3. febrúar 2013

Guatemala og Honduras


Seinni dagurinn okkar í Antigua var mjög fínn. Við gengum í bæinn fljótlega upp úr hádegi og skoðuðum þar gamla kirkju, fullt af búðum og stóran markað. Við keyptum samt mjög lítið, eiginlega bara dúk sem mamma hennar Ingu var búin að biðja hana um að kaupa.



Óskar er orðinn fínn í maganum eftir að hafa fengið lyfin í Belize. Við vorum samt ekki viss um hvort hann hefði ofnæmi fyrir pensilíni en það voru einhverjar pælingar um það þegar hann var lítill því það þekktist í fjölskyldunni hans. Læknirinn hélt samt að það ætti að vera í lagi fyrir hann að taka pensilínlyf því sýklalyfið sem hann hafði prófað fyrst var með einhverju pensilínsambandi. Við vitum það hins vegar fyrir víst núna að hann er með ofnæmi fyrir pensilíni því einn morguninn vaknaði hann eins og dalmantíuhundur. Sem betur fer tókum við með okkur ofnæmislyf auk þess að við eigum svo góða að að við gátum beðið Sillu frænku hennar Ingu um ráð. Hún benti Óskari á að hætta á pensilínlyfinu og gaf okkur nafn á öðru sýklalyfi sem við gátum keypt í staðinn. Núna er Óskar nánast orðinn eðlilegur aftur.



Daginn eftir vorum við búin að panta okkur skutlu til stærsta útimarkaðar í Guatemala en hann er staðsettur í bæ sem heiti Chichicastenango og er í um 2.000 metra hæð. Það tók okkur 2,5 klst að komast þangað frá Antigua. Við vorum orðin dáldið stressuð yfir að þurfa kannski að ganga í gegn um markaðinn með bakpokana okkar á bakinu en sem betur fer fengum við að geyma farangurinn okkar inn í bílnum sem við komum með þrátt fyrir að vera að fara með öðrum seinna um daginn. Við röltum svo að markaðnum sem teygði sig í allar áttir. Margir voru samt að selja það sama, alls kyns textílvörur en þarna var líka hægt að kaupa matvöru, fatnað, tónlist, heimilistæki og jafnvel ótrúlega sætan hvolp sem sat þarna skíthræddur. Við vorkenndum honum rosalega og það lág við að Inga hefði keypt hann og tekið hann með í bakpokanum heim. Það var samt lítið sem við keypt um þarna enda búin að sjá sömu hlutina 100 sinnum hér.





Eftir að við vorum búin að fá nóg af markaðnum röltum við aftur að bílnum og farangurinn okkar var sem betur fer enn þar. Við fórum svo í bílinn sem við vorum búin að panta far með til Panajachel sem er lítill bær við vatn sem heitir Lago de Atitlán og er í raun askja sem myndaðist fyrir mörg þúsund árum. Í kring um vatnið eru 3 stór eldfjöll sem ná í um 3000 – 3500 metra yfir sjáfarmál. Við skráðum okkur inn á hótelið okkar sem er við hálfgerða göngugötu hér í bænum. Við ákváðum strax að kíkja út eftir að við vorum búin að henda farangrinum okkar inn og athuga með rútuferðir til Honduras á laugardag. Við gengum á milli en allir vildu að við myndum gista eina nótt í Antigua til að ná rútu til Honduras sem færi kl. 4 að morgni. Við fundum eina ferðaskrifstofu sem sagðist eiga ferð kl. 09:30 frá Panajachel til Antigua, klukkutíma stopp þar og svo yrði haldið áfram til Copán í Honduras. Við keyptum það far, og vonum bara að það standist allt saman.



Við ákváðum líka að kaupa okkur siglingu um vatnið daginn eftir (föstudag). Restinni af deginum eyddum við svo röltandi um bæinn.

Á föstudaginn var svo farið í þessa siglingu sem við keyptum. Við vorum mætt í frauðplastbátinn um kl. 08:30 og sigldum af stað út á vatnið. Með bátnum fórum við í 3 mismunandi þorp sem öll standa við vatnið. Fyrsta þorpið hét San Marcos og við röltum bara þar um, enda ekki mikið að sjá. 




Næsta þorp var San Pedro þar sem við fengum 2 klst stopp. Við ákváðum að leigja okkur leiðsögumann í klukkutíma og við fengum hann Juan til að ferðast með okkur. Hann reddaði okkur tuctuc sem keyrði okkur þangað sem við gátum séð kaffirækt og við fengum að sjá og smakka kaffifræ beint af plöntunni. Hann útskýrði fyrir okkur Spænsk-ensku hvernig kaffiframleiðslan fer fram. Því næst fórum við að skoða kirkju í bænum, heimsóttum eldgamlann listamann inn í svefnherbergið hans þar sem hann var með skúlptúra til sölu og fórum svo á matarmarkað. Klukkutíminn var samt fljótur að líða og fyrr en varði vorum við komin aftur í bátinn. Næsta þorp var Santiago Atitlán þar sem við röltum um enn einn markaðinn. Þarna gátum við samt keypt fullt af hlutum því þarna var aðeins meiri fjölbreytni en á hinum mörkuðunum. Óskar fékk smá útrás fyrir prútti, en það er nýjasta skemmtunin hans.







Því næst var siglt aftur til Panajachel og við röltum upp á hótel. Við hentum af okkur dótinu og ætluðum aðeins að setjast niður til að hvíla okkur eftir daginn, enda ekki bekkir neinsstaðar til að setjast á. Við vöknuðum hins vegar 2 klst seinna og þá var klukkan orðin 5. Við drifum okkur þá út til að nota síðustu birtuna og fá okkur að borða.

Í gær biðum við svo eftir að við yrðum sótt af skutlu sem ætlaði að keyra okkur aftur til Antigua til að ná annarri skutlu til Cobán í Honduras. Maður er alltaf orðinn hæfilega stressaður yfir að það verði ekki náð í mann þar sem lífið hér gengur allt einum takti hægar en maður er vanur. Þegar við vorum búin að bíða korter lengur en brottfarartíminn úr bænum átti að vera, kom loksins bíllinn okkar og skutlaði okkur til Antigua þar sem við fengum klukkutíma pásu áður en við fórum um borð í seinni bílinn. Við vorum bara 3 plús bílstjórinn og framundan voru 7 klst af akstri um mjög hlikkjótta fjallavegi. Við þurftum að keyra í gegn um Guatamala city aftur og það tók okkur 90 mínútur að komast í gegn um hana. Þvílíkar umferðarteppur um allt og risa stór borg.



Hérna keyrir fólk eins og brjálæðingar og við vorum að sjá að bílstjórinn var að taka beygjur á 90-100 km hraða. Skörpustu beygjurnar tók hann þó á 70-80 km hraða og maður þurfti að halda sér til að sitja enn í sætinu. Bílarnir hér nota líka öll tækifæri til að taka fram úr og einu sinni mættum við bíl sem var að taka fram úr öðrum bíl. Það voru þá 3 bílar á 2 akreinum á nánast fullum hraða. Inn á milli bíla keyra svo mótorhjól á fullum hraða iðulega með farþega aftaná og enginn með hjálm, hvað þá heldur í hlífðarfatnaði. Það er greinilega stórhættulegt sport hérna því bara á þessari einu leið sáum við 6 hjól sem höfðu farið á hliðina þann daginn.

Við erum enn sömu saklausu Íslendingarnir þegar kemur að vopnaburði öryggisvarða og lögreglu í Guatemala. Allir verðir eru með skambyssu. Allir bankaöryggisverðir eru með hagglabyssur. Í gær sáum við svo 2 hiluxa með 50 cal. vélbyssur aftaná pallinum ásamt manni sem var tilbúinn að nota hana auk nokkurra annarra lögreglumanna sem voru allir með haglabyssur. Ég held að við eigum aldrei eftir að venjast þessu en skiljum þó að það þýðir ekkert annað í svona löndum þar sem eiturlyf stjórna heiminum og jafnvel stjórnkerfinu. Til marks um það hversu auðvelt er að redda sér eiturlyfum hér hefur Óskari tvisvar verið boðið að kaupa eiturlyf út á götu.

Loks komumst við svo að landamærum Guatemala og Honduras. Landamæraskiptin gengu smurt fyrir sig og landamæravörðurinn í Honduras var mjög ánægður að sjá Íslendinga. Við vorum keyrð í bæ sem er rétt við Mayarústirnar í Cobán og þaðan þurftum við að taka tuctuc á hótelið þar sem engir leigubílar eru í boði. Þegar við vorum komin í úthverfi bæjarins sprakk á tuctuc-inum. Við urðum strax smá skelkuð því við vitum að sprungin dekk hafa verið notuð til að draga athyglina frá fólki á meðan það er rænt. Óskar fór því að hjálpa stráknum sem keyrði tuctuc-inn um að skipta um dekk á meðan Inga passaði farangurinn og að enginn væri að fara í vasana hjá Óskari. Þetta gekk þó fljótt fyrir sig og við vorum fljótlega komin aftur á ferðina. Hótelið okkar er 2 km frá rústunum og þurftum við að keyra dreifbýlisveg í niðamyrkri til að komast þangað. Við sáum varla hvort annað í myrkrinu þrátt fyrir að sitja hlið við hlið því þessir tuctuc-ar eru með svo dauf ljós. Við komumst nú samt á leiðarenda og á hótelið okkar sem er rosalega flott.

Við hentum af okkur töskunum og fórum á veitingarstaðinn á hótelinu. Því næst skelltum við okkur í kaldan heitan pott til að hrissta af okkur bílferðina. Það var mjög notarlegt þrátt fyrir að teljast vera hlandvolgt á íslenskum mælikvarða. Afslöppuð og sæl rotuðumst við svo yfir sjónvarpinu.

Í dag er svo planið að skoða þessar rústir og jafnvel fara í fuglagarð þar sem maður getur séð alls konar framandi fuglategundir.  

2 ummæli:

  1. Alltaf jafn skemmtileg lesning, maður er alveg fairn að bíða eftir næstu færslu :)
    Knús á túristana Kalla

    SvaraEyða
  2. Var að enda við að lesa allar færslurnar ykkar í einu, ekkert smá skemmtileg lesning! Vonandi fer magakveisan að hætta að hrjá ykkur. Nú veit ég ekki hvað þið ætlið langt en ég hlakka mikið til að lesa um Nicaragua og Costa Rica ef þið farið þangað - Drauma löndin mín í Mið Ameríku... búin að dreyma ansi lengi um að fara þangað :)
    Haldið áfram að njóta ferðalagsins!

    SvaraEyða