7. janúar 2013

Næsta ferð að hefjast

Jæja, þá er næsta ferð að hefjast hjá okkur turtildúfunum. Nú skal förinni heitið til Mið-Ameríku sem er dálítið norðar en Suður-Ameríka sem við ferðuðumst árið 2010. Þá dvöldum við í veldi Inkanna en nú ætlum við að skoða menningu Maya og Azteka auk annarra spennandi hluta.

Við hefjum ferðalagið okkar á morgun, 8. janúar. Ferðin hefur verið í bígerð síðan í janúar 2012 þegar við ræddum það saman eitthvað kvöldið að okkur langaði að fara í aðra ferð því ferðin frá 2010 hefur skilið eftir sig svo ótrúlega margar skemmtilegar og góðar minningar. Við ákváðum því að safna okkur fyrir flugmiðum og það varð úr eftir miklar vangaveltur um heppilegar dagsetningar að janúar - febrúar 2013 varð fyrir valinu.

Nú þegar ferðin er að bresta höfum við haft að mörgu að huga. Við höfum bæði þurft að bæta við og endurnýja bólusetningar, endurnýja Vísakort og vegabréf, myndavélakost og fleira. Við erum þó bæði sammála um að reynslan kennir manni ýmislegt og því hefur okkur þótt ýmis mál auðveldari í undirbúningi þessarar ferðar heldur en þeirrar sem við fórum í 2010. Til að mynda vitum við betur hvernig við eigum að pakka niður í bakpoka, hvað við hefðum betur skilið eftir heima og hvað hefði átt að koma með.

Auk þess hafa margar áherslur í okkar daglega lífi breyst. Þar má þá helst nefna lyfjanotkun Ingu vegna gigtarinnar en í ferðinni 2010 þurfti hún að vera gangandi á sterum þar sem hún hafði fengið bráðaofnæmi fyrir lyfjunum sínum 4 dögum fyrir ferð. Núna er hún hins vegar komin á önnur (og vonandi betri) lyf sem hún mun geta haft með sér en hafa því miður þann eiginlega að vera ofnæmisbælandi sem getur gert það að verkum að hún er líklegri til að finna sér alls kyns matareitranir og vesen á leiðinni. Því er gott að vera við sem flestu búinn og eftir að hafa farið í apótekið og eytt þar fúlgu fjár lítur út fyrir að við verðum gangandi apótek. Maður veltir fyrir sér hvernig ástandið verður á okkur eftir 40 ár með þessu áframhaldi :)
Ferðinni á morgun verður heitið til Boston. Þar ætlum við að gista í eina nótt áður en við fljúgum til Cancun í Mexíkó með millilendingu í Ft. Worth í Dallas í Bandaríkjunum. Við erum búin að bóka okkur 3 nætur á hóteli á Playa del Carmen þar sem við ætlum að skoða okkur um og slaka á áður en við byrjum á fullum krafti að drekka í okkur menninguna. Á 6 vikum ætlum við svo að færast sunnar á bóginn og enda ferðina í Costa Rica þaðan sem við fljúgum svo til Boston, þar sem við gistum í 3 nætur áður en við lendum svo aftur á klakanum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli