10. janúar 2013

Boston - Mexíkó

Eins og margar góðar ferðir, hjá mörgu góðu fólki þá byrjaði ferðin okkar á BSÍ. Við vorum að sjálfsögðu knúsuð bak og fyrir af vinnufélögum Ingu áður en Flugrútan flutti okkur til Keflavíkur. Inga var dálítið stressuð  fyrir að fara með lyfin sín (sprautur) í gegn um farangursleyt í fyrsta sinn, en það var algjörlega tilgangslaust. Á flugvellinum hittum við svo 3 Ársælinga (Sissa, Freyr og Rauðhettu) en við vorum öll á leiðinni í sitthvora áttina. Flugið til Boston gekk mjög vel fyrir sig og við skemmtum okkur ágætlega við að skoða afþreyingarefni um borð í vélinni. Það er alveg ótrúlegt hvað tíminn líður hraðar þegar maður fær að velja sér myndefni til að horfa á!

Þegar við vorum lent á Logan Airport í Boston fórum við í að finna út hvernig við kæmumst á hótelið okkar sem var í Back Bay nálægt miðbæ Boston. Eftir smá vangaveltur sáum við að við þyrftum að finna eitthvað sem kallaðist Silver line... jú jú... það var merkt á korti sem T eins og neðanjarðarlestirnar þannig að við fórum að leita af svoleiðis apparati. Einhverja hluta vegna lentum við samt fyrir utan flugstöðina og föttuðum að Silver line væri strætó. Við álpuðumst því upp í hann og eitt leiddi að öðru og loks vorum við búin að fara í 2 neðanjarðarlestir og komin á Back Bay. Við vorum svo enga stund að ramba á hótelið okkar sem var bara mjög fínt. Stelpan í móttökunni var svo ánægð að hitta Íslendinga að hún ákvað að upgrade-a herbergið okkar og láta okkur fá stærra herbergi með King size rúmi. Um kvöldið fengum við okkur hressandi kvöldgöngu í matvörubúð þar sem við fengum Ameríku beint í æð. Allt í magnumbúðum og allt of mikið úrval. Inga var samt rosalega ánægð þegar hún sá að hægt væri að kaupa kirsuber og japplaði hún á þeim alveg þangað til hún þurfti að skilja við pokann á leið á flugvöllinn á ný. 

Eitthvað var nú sólarhringurinn okkar í rugli eftir þessa fyrstu nótt í útlöndum því við vorum vöknuð kl. 6 að staðartíma. Morguninn fór í að taka sig til fyrir áframhaldandi flug enda hafði Inga farið inn á síðuna hjá American Airlines kvöldið sem við komum til Boston og sá að flugið okkar var á réttum tíma. Hins vegar þegar hún athugaði það um morguninn kom bara upp að ekki væri hægt að finna flugið og að við þyrftum að hafa samband við þjónustuaðila. Eitthvað fannst okkur það skrýtið og ákváðum að haska okkur út á flugvöll. Þegar við vorum búin að massa lestarkerfið eina ferðina enn sáum við á skjá á flugvellinum að fluginu okkar hefði verið aflýst. Frábært hugsuðum við og höskuðum okkur í átt að næsta þjónustuaðila fyrir American Airlines. "Good morning, we see our flight to Dallas has been cancelled, what should we do" spurðum við þjónustuaðilann á okkar afbragðs ensku. Þá kom svipur á hana og hún sagði okkur að bíða og svo byrjaði hún að hlaupa á milli allra innritunarborðana og tilkynnti að fluginu hafði verið aflýst. Frábært! Við vitum þetta en ekki þeir sem vinna hjá flugfélaginu hugsuðum við... það boðar ekki gott. Sem betur fer höfðum við bókað flugið í gegn um Dallas og til Cancun sem einn miða. Þegar við komum að innritunarborðinu var okkur sagt að við hefðum verið færð yfir á flug til Miami og færum svo áfram þaðan til Cancun. Hins vegar færi þetta flug 30 mín fyrr, þannig að ef við hefðum eitthvað verið að drolla um morguninn hefðum við getað misst af fluginu. 

Miami tók á móti okkur með hita, sól, pálmatrjám og sandi.... eða það var allavega það sem við sáum og fundum út um gluggann á flugstöðinni. Við slökuðum bara á milli fluganna okkar og skemmtum okkur vel við að fylgjast með tvífara Magga vinar okkar úr Garðinum á Suðurnesjum. Loks kom að því að fara í flugið til Cancun. Við þessa breytingu á fluginu okkar, reiknaðist okkur til að við hefðum sparað 2 tíma á leiðinni sem okkur fannst sko ekki slæmt. 

Við lentum svo í Cancun, Mexikó um 5-leitið að staðartíma. Í flugvélinni var okkur rétt plagg sem við áttum að fylla út fyrir farangursleit og svo þegar við gengum inn landganginn, eftir að hafa lent á 29°C heitum vegg var okkur rétt annað blað sem við áttum að fylla út. Þarna stóðum við á miðjum gangi á flugvelli ásamt öllum hinum úr flugvélinni okkar, sem var full og allir að fylla út skjöl. Fyndnasta við það var að það var ekki einn staður sem bauð upp á að fólk gæti fyllt út plögg og var því fólk liggjandi á gólfinu, skrifandi á blöðin á veggjunum eða sitjandi í gluggakistu eins og við gerðum. Okkur þótti þetta dálítið skrítið og ræddum að svona yrði þetta seint gert á Íslandi. Fínir stimplar í passana og við vorum frjáls ferða okkar. Út í hitann og rakann fórum við og það lág við að það heyrðust gormahljóð þegar hárið á Ingu byrjaði að krullast í rakanum. 

Við vorum búin að lesa okkur þess til að ódýrast fyrir okkur væri að fara með rútu til Playa del Carmen sem er í 45 mín leið frá Cancún. Fyrst byrjuðum við á að kaupa okkur vitlausan miða og þegar við nefndum það við afgreiðslukonuna var eins og við værum að skemma daginn fyrir henni. Við létum samt ekki segjast og fengum að breyta miðanum. Við þurftum hins vegar að bíða í klukkutíma eftir næstu rútu. Já, við létum okkur sko hafa það enda kostaði okkur 3000 kr fyrir okkur bæði að komast alla leið á hótelið í staðinn fyrir ca 7000 kr með leigubíl. Nú erum við nýkomin á hótelið og höfum ekki orku  í að gera meir en að leggjast undir lakið okkar og steinsofna.

4 ummæli:

  1. hafið það sem allra best í sólini
    eruð þið ekki örugglega búin að verða ykkur útum
    rétta höfuðfatið.kv heiða

    SvaraEyða
  2. Við Stefán mælum með heimsókn til eyjunnar Isla Mujeres,bátar sigla frá Quintana Roo og ódýrt að kaupa far fram og til baka. Þegar komið er út á eyjunna er frábært að leiga sér golfbíl og fara um eyjuna. Þar er t.d. public strönd þar sem hægt er að fara í sjóinn og skrautfiskarnir synda allt í kringum mann alveg við ströndina á Club de Playa & hotel Garrafón de Castilla, kostar 50 pesos á ströndina.Vorum þarna fyrir 2 árum.Góða skemmtun. Anna Birna og Stefán

    SvaraEyða
  3. Gott að heyra að allt gekk vel :)kveðja Svanhvít

    SvaraEyða
  4. þegar þið voruð á ströndinni í cancún og horfir yfir sjóinn þá hafið þið séð eyjuna sem við voeum á hún heitir Cosmel ,þetta er bara frábært hjá ikkur kveðja Pabbi og Dóra

    SvaraEyða