Við gengum dálítinn spöl á ströndinni og heyrðum reglulega á leiðinni "hey amigo, massage?" Við vorum hins vegar með hugann við allt annað en nudd því þarna voru nokkrir pelikanar á vappi. Inga var meira að segja svo mikið að skoða þá að hún sá ekki að hún var næstum kominn inn í hóp á fólki þar sem tveir menn voru að slást. Þá var nú afar augljóst að Óskar hefur smitað hana að einhverju leiti af fuglaáhuga.
Eftir gönguna á ströndinni álpuðumst við til að finna aðal túrista-/verslunargötuna hér í Playa del Carmen. Þar eru búðir fullar af minjagripum í bunkum og allir að reyna að veiða mann til að skoða hjá sér. Við vorum til að mynda nokkrum sinnum spurð að því hvort við værum ekki í brúðkaupsferðinni okkar, hvort okkur vantaði ekki sólgleraugu í sólinni og þar fram eftir götunum. Maður getur samt orðið hrikalega þreyttur á þessu áreiti og að mega helst ekki ná augnsambandi við fólk því þá sleppur maður varla frá þeim, því þótt maður afþakki, þá spyrja þau bara hvaða verð maður vill borga... jafnvel þrátt maður hafi ekki áhuga á neinu hjá þeim.
Næst ákváðum við að það væri kominn tími fyrir fyrsta Taco-ið okkar. Við fórum á veitingastað þar sem fullt var af fólki og pöntuðum okkur taco með nautakjöti. Ingu fannst það ekki standast væntingar, enda var það allt öðruvísi en maður á að venjast heima. Mikið meira maísbragð af tortillunum og svo var bara kjöt á milli og guacamole og einhverskonar baunakássa til hliðar. Ekkert salsa, ekkert grænmeti... en svona á það sennilegast að vera.
Þegar við vorum svo komin með leið og þessum ticky tacky sölumönnum ákváðum við að við ætluðum upp á hótel að fá okkur síestu eins og sönnum Spánverjum sæmir og leggja okkur í 1-2 klst til að reyna að koma sólarhringnum í rétt horf. Það fór hins vegar þannig að við vöknuðum eftir tæpa 5 klst og þá var orðið allt of seint að fara út að gera eitthvað. Við eyddum því bara kvöldinu í afslöppun og að horfa á þær örfáu sjónvarpsstöðvar sem eru á ensku því flest allt hér er talsett á spænsku.
Í morgun vöknuðum við að sjálfsögðu aftur snemma. Við ákváðum að fá okkur rölting niður í bæ og kíkja á stórar verslanir hér, Wal mart og Mega. Þær voru nú ekkert spennandi þannig að við röltum áfram neðar í bæinn og kíktum á rútustöðina til að athuga með verð og ferðatíma fyrir rútur til hinna ýmsu staða hérna á Yukatanskaganum. Upp á hótel skunduðum við svo enda áttum við von á pick-up-i á hótelinu því við vorum búin að panta einka mexíkóst matreiðslunámskeið.
Rétt fyrir kl. 14 vorum við pick-uð upp af Fernando og vini hans, Guillermo. Fernando er upphaflega frá Buenos Aires í Argengínu þar sem hann hafði unnið sem kokkur í fjölda mörg ár en hann hefur nú búið í Mexíkó yfir 20 ár. Fernando og Guillermo keyrðu okkur í smá stund í bílnum hans Guillermo og sögðu okkur að þar sem einhver ruglingur hefði orðið með dagsetningar hjá okkur, þá var eldhúsið sem þau ætluðu að nota ekki laust og því urðu þau að grípa til þess ráðs að hafa námskeiðið heima hjá Guillermo og Gloriu konunni hans. Hins vegar myndum við svo hitta Andreu, konuna hans Fernando (sem er líka frá Buenos Aires) en hún myndi vera okkar einka kokkur/kennari þennan dag. Þegar við svo loksins stoppuðum, þurftum við að ganga smá spöl inni í frumskógi þar sem við komum að húsi. Þar vorum við leidd áfram að útigrilli og arin og uppdekkuðu borði fyrir okkur 2. Okkur þótti þetta rosalega flott og mikill sjarmi yfir öllu þarna.
Andrea og Fernando kynntu okkur fyrir Jamaica flower sem maður notar til að búa til drykk og er mjög gott, guacamole og rauðri salsasósu. Þau sýndu okkur líka hvernig búa má til tortillu og við fengum cesadilla með osti og chillí sem var allt grillað yfir opnum eldi. Við fengum að vita hvaðan maturinn var "ættaður" og frá hvaða tímaskeiði hann væri. Fernando sagði okkur að mexíkóskur matur væri upprunnin úr þremur tímaskeiðum: mayunum, frá því þegar Spánverjar réðu yfir álfunni og nútíma áhrifum. Síðan var okkur kennt að gera nautarétt með protobello sveppum, papriku, lauk, kartöflum og kaktus. Það var hrikalega gott og við borðuðum bæði á okkur gat. Í eftirrétt var svo einhverskonar sveskjur í kakói.
Við vorum bæði sammála um að þetta hefði verið æðisleg lífsreynsla, að elda inni í frumskógi með spænska tónlist ómandi í kring um okkur, umlukin heimamönnum sem voru að sýna okkur myndir af börnunum sínum, gefa okkur góð ráð um hvert við ættum að ferðast innan Mexíkó og tala við okkur um daglegt líf hér í Mexíkó. Óskar var með nokkrar myndir að heiman í símanum sínum og gat því sýnt þeim smá frá okkur. Við kveðjustundina vorum svo leyst út með gjöf og vorum knúsuð og kysst bak og fyrir. Þegar Guillermo skutlaði okkur svo aftur heim fórum við að tala við hann um hugmyndir okkar að því sem okkur langaði að gera næstu daga, sem er meðal annars að heimsækja fuglafriðland á eyju sem heitir Holbox. Hann sagðist þá vera að fara þangað sjálfur á mánudaginn og bauð okkur að koma með sér því hann væri að fara að selja listmuni þar. Við vorum spennt fyrir því og ætlum að vera í sambandi við hann á sunnudaginn.
Nú höfum við framlengt dvölina okkar í Playa del Carmen um 3 nætur. Við erum ekki alveg búin að ákveða nákvæmlega hvað við ætlum að gera, en eitt er víst, af nógu er að taka hér.
Ohhh æðislegt að geta fylgst með ferðalaginu ykkar! Ég er að farast mig langar svo til Mið Ameríku, fínt að geta svalað lönguninni smá með að lesa um ykkar ferðalag :) Fyndið Inga þú ert alltaf einu skrefi á undan mér! hehe
SvaraEyðaGóða skemmtun og ég hlakka til að fylgjast með ykkur.
Kveðja,
Hera
svaka er þetta gaman hjá ykkur og óskar kemst í feitt aðkomast í fugla skoðun og hann er búinn að smita þig af því og fylgist með ferðasöguni ykkar kveðja til ykkar pabbi og Dóra
SvaraEyða