Xscaret er garður sem leggur áherslu á dýralíf og menningu Mexíkó. Garðurinn er risastór og á hverju ári "framleiðir" hann dýr sem eru í útrýmingarhættu og sleppir í náttúruna. Garðurinn á t.d. Guinnes heimsmet í fjölda Macaw páfagauga klöktum á einu ári (105 stk).
Óskar var í essinu sínu þennan dag og tók vel yfir 600 myndir enda var allt í þessum garði lifandi. Litlar sem stórar eðlur og iguana voru þarna vappandi um allt. Auk þess voru risaskjaldbökur sem þeir rækta og hægt að sjá þær misstórar allt frá 3 mánaða upp í 9 mánaða en þá sleppa þeir þeim í sjóinn. Núna er akkúrat tíminn sem skaldbökurnar eru að verpa í sínu náttúrulega umhverfi. Þarna voru líka apar, maurætur, villisvín, þvottabirnir, fiðrildi og fiskar. Okkur fannst samt magnað að sjá púmur vera að snyrta hvor aðra og standa og horfast í augu við jagúar. Þarna var svo líka hægt að snorkla og synda með skötum og höfrungum.
Þarna voru líka ýmsar sýningar yfir daginn sem tengjast menningu Mexíkó. Fyrst sáum við sýningu svokallaðra fljúgandi manna.Athöfnins fer þannig fram að 5 menn klifra upp í 30 metra háan trédrumb þar sem 4 af þessum 5 láta sig svo falla afturábak niður einungis með kaðal bundinn um mittið á sér. Þar snúast þeir í 13 hringi utan um drumbinn en fara svo í aðra litla hringi í leiðinni. Þegar þeir eru komir aftur á jörðina eru þeir búnir að snúast 52 hringi, jafnmarga og vikurnar í árinu eru. Fimmti maðurinn situr á toppi drumbsins og dansar og spilar á flautu og trommu. Samkvæmt þjóðsögunni var þetta framkvæmt til þess að biðja guðina um rigningu og frjósemi jarðarinnar. Í dag er þessi athöfn komin á lista UNESCO.
Í gær ákváðum við svo að fara til Tulum sem er í 45 mín fjarlægð frá Playa del Carmen. Þar eru rústir frá tímum Mayanna sem þjónaði sem hafnarstaður fyrir annan stað sem við eigum vonandi eftir að fara að skoða og heitir Cobá og er aðeins innar á Yukatanskaganum. Rústirnar standa á 12 metra háum kletti og stendur á móti Karabíska hafinu. Tulum var ein af síðustu borgunum sem voru byggðar af Mayunum og var í mestum blóma frá um 1300 - 1500 e.kr og náði að lifa af í um 70 ár eftir að Spánverjar náðu hér völdum. Talið er að sjúkdómar sem Spánverjarnir fluttu með sér hafi orðið borginni að falli.
Í Tulum var svakalega heitt og sennilega hefur þetta verið heitasti dagurinn okkar hingað til. Hins vegar eru engir hitamælar hér neinsstaðar því heimamönnum þykir þetta ekkert voðalegt því það er víst vetur hér núna. Við klakaklumparnir svitnum samt eins og enginn sé morgundagurinn og drekkum heilu lítrana af vökva á dag. Skemmtilegt þótti okkur samt að sjá að iguana og eðlur voru þarna um allt og féllu alveg svakalega inn í landslagið og rústirnar sem gerði svæðið enn dularfyllra fyrir vikið.
hæ frábærar myndir og skemmtileg ferðasaga
SvaraEyðaKv heiða