16. janúar 2013

Cancún og Holbox

                                                                                                                                                                                               Í fyrradag ákváðum við að taka smá verslunardag og kíkja til Cancún. Við fórum með rútu þangað sem tók klukkutíma og kostaði okkur 1900 kr fyrir okkur bæði fram og til baka (s.s. 4 x ódýrara en Flugrútan heima). Þegar við vorum komin þangað gátum við séð greinilegan mun á borginni Cancún og strandstaðnum Playa del Carmen. Í borginni voru mikið meiri læti, búðirnar allar með tónlistina í botni, bílar flautandi um allt og fólk á vappi allsstaðar. Þarna voru einnig mikið stærri búðir og við röltum eitthvað um í miðbænum. Hann var ekkert sérlega stór þannig að við ákváðum að taka okkur leigubíl í verslunarmiðstöð sem heitir Plaza las Americas og er frekar stór.

Leigubílstjórarnir hér í Mexíkó eru flest allir voðalega vingjarnlegir og yfirrukka mann ekki. Þeir eru bara með fast verð á leiðunum sem þeir keyra og maður er alltaf rukkaður sömu upphæð þótt maður fari með sitthvorum leigubílstjóranum. Í þessu tiltekna tilviki var leigubílstjóri undir stýri sem var sennilega rétt rúmlega jafnaldri okkar. Hann kunni voðalega lítið í ensku en vildi samt spjalla við okkur. Við sögðum honum hvaðan við værum (þeir spyrja okkur flestir að því þegar þeir heyra okkur tala saman) og spurði hvernig okkur líkaði Cancún. Svo fór hann að segja okkur frá verslunarmiðstöðinni og spurði hvort við þekktum ekki mynd sem fjallaði um 2 stelpur sem voru að fara í verslunarleiðangur. Það var náttúrulega ekki séns fyrir okkur að vita því hann mundi ekki nafnið á henni en fyndnast var þegar hann var að leika þessar stelpur á ensku og spænsku til skiptis.

Plaza las Americas var fín verslunarmiðstöð. Óskar var reyndar með eitthvað í maganum en vildi samt endilega leyfa Ingu að versla þannig að hann var svokallaður pokapassari og prufaði hina ýmsu bekki allsstaðar inni í verslunarmiðstöðinni. Á meðan skoppaði Inga milli búða og mátaði föt. Afraksturinn varð 3 kjólar og 5 bolir. Besta við það var að hér er flestur fatnaður ódýrari en heima og þar að auki eru útsölur. Flotta boli er til að mynda hægt að fá á 700 kr.

Í gær freystuðum við svo gæfunnar og athuga hvort við kæmumst ekki loksins til eyjunnar Holbox sem var búin að vera á planinu hjá okkur. Við vorum aðeins búin að lesa okkur til um hvernig við kæmumst þangað en það voru allt gamlar upplýsingar. Við tékkuðum okkur út af hótelinu og röltum niður í bæ með bakpokana á bakinu að ná í þvottinn okkar. Það var mjög heitur göngutúr og ákváðum við svo að taka leigubíl á rútustöðina. Þar þurftum við að bíða í 15 mínútur eftir næstu rútu til Cancún. Þegar á rútustöðina var komið sáum við eitthvað skilti sem stórð á Chequila sem er staðurinn sem við þurftum að komast á til að komast með ferjunni út í eyjunna. Þar stóð að rútan ætti að fara eftir 3 mínútur. Örlítið panikk kom í okkur og við hentumst að einum þjónustufulltrúanum sem benti okkur á næstu röð. Þar biðum við með krosslagða putta um að komast með. Í rútuna komumst við og náðum ekki einu sinni að hoppa á salernið milli rútuferða.

Næst tóku við 3 heitir og sveittir klukkutímar í annars flokks rútu sem stoppaði milljón sinnum á leiðinni og var bara með einföldum blæstri en ekki loftkælingu. Óskar taldi einu sinni að hún hefði stoppað 3 sinnum á tveim rútulengdum. Fólk var að koma inn og út alla leiðina en sennilega fannst okkur samt fyndnasti ferðafélaginn vera lítill gára-páfagaukur í búri sem byrjaði svo að syngja. Hann hefur ekki verið mikið bílveikur sá. Oft á leiðinni kom fólk inn sem vildi selja okkur ýmsan varning en þau höfðu nú lítið upp úr því.

Loks komum við til Chiquila og þá var klukkan að verða 17. Í höfninni flugu pelicanar, freygátufuglar og mávfuglar. Inga sá strax tilhlökkunina í augunum á Óskari þar eyjan er verndarsvæði fyrir fugla. Á hafnarbakkanum biðu svo leigubílar sem voru einskonar golfbílar þar sem hér eru mjög fáir bílar. Við röltum samt á hótelið okkar sem var alveg við hafnarbakkann og við hliðina á hafnarverðinum. Okkur fannst þetta hótel nú ekki beisið. Það voru ekki gler í öllum gluggunum í herberginu, einungis net sem var svo gróft að 2 moskítóflugur hefðu getað mæst í því. Við erum sem betur fersvo vel búin að við vorum með moskítótjald með okkur sem við keyptum fyrir Suður-Ameríkuferðina okkar að við tjölduðum bara á rúminu okkar. Netið er líka rosalega lélegt hér og við þurfum að halda á tölvunni úti í glugga til að fá netsamband. Það er því ólíklegt að við skype-umst eitthvað í augnablikinu.



Um kvöldið fengum við okkur svo göngutúr niður í miðbæinn sem er 6 götum frá okkur. Hér eru göturnar ekki malbikaðar og mjög fáir ljósastaurar. Golfbílar standa svo nánast við hvert hús. Það er því mjög spes en skemmtileg stemning sem fylgir þessum stað. Í miðbænum settumst við svo inn á pizzastað þar sem við pöntum okkur mjög góða pizzu (besti matur ferðarinnar hingað til að mati Ingu). Óskar gat samt ekki borðað mikið þar sem maginn á honum var eitthvað extra mikið að stríða honum og við enduðum á því að fara bara aftur upp á hótel og horfa á einhverja eld gamla mynd með Jean Claude van Damme.



Í dag var svo vaknað og farið í sturtu. Það var nú menningarsjokk út af fyrir sig en sturtuhausinn er risastór kuðungur sem vatnið lekur út um. Óskar þurfti að byrja á því að fjarlægja dauðann kakkalakka úr sturtunni (Ingu ekki til mikillar ánægju) auk þess sem vatnið sem úr henni kom var náttúrulega hitað = ískalt. En við lítum bara á þetta sem eftirminnilega lífsreynslu og þær eru yfirleitt skemmtilegar... allavega eftirá.



Í dag er svo planið að fara um eyjuna. Okkur stendur til boða að leigja okkur gólfbíl fyrir 1000 kr klukkutímann. Okkur finnst það dáldið freystandi og taka um leið þátt í þessari óvenjulegu stemningu. Við vonumst einnig til að finna fullt af fuglum svo Óskar geti myndað á meðan Inga sleikir sólina.   

Engin ummæli:

Skrifa ummæli