, sem var þó harla ólíklegt.

Morguninn eftir vöknuðum við með engar eðlur í andlitinu... sem betur fer. Við pökkuðum saman dótinu okkar og skutluðumst aftur út á rútustöð, nú með krosslagða fingur um að rútan færi. Heppnin var með okkur og lítil rúta renndi í hlað. Farangrinum var skellt á toppinn, segldúkur yfir, bíllinn fylltur og keyrt af stað. Næst tók við um 5 klst akstur að Flores í Guatemala. Vegabréfaskoðun gekk fínt og inn í Guatemala brunuðum við.

Það fyrsta sem við tókum eftir var hversu mikið fólkið lækkaði í hæð. Í Belize er fólk meira afkomendur Afríkumanna en í Guatemala er fólk meira blandað af innfæddum og spánverjum eða einfaldlega Mayar. Mayar eru pínulitlir (ná Ingu fyrir neðan herðar og hún er bara 166 cm), mjög dökkbrúnir á hörund, með nánast engan háls og frekar flatt nef. Húsin breyttust einnig töluvert þar sem í Belize var allt byggt á fleiri en einni hæð ef til fellibyljar kæmi sem bæri með sér flóð. Á leiðinni sáum við einnig alls kyns dýr í vegköntum, í kring um hús og í görðum hjá fólki. Þar má nefna hænur með unga, hesta, svín með gríslinga, kindur, hunda og ketti.

Loks komum við til Flores og skráðum okkur inn á hótelið sem við vorum búin að panta okkur. Það var ágætis hótel í miðbæ Flores sem er lítil landtengd eyja úti í vatni. Við röltum smá um bæinn, pöntuðum okkur ferð um nóttina til að skoða pýramídana í Tikal og fengum okkur að borða á veitingastað sem heitir Villa de la Chef. Inga fékk sér Bolognese pasta en Óskar var frakkari og fékk sér fisk sem nefnist Blanco og er veiddur þarna í vatninu. Við skelltum okkur svo snemma í háttinn, enda ræs kl. 02:00.Þegar vekjaraklukkann hringdi loks var Óskar rétt búinn að ná að dotta aðeins. Lyfin voru eitthvað að byrja að virka en hann var kominn með hita með þessu. Hann hefur ekki þurft að taka sýklalyf síðan hann var barn og því brást líkami hans svona við. Við gátum þó ekki afboðað okkur í ferðina með öðrum hætti en að bíða niðri í anddyri eftir pick-up-inu okkar og láta vita að við kæmumst ekki með sem var svo ekkert mál.

Þegar við vorum búin að sofa aðeins meira þurftum við að skipta um hótel þar sem það sem við vorum á var fullt.Í leiðinni komum við við á ferðaskrifstofunni sem hafði selt okkur ferðina til Tikal og breyttum henni þannig að við förum á sunnudaginn. Við sáum það að Óskar var frekar slappur og ákváðum að panta okkur hótel af aðeins fínni gerð en við höfðum gert hingað til. Við ákváðum að framlengja dvölinni í Flores um 2 nætur og nota þær í að slaka á og til þess að Óskar gæti nú jafnað sig almennilega.

Hótelið var í göngufæri og því skelltum við bakpokunum á bakið og röltum af stað. Eftir um 15 mínútur vorum við komin bullandi sveitt í nýtt herbergi. Við notuðum svo restina af deginum í að rölta pínulítið, versla smá í matinn og slaka á.


Í dag fórum við í morgunmat á hótelinu sem var brilliant góður. Ferskir ávextir, egg og samlokur og nýkreistur melónusafi. Því næst röltum við upp á rútustöð og keyptum okkur rútumiða til Guatemala city á mánudaginn. Það mun taka okkur um 9 klst og kostar okkur bæði 5.700 ISK. Við athuguðum hvað myndi kosta fyrir okkur að spara okkur og rössunum okkar svona langa setu og fara í klst flug til Guatemala city í staðin en það hefði kostað okkur 40.000 ISK svo það var ekki spurning.

Eftir að við komum aftur upp á hótelið varð Óskar aftur eitthvað slappur. Við fórum eitthvað að ræða framhaldið, ferðina til Tikal og Guatemala city og föttuðum að við höfðum misreiknað okkur um heilan dag, það var bara föstudagur en við höfðum haldið að það væri laugardagur. Þar sem Óskari leið ekki nógu vel ákváðum við bara að láta hann jafna sig alveg og bókuðum okkur 2 aukanætur í viðbót á hótelinu.

Við eyddum því restinni af deginum í að horfa á sjónvarpið og slaka á... enda erum við jú í "sumarfríi" :)


P.s. okkur finnst alveg rosalega gaman að fá kveðjur að heiman og skemmtilegt þegar fólk skilur eftir skilaboð annað hvort hérna á blogginu eða á Facebook.... svo endilega látið í ykkur "heyra"!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli